Færsluflokkur: Íþróttir

Var ekki innistæða fyrir væntingunum?

Ég var að gæla við þá hugsun í síðustu færslu að ástæðan fyrir góðu gengi Íslands á þessu heimsmeistaramóti, væri að okkar undanriðill hafi ekki verið eins sterkur og hinir þrír. Þessi úrslit í kvöld virðast styrkja þann grun. Það segir sig sjáft að undanriðill með þremur síðustu heimsmeisturum hlýtur að vera mjög sterkur.

Það er vitað mál að því lengra sem komist er á stórmóti í knattíþróttum því erfiðari verða mótherjarnir. Í þessum fyrsta leik í milliriðli keyrðu okkar menn á vegg. Þeir náðu ekki að skora í tólf mínútur og það er ávísun á tap þegar keppt er á móti jafn sterku liði og Þjóðverjum.

Kannski var ekki innistæða fyrir væntingum okkar um að Ísland kæmist á verðlaunapall. Hinsvegar mega íslensku leikmennirnir eiga það að þeir börðust allan leikinn og töpuðu með sæmd.


mbl.is Fyrsta tap Íslands á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnað lið

Enn sýnir íslenska handknattleikslandsliðið að árangur þeirra hingað til á þessu móti er engin tilviljun. Sem betur fer reyndist kusa ekki sannspá í þetta sinn (sjá síðustu færslu mína.)

Ég hef haft gaman af því að skoða markatölu Íslands í undanförnum keppnum og bera saman við markatöluna hjá öðrum þjóðum í fremstu röð í handboltanum.

Ísland er með markatöluna 157:119 þegar öllum leikjum í riðlinum okkar er lokið. Danir frændur okkar eru með markatöluna 148:88, en eru nú að leika síðasta leikinn í sínum riðli, þannig að þeir fara eflaust upp í 170 mörk. Þannig að þeir eru greinilega með gott sóknarlið og varnarleikurinn er góður hjá þeim, því þeir munu líklega fá á sig færri mörk en okkar menn, að lokinni riðlakeppninni.

Frakkar eru með markatöluna 131:78 og eiga eftir að mæta Spánverjum þannig að líklega verða þeir með færri skoruð mörk en Ísland. Hinsvegar er vörnin hjá þeim líka gríðarlega sterk eins og talan yfir mörk sem þeir fá á sig gefur til kynna. Þjóðverjar eru með markatöluna 151:125 og hafa lokið riðlakeppninni.

Þannig að samkvæmt tölfræðinni eru okkar menn með allavega þriðja besta sóknarleikinn og útlitið bjart fyrir átökin í milliriðlinum.

Til að gæta allrar sanngirni verður að taka það fram að ekki er víst að framangreindar tölur gefi rétta mynd af liðunum. Riðlarnir eru hugsanlega misjafnlega sterkir. Manni finnst að riðill með Frakklandi, Spáni og Þýskalandi hljóti að vera gríðarlega erfiður. Eins er ég ekki frá því að Danir hafi verið í frekar erfiðum riðli. Í okkar riðli var ekkert annað lið en okkar menn, sem hafa leikið um verðlaunasæti á stórmótum undanfarin ár og að mér sýnist eini riðillinn sem svo er ástatt um. Þannig að ekkert er hægt að gefa sér.


mbl.is Norðmenn kjöldregnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræður markatalan?

Ef svo illa fer að Noregur vinni okkar menn í kvöld byrja bæði liðin ásamt Ungverjalandi milliriðilinn með tvö stig. Þá hlýtur upphafsstaða þeirra í riðlinum að ráðast af markatölu (eða hvað?) Við verðum líklega með bestu markatöluna og þar með fyrir ofan Norðmenn og Ungverja.

Við skulum vona að beljan Glæta frá Hrunamannahreppi verði ekki sannspá (glætan!) um að Noregur vinni. Beljur vinna ekki ekki handboltaleiki, nema í örfáum undantekningartilvikum, þ.e. ef sumir leikmennirnir eru mjög klunnalegir og luralegir, eins og beljur. Ekki eru okkar menn þannig.

Ef einhver leikur í þessari keppni má tapast er það einna helst þessi, en vonum að strákarnir vinna þá norsku og við vitum að þeir geta það. Áfram Ísland.


mbl.is Mikið í húfi í Linköping
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjulegt að fá öflugan þjálfara vestur

Þegar ég var hjá áhugamannaliði á Ísafirði, sem reyndar tók við af BÍ eitt sumarið vegna fjárhagsörðugleika síðarnefnda félagsins (fyrir sameiningu við Bolungarvík) fékk aðalmaðurinn þar furðulega hugmynd að mínu mati. Hann stakk upp á að við réðum Vöndu Sigurgeirsdóttur sem þjálfara.

Ég spurði hann hvort hann væri með báða fætur á jörðinni og hvað það myndi kosta. Sé núna að þetta var ekki eins fjarlægt og ég hélt. Nú er BÍ/Bolungarvík komið með mikið frægari einstakling sem þjálfara en Vöndu Sigurgeirs. Vonandi gengur fyrrum sveitungum mínum vel í knatttspyrnunni eftir þetta, þó ég velti því fyrir mér hvað þessi ráðning muni kosta.


mbl.is Guðjón: Líst vel á að takast á við krefjandi hluti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætla vandræðin í kringum Maradona aldrei að hætta?

Eins og kunnugt er þreytti Maradona frumraun sína sem þjálfari á alþjóðlegu stórmóti á heimsmeistaramótinu nú í sumar sem fram fór í Suður-Afríku. Margir vildu meina að þessi fyrrum besti knattspyrnumaður heims væri ekki eins góður þjálfari og hann var sem leikmaður.

Óhætt er að segja að Argentínumenn hafi byrjað vel í Suður-Afríku. Þeir unnu alla leiki sína oftast örugglega og brotlentu síðan illilega á móti ungu og spræku liði Þjóðverja, en þessar tvær þjóðir hafa lengi eldað saman grátt silfur. Í kjölfarið fóru af stað vangaveltur um framtíð Maradona sem landsliðsþjálfara.

Knattspyrnuáhugamenn vita flestir hvernig það fór, en nú segir Expressen frá því að nýi þjálfarinn Carlos Bilardo ætli að ná sér niður á goðinu á blaðamannafundi í næstu viku með því að afhjúpa sannleikann um þjálfaratíð Maradona. Athugið að fréttin er á sænsku. Þess má geta að Maradona sakaði Bilardo um svik við sig er ákveðið var að hann myndi hætta með liðið.

Gaman verður að sjá og heyra hvað kemur fram á þessum blaðamannafundi. Ég held að Ingi Björn Albertsson hafi hitt naglann á höfuðið með því sem hann sagði um Maradona eftir að það mældust í honum ólögleg örvandi efni við lyfjapróf á HM 1994. Hann sagði að það væri sorglegt að maður með svona gríðarlega hæfileika skyldi jafnframt vera með svona mikla skapgerðarbresti.


Sóknarprestur

Prestur í Hollandi rekinn fyrir fótboltamessu fyrir úrslitaleik HM. Þessa kostulega frétt er að finna á vefsíðunni Fótbolti.net.

Ég skil samt ekki hvers vegna maðurinn tók sér hlutverk markmannsins af öllum stöðum á vellinum. Hann er nú einu sinni sóknarprestur, ekki satt? Eða réttara sagt var það. Hinsvegar stóð sóknarbarnið sem sparkaði boltanum til hans undir nafni.

Það er sennilega rétt sem sagt er, að knattspyrnan sé orðin að trúarbrögðum.

 


Spánverjar hafa verið betri

Ekki get ég tekið undir það álit íþróttafréttaritara mbl.is að leikurinn hafi verið hnífjafn. Spánverjar hafa stjórnað leiknum, verið mest með boltann þó þeir þýsku hafi komist í eina og eina skyndisókn.

Spánn er marki yfir og síðustu fimmtán mínúturnar verða rosalegar. Átti von á Þjóðverjum mun beittari, en menn Vicente del Bosques hafa lesið handbókina um þýska landsliðið mjög vel og séð í gegnum flestar þeirra aðgerðir. Vörn Þjóðverja hefur samt verið mjög sterk.

Svona leikir ráðast oft af því hvort liðið hefur unnið heimavinnuna sína betur.


mbl.is Spánn leikur til úrslita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ætli Spánverjar séu að hugsa?

Þjóðverjar hafa spilað leiftrandi góða knattspyrnu í þessu móti og þessi leikur í dag er þeirra besti hingað til. Öfugt við það sem oft hefur átt við þýska liðið, þegar þeir hafa verið að spila leiðinlega kraftakarla knattspyrnu á heimsmeistaramótum og þótt stálheppnir að komast alla leið, verðskulda þeir sannarlega að vera komnir þangað sem þeir eru komnir.

Líklegt verður að teljast að þeir spili til úrslita og hampi heimsmeistaratitlinum. Ég velti því fyrir mér hvað bærist í kollum Spánverja núna. Hvort þeir ættu að panta sér flug heim strax á morgun? Eða Paragvæmenn, fari svo að þeir hafi betur í leiknum í kvöld.


mbl.is Þjóðverjar stórkostlegir og burstuðu Argentínumenn, 4:0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirliði Þjóðverja auðmýkir enska knattspyrnulandsliðið

Þjóðverjar eru ekki þekktir fyrir minnimáttarkennd, hvorki í knattspyrnunni né á öðrum sviðum. Í frétt á vefsíðu Vísis rassskellir Philipp Lahm fyrirliði þýska landsliðsins Englendinga og lætur þá sannarlega vita hvar þeir standa, eftir stórsigur Þjóðverja á þeim í 16 liða úrslitum HM. Þjóðverjinn vill meina að nú loks mæti þeir stórliði þegar þeir etja kappi við Argentínu á morgun í fjórðungsúrslitum.

Englendingar ollu vonbrigðum á þessu heimsmeistaramóti, með hugmyndasnauðum og bitlausum sóknarleik. Wayne Rooney og Stephen Gerrard, náðu sér engan veginn á strik. Því verður að segjast eins og er að fyrirliðinn hefur ýmislegt til síns máls.

En það gæti farið svo að auðmýking Philipps Lahm komi í andlitið á honum sjálfum á laugardaginn, líkt og ör sem skotið er upp í vindinn. Það kemur fram í annarri frétt á Vísi að Lionel Messi sé mikill aðdáandi Noel og Liam Gallagher í bresku hljómsveitinni Oasis og hlusti ekki á aðra tónlist fyrir leiki.

Hann ætli þeirra vegna að hefna ósigurs Englendinga gegn Þjóðverjum með því að vinna síðarnefnda liðið á laugardaginn. Gaman verður að sjá hvort besta knattspyrnumanni heims að margra mati takist ætlunarverkið og sýni hvað í honum býr.


Gefið boltann oftar á okkur!

Þegar strákarnir okkar í handboltalandsliðinu komu heim með bronsið sem þeir unnu á Evrópumótinu var tekið vel á móti þeim í Laugardalshöllinni. Fyrrum félagi þeirra íþróttafréttamaðurinn Einar Örn náði tali af nokkrum landsliðsmannanna, þar á meðal Ingimundi Ingimundarsyni og Vigni Svavarssyni.

Einar Örn benti á að sú vinna sem varnarmennirnir inna af hendi væri mjög oft vanmetin, sem er alveg rétt hjá honum. Áhorfendur hrífast þegar þrumufleygar Arnórs Arons og Ólafs syngja í netinu, Róbert snýr sér í hálfhring af línunni áður en hann lætur vaða, eða Guðjón Valur stekkur inn úr horninu. Varnarvinnan skapar hinsvegar oft sóknartækifæri.

Aðspurðir hvort þeir vildu segja eitthvað að lokum sögðu Ingimundur og Vignir báðir að félagar þeirra í liðinu ættu að gefa boltann oftar á þá í hraðaupphlaupum! Þeir ættu til að sniðganga vinnuhestana í vörninni þegar liðið fengi tækifæri til að sækja hratt fram eftir að hafa unnið boltann.

Vafalítið hafa þeir meint þetta sem góðlátlegt grín, en mig grunar að einhver alvara sé þarna að baki. Ég þekki það frá því ég æfði knattspyrnu á mínum yngri árum að sóknarmennirnir voru ekkert allt of viljugir að gefa á okkur varnarmennina. Sumir gáfu helst ekki á neinn samherja en reyndu að sóla andstæðingana sundur og saman þangað til þeir annað hvort flæktu saman fótunum eða boltinn var hirtur af þeim.

Það hefur líka mikil áhrif á það hve virkur leikmaðurinn er í leiknum hvað hann er ákafur að bjóða sig fram og koma sér í fríar stöður. Til þess þarf sjálfstraust og útsjónarsemi, en það getur virkað neikvætt fyrir sjálfstraustið þegar leikmaður skynjar að samherjar hans treysta honum ekki fyrir boltanum. Þá er hætta á að hann/hún dragi sig í hlé og detti enn frekar út úr leiknum.

Það er betra fyrir handboltalið að hafa marga góða leikmenn heldur en fáar stórstjörnur. Þá verða leikmennirnir að treysta hver öðrum. Hinir leikmennirnir í handboltalandsliðinu ættu því að vera óhræddir að taka Ingimund og Vigni á orðinu og gefa boltann meira á þá í sókninni. Það getur ekki gert annað en að efla breiddina.

Auðvitað eru leikmennirnir í samkeppni innan liðsins og það er bara gott. Það gerir það að verkum að þeir leggja meira á sig. Hinsvegar má samkeppnin ekki verða til þess að leikmenn ætli sér að vinna leikina upp á eigin spýtur. Hér gildir að finna réttu blönduna af einstaklingsframtaki og samstöðu innan liðsins. Það hefur Guðmundi Þ. Guðmundssyni landsliðsþjálfara tekist mjög vel. Árangurinn sýnir það ótvírætt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 104668

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband