Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Davíð þór uppfyllir eigin prédikun

Davíð Þór kallaði forseta Íslands lygara og rógtungu, sem sagt bar út róg um hann. Líklega hefur hann ekki verið búinn að lesa sína eigin prédikun sem hann birti á sínu eigin bloggi nokkrum dögum fyrr, prédikun sem hann titlaði Cristiano Ronaldo, flísin og bjálkinn. Nema klámblaðsritstjórinn fyrrverandi og guðsmaðurinn núverandi hafi ætlað að sanna prédikunina á sjálfum sér.

Annars skil ég ekki hvað mönnum finnst frábært við þessa rógsherferð hans gegn Ólafi Ragnari. Davíð Þór réðst að forsetanum m.a. fyrir að hann skyldi leyfa sér að benda á það augljósa siðleysi að fréttamaður á RÚV skuli fjalla um forsetakosningar á sama tíma og eiginkonan er að undirbúa framboð. Hvaða tréverk er að birgja guðsmanninum rétta sýn á málefnin?


mbl.is Skilur ekki afstöðu Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prestur innflytjenda óskar eftir söfnun vegna hamfaranna í Japan

Hinn japanski prestur innflytjenda, Toshiki Toma, hefur óskað eftir að fólk skori á Rauða Krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar að hefja söfnun fyrir fórnarlömb jarðskjálftanna í Japan. Pistil hans má lesa með því að smella hér.

Hér með tek ég undir þessa áskorun og kem henni á framfæri. Sjálfur hef ég sent eftirfarandi áskorun til RKÍ og Hjálparstarfs kirkjunnar. Ykkur er velkomið að nýta þennan texta, en hvort sem þið gerið það eða notið ykkar eigin orðalag, endilega ekki láta undir höfuð leggjast að knýja á um að söfnun verði hafin.

 

Sæll/sæl.

Prestur innflytjenda á Íslandi, Toshiki Toma, hefur beðið lesendur sína að skora á Hjálparstarf kirkjunnar og Rauða Kross Íslands að hefja söfnun fyrir Japan vegna hinna hræðilegu náttúruhamfara sem þar geisa nú um þessar mundir.

Hér með kem ég þessari áskorun á framfæri og tek heilshugar undir hana.

Með vinsemd og virðingu,

[Þitt nafn] - (sleppið að tilgreina nafn ef þið kjósið nafnleynd af einhverjum ástæðum)

 

Netföng hjá Rauða krossinum er central@redcross.is og help@help.is hjá Hjálparstofnun kirkjunnar.


Smánarblettur á þjóðkirkjunni sem boðbera ljóss sannleikans og kærleikans

Kynferðisbrot eru alvarlegir glæpir og sérstaklega þegar börn og unglingar verða fyrir þeim. Enn verra er þegar slík óhæfa er framin af þeim sem hafa valist sem leiðtogar og sálgæsluaðilar. Fólk hefur fram til þessa að öllu jöfnu treyst prestum þar sem hlutverk þeirra er að veita leiðsögn og huggun og er síður á varðbergi gegn þeim. Það kann að breytast töluvert til hins verra í ljósi þeirra mála sem hafa verið að koma upp á yfirborðið er snerta kynferðislega misnotkun presta á konum unglingsstúlkum og jafnvel börnum.

Sumir vilja kenna kristinni trúariðkun um það að þeir sem starfa innan kirkjunnar fremji kynferðisafbrot. Þær fullyrðingar standast ekki þar sem þá myndu kynferðisbrotamenn ekki finnast annars staðar en í kristilegu starfi. Staðreyndin er að þeir koma úr öllum stéttum og stöðum.

Þvert á móti bendir há tíðni kynferðislegra brota innan kirkjunnar til þess að hinir brotlegu séu ekki að fara eftir boðskapnum sem þeir eiga að boða. Það er síðan mjög alvarlegur hlutur, því hvernig ætla þeir sem boða kristilega breytni að fá fólk til fylgis við boðskapinn ef þeir virða hann sjálfir að vettugi?

Ef hin lúterska kirkja ætlar ekki að hreinsa til innan sinna raða og gera þessi mál upp er það áfall fyrir kristna trú í landinu, sem á nógu mikið í vök að verjast án þess að svona alvarleg brot bætist við. Tilraunir biskupsins til að moka yfir óþverrann með hástemmdum tilvísunum í dóm Guðs á efsta degi eru ósmekklegar og óásættanlegar.

Æðsti maður stærsta kristna safnaðar landsins á að vita að þó dómsdags sé að vænta fyrir alla menn merkir það ekki að aldrei skuli dæma um mál sem koma upp í daglegu lífi fólks eða taka á brotum. Líklega veit hann þetta en segir annað til að hylma yfir hinum seku. Það lítur út fyrir að biskupinn meti völd og forréttindi fámennrar prestastéttar meira en velferð hinna lægra settu skjólstæðinga kirkjunnar.


mbl.is Kynferðisbrot þögguð niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir

Það er ánægjuefni að Hið íslenska biblíufélag skuli vera komið á Facebook. Félagið hefur staðið eins og stólpi við að færa myrkvuðum heimi, sem sekkur sífellt dýpra í spillingafen, fátækt fleiri samhliða ríkidæmi stöðugt færri, styrjaldir og mengun, góðu fréttirnar af frelsaranum Jesú Kristi. Ekki veitir af, uppskerutíðin nálgast.

Ekkert gefur sálinni eins mikið og lestur og íhugun Orðs Guðs í bæn, ásamt breytni eftir Orðinu í kjölfarið.


mbl.is Biblíufélagið er komið á facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósáttfúsi þjónninn

Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.

Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.  Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.

Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði.

Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.

Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“ 

 

 

Þessi dæmisaga Jesú í 18. kafla Matteusarguðspjalls fjallar um nauðsyn þess að vera fús til að fyrirgefa öðrum, um leið og við þiggjum sjálf fyrirgefningu Guðs í Kristi. Til að setja fjárhæðirnar í sögunni í samhengi sem við þekkjum skal upplýst að einn denar jafngilti daglaunum landbúnaðarverkamanns á fyrstu öldinni. Ein talenta jafngilti sex þúsund denörum.

Þjónninn í dæmisögunni skuldaði konunginum 10 þúsund talentur, eða hvorki meira né minna 60 milljón daglaun, eða miðað við 200 vinnudaga á ári 300 þúsund ársverk dag launamanns. Lægstu árslaun verkamanns hér á landi fyrir fulla dagvinnu má ætla að séu tvær milljónir og heildarskuld þjónsins við herra sinn var þannig 600 milljarðar. Er ekki einmitt sagt að íslenska ríkið þurfi að taka 600 milljarða íslenskra króna að láni vegna yfirvofandi skuldbindinga sinna erlendis?

Boðskapurinn er þannig skýr: Þjónninn skuldaði herra sínum meira en hann gat með nokkru móti borgað. Konungurinn sá aumur á honum og afskrifaði skuldina. Bar þjóninum ekki siðferðisleg skylda til að gefa náunga sínum eftir skuld sem var aðeins brot af því sem hann hafði sjálfur fengið fellt niður?

Einn ágætur vinur minn úr KFUM sagði að fyrirgefning Guðs hafi ekki verið virk í lífi hans, hvort sem hann skildi hana ekki, eða kunni ekki að meta hana. Segja má að við séum öll annað hvort í stöðu þessa ósáttfúsa þjóns gagnvart konungi okkar, Guði almáttugum, eða í stöðu samþjónsins sem var í skuld við hinn þjóninn.

Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð segir Páll í Rómverjabréfinu og þurfa á fyrirgefningu að halda. Sömuleiðis hafa allir orðið fyrir því að einhver hefur gert honum eða henni eitthvað og verið gerendur sjálfir. Hvernig bregst þú við lesandi góður, þegar einhver gerir þér skráveifu? Leitastu við að jafna sakirnar eða sýnirðu umburðarlyndi, vitandi að þú ert líka veik(ur) á svellinu?

Rétt eins og erfitt er að skilja hvernig þjónninn í dæmisögunni gat komið sér í hvílíkar skuldir hafa íslenskir fjármálamenn stofnað til svo hárra skuldbindinga í útlöndum að flestir klóra sér í höfðinu yfir þeim fjárhæðum. Egill Helgason spurði Jón Ásgeir í hinu fræga viðali á dögunum hvernig þeir félagarnir fóru eiginlega að því að koma sér og þjóðinni í svona mikil vandræði.

Bretar, Hollendingar og fleiri þjóðir gera háar kröfur á íslenska ríkið vegna tapaðs sparifjár þegna sinna, sem þeir áttu í íslenskum bönkum erlendis og hefur gufað upp. Þessar kröfur vegna bankanna virðast ætla að lenda á núlifandi og næstu kynslóðum íslenskra skattgreiðenda og við skuldum flest þessum sömu bönkum húsnæðislán, bílalán, yfirdráttarlán, eða lán vegna atvinnurekstrar.

Er málið þó ekki flóknara en svo að hægt sé að fella niður skuldir upp á hundruðir eða þúsundir milljarða með einu pennastriki á þeim forsendum að Guð hafi fyrirgefið okkur? Það yrði til þess að lánardrottnar, þar á meðal góðgerðarsamtök og sveitarfélög, sem eru fæst of sæl af sínu, myndu tapa miklum fjármunum.

Við getum lært af dæmisögunni um ósáttfúsa þjóninn og við getum lært af mannkynssögunni. Eftir að bandamenn báru sigur af Þjóðverjum og bandalagsríkjum þeirra í heimsstyrjöldinni fyrri var Þýskaland gert ábyrgt fyrir eyðileggingunni af völdum styrjaldarinnar. Með Versalasamningnum svonefnda var þýska ríkinu gert að greiða stjarnfræðilegar upphæðir í stríðsskaðabætur.

Landið stóð ekki undir þessum álögum. Afleiðingin varð óðaverðbólga og kreppa sem lætur núverandi þrengingar líta út eins og fermingarveislu. Öfgaöfl fasismans skutu rótum, brjálæðingurinn Adolf Hitler komst til valda og framhaldið þekkja flestir.

Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar höfðu Vesturlönd lært af reynslunni og í gegnum Marshallaðstoð Bandaríkjanna var Þýskaland byggt upp í góðu bandalagi við fyrrum óvinalönd sín. Það leiddi til þess að Þýskaland, varð með tíð og tíma öflugt efnahagsveldi og lýðræðisríki. Sárin greru hægt, en þau greru.

Vonandi læra Bretar af reynslunni, sem og við Íslendingar. Það á að draga hina seku til ábyrgðar, en það má ekki heldur láta refsinguna vera úr meðalhófi og meiri en þeir geta risið undir. Haldi Bretar og aðrir lánardrottnar því til streitu að láta íslenska ríkið borga hvern eyri af skuldum sínum mun það leiða til landflótta, minni framleiðni, óðaverðbólgu og þeir munu aðeins fá lítinn hluta af skuldum sínum greiddar.

Eins held ég að hinir íslensku fjármálamenn sem hafa spilað rassinn úr buxunum á sjálfum sér og þjóðinni munu ekki geta staðið undir þeim skuldbindingum sem þeir hafa flækt sér í, þótt hver snekkja, einkaþota, sumarbústaður og skúffufyrirtæki í skattaparadísum verði selt eða dregin fram í dagsljósið.

Látum meðalhófið vera okkur að leiðarljósi, sem og mannúð og mildi Krists í þessu erfiða uppgjöri sem er framundan. Guð blessi land og þjóð.


Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband