Færsluflokkur: Menning og listir

Gerir tónlist okkur gáfaðri?

Það var mjög athyglivert viðtal í Kastljósi kvöldsins við Vladimir Ashkenazy, hinn þekkta hljómsveitarstjóra og píanóleikara. Skiljanlega barst tónlistarhúsið Harpan í tal. Mér fannst reyndar frekar óviðeigandi að spyrja tónlistarmann og atvinnumann í fremstu röð í greininni að því hvort rétt hefði verið að klára tónlistarhúsið þrátt fyrir kreppuna.

Ashkenazy svaraði spurningunni samt ágætlega. Hann sagðist ekki vera í stjórnmálum og treysti því fólki sem var við völd til að taka rétta ákvörðun. Ég hef hingað til verið því andvígur að stjórnvöld skyldu klára að byggja húsið, en fór að sjá málið í nýju ljósi eftir viðtalið við hljómsveitarstjórann geðþekka. Ashkenazy hefur lengi barist fyrir að reist yrði tónlistarhús á landinu.

Honum varð tíðrætt um jákvæð áhrif tónlistar á gáfnafar og alla okkar líðan. Svona tónlistarhús myndi hafa mjög jákvæð áhrif og ýmislegt byggjast upp út frá því. Ég hef áður heyrt um rannsóknir sem sýna að með því að hlustun eða iðkun sumrar tónlistar hafi góð áhrif á sálina og geti bætt gáfnafar fólks. Vitnisburður hljómsveitarstjórans rennir stoðum undir þær kenningar. Hann benti líka á að börnum og unglingum sem hefja tónlistarnám gangi líka betur í öðrum námsgreinum.

Vladimir Ashkenazy veit hvað hann er að tala um þegar kemur að tónlistinni. Hann nýtur virðingar um allan heim sem frábær hljómsveitarstjóri og það er mikill heiður fyrir okkur að hann tengist Íslandi náið. Eins og kunnugt er þá er Ashkenazy íslenskur ríkisborgari, giftur íslenskri konu og þau hjónin hafa búið í Sviss frá árinu 1972.

Kannski verður tónlistarhúsið okkur lyftistöng og til þess að við komumst fyrr út úr kreppunni. Það er komið undir því að gott tónlistarfólk, ungt sem gamalt, leggi hart að sér við að semja eða flytja góða tónlist og ekki síst þátttöku almennings í tónlistarlífinu sem hægt er að sýna með því að sækja þá tónleika- og listaviðburði sem boðið verður upp á í Hörpunni.


Hvað er ættjörð?

Umræður standa nú yfir á bloggi Páls Blöndals um íslenska þjóðerniskennd og á hvaða stig hún er komin, t.d. hjá yfirlýstum ESB-andstæðingum. Þar kom einn með eftirfarandi fullyrðingu sem ég hnaut um og varð tilefni þessarar greinar.

Staðreyndin er sú að ættjörð þín er fjölskylda þín Stefán, þó þú og margir aðrir líti kannski ekki svoleiðis á þá landa sína. Auðvitað stendur þú með fjölskyldu þinni, þeim sem standa þér næstir. En ef allir hugsa aðeins um sig og þá sem standa sér næstir. Hvað verður þá um samheildina?

Síðan segir höfundur ofangreinds efnislega að Íslendingar verði að standa saman. En er rétt að segja að ættjörð Íslendingsins sé fjölskylda hans? Merkir það að tryggð Íslendingsins við ættjörðina eigi að ganga framar tryggð við nánustu fjölskyldu hans?

Mikilvægasta spurningin er e.t.v. hvað er ættjörð? Enska orðið homeland, sem almennt er þýtt sem ættjörð, er skilgreint svona á vef Wikipedia, lauslega þýtt:

Hugtakið ættjörð merkir þann landfræðilega eða menningarlega stað þar sem ákveðin þjóð eða þjóðflokkur á sér langa sögu og tengist djúpum menningarlegum rótum.

Samkvæmt þessari skilgreiningu er ættjörðin ekki endilega landið sjálft, enda erfitt að sjá hvaða vit er í því að halda meiri tryggð við grjóthnullunga og moldarköggla en við sitt nánasta fólk. Ættjörð einhvers getur líka merkt tengsl hans við aðra landa sína, þar sem menning er fyrst og fremst fólgin í samskiptum manna á meðal.

Það kann að vera að hugtök eins og ættjörð og menning hafi hálfpartinn týnst í hinu hraða nútímaþjóðfélagi. Jafnvel innan nánustu fjölskyldna hefur fólk stundum lítil samskipti innbyrðis. Báðir foreldrar vinna úti og hafa ekki orku í annað en að setjast upp í sófa er heim er komið á kvöldin og horfa á sjónvarpið. Unglingarnir eru oft uppteknari af vinunum en fjölskyldu sinni og fjarskyldari ættingjar hittast ekki nema í fermingarveislum og jarðarförum nokkrum sinnum á ári.

Þetta er að sjálfsögðu neikvæð þróun og full ástæða til að hér verði á breyting. Í kjölfar efnahagshrunsins fyrir tæpum tveimur árum er samt staðan sú að þúsundir á þúsundir ofan eiga varla til hnífs og skeiðar vegna þess að bankakerfið hrundi yfir þá af völdum spillingar og sjálftöku tiltölulega fámennrar forréttindastéttar.

Þegar svona bráðavandi blasir við hefur stór hluti fórnarlamba efnahagskreppunnar staðið frammi fyrir tveimur kostum: að eiga í basli til æviloka og geta ekki boðið börnum sínum upp á mannsæmandi framtíð, eða flytja til lands þar sem vinna á tvöfalt til þrefalt betri launum býðst og viðunandi kjör að öðru leyti.

Fólk getur ekki borðað Gísla sögu Súrssonar sér til viðurværis. Hjá sumum hefur það borgað sig að láta keyra sig í gjaldþrot en aðrir séð sér fært að semja um að lengja í lánum skuldbreyta, eða hvort tveggja.

Þá er það spurningin hvort það sé eitthvað merki um lélega ættjarðarást að huga að hagsmunum sinna nánustu. Er það meiri ættjarðarást að kasta þeim fyrir róða vegna einhverra annarra óskilgreindra og óljósra hagsmuna ímyndaðrar þjóðarheildar? Fyrir utan að ég get ekki séð að núverandi ráðamenn séu mikið að hugsa um heildarhagsmuni. Viðbrögð kerfisins í kjölfar Hæstaréttardóma um gengistryggð lán sýna ótvírætt að sjálftökuliðið og forréttindabraskliðið ræður enn förinni.

Loks má bæta því við að aldrei hefur verið auðveldara að rækta ættjarðartengslin hvar sem fólk er statt í heiminum en á okkar tímum. Tæknin gerir okkur kleift að vera í sambandi í gegnum netið eða símann og samgöngur eru algengar og auðveldar á milli heimshorna. Að auki eru Íslendingafélög starfandi í nánast öllum bæjum og borgum erlendis þar sem brottfluttir landar okkar hafa komið sér fyrir og menningarlegt starf þeirra er oft á tíðum mjög öflugt.

Það er því hæpið að fullyrða að þeir sem flytja úr landi séu almennt eitthvað andþjóðlegri en annað fólk. Við þurfum að koma umræðunum af sandkassastiginu.


Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 104677

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband