Færsluflokkur: Kvikmyndir

Men In Black III - 3D fyrir hlé. 2D eftir hlé

Fór á Men In Black 3 í þrívídd í Háskólabíói í kvöld. Framan af var myndin ágæt - ekkert rosalega góð miðað við allt auglýsingaskrumið í kringum hana - en nokkur atriði skemmtileg og komu vel út í þrívídd. Þar sem ég hafði séð sýnishorn úr myndinni vissi ég að agent J stökk fram af háhýsi í einu atriðinu og var reyndar mjög kvíðinn fyrir því. Þar sem þrívíddartæknin eykur verulega á upplifunina að maður sé á staðnum, óttaðist ég að ég myndi fá fyrir hjartað af stökkatriðinu. Hjartslátturinn varð vissulega nokkuð ör, en ég jafnaði mig fljótt.

Hinsvegar varð ég fyrir miklum vonbrigðum eftir hlé. Ekki með myndina sjálfa, en aðallega vegna þess að ég sá ekki betur en að myndin var ekkert í þrívídd. Þegar myndinni lauk spurði ég konuna fyrir aftan hvort hún hefði tekið eftir að myndin var ekki í þrívídd eftir hlé. Hún var ekki frá því að það væri rétt. Þar sem það er alltaf betra fyrir tvo að kvarta en einn, spurði ég konuna hvort hún væri til í að koma með mér að tala við starfsmanninn.

Hvort sem hún var svona ánægð með myndina þrátt fyrir að þriðju víddina vantaði, eða hana skorti kjark, var ég sá eini sem kvartaði. En þeir fiska sem róa. Starfsmaðurinn taldi sér ekki fært að þræta fyrir að myndin hafi ekki verið í þrívídd og gaf mér boðsmiða. Ég hef beðið spenntur eftir Prometheus og því kemur sér vel að eiga boðsmiða. Er að vísu að lesa að hún fær misgóða dóma, sumir eru hundóánægðir með hana. En það verður vissulega minni skaði fyrst ég fæ að sjá hana ókeypis.

Að lokum, þá er samt eitt sem angrar mig. Hefði verið rétt af Háskólabíó að bjóða öllum boðsmiða sem voru á myndinni? Þeir voru ekki margir þannig að það hefði ekki sett bíóið á hausinn. Eða var boðsmiðinn sanngjörn laun fyrir það að hafa kjark til koma með athugasemdir um það sem ég taldi vera gallaða vöru? Það er ekki gott að segja.


Avengers - MarvelLOUS

Marvel fyrirtækið hefur tekið kvikmyndaheiminn með trompi undanfarin ár og komið með myndir með ofurhetjunum Hulk, Thor, Captain America og Iron Man. Ásinn í spilastokknum þeirra er samt The Avengers, þar sem allar þessar hetjur sameinast, ásamt nokkrum í viðbót.

Það er mögnuð upplifun að sjá þessa mynd í þrívídd, upplifun sem enginn unnandi góðra hasarmynda ætti að láta framhjá sér fara. Avengers er komin í 37. sæti yfir bestu bíómyndir allra tíma og komin upp fyrir myndir eins og Citizen Kane, Terminator 2 og Alien. Fær einkunnina 8,7 og á eflaust eftir að fikra sig enn hærra upp listann.


Gerir góða mynd enn áhugaverðari

Ég segi góða mynd þó ekki sé enn búið að framleiða hana, því það má nánast ganga út frá því sem vísu að mynd frá þessum leikstjóra verði góð. Ridley Scott er að sjálfsögðu þekktastur fyrir hrollvekjuna Alien, sem gaf af sér þrjár framhaldsmyndir og tvær myndir sem byggðu á ófreskjunum úr Alien myndunum, þ.e. Alien vs Predator I og II. Alien er að margra mati ein besta hryllingsmynd allra tíma.

Miklar vangaveltur hafa verið um hvernig söguþráðurinn í Promotheus verði, en upphaflega var gert ráð fyrir að myndin yrði nokkurs konar forveri (prequel) að Alien. Síðan var horfið frá þeirri hugmynd, en sagt er að Promotheus muni að einhverju leyti byggja á hugmyndum úr Alien. Við munum sennilega ekki fá að sjá ófreskjur utan úr geimnum brjótast út úr mannslíkömum, enda hefur slíku verið gerð ágætis skil í Alien myndunum fjórum. Þó er sagt að ýmislegt í myndinni verði kunnuglegt Alien-aðdáendum.

Ég bíð allavega spenntur eftir næstu afurð Ridleys Scott og enn spenntari þegar nokkuð ljóst * er að það muni bregða fyrir íslenskri náttúru í myndinni.

 

* Ég segi nokkuð ljóst því stundum kemur fyrir að atriði sem eru tekin upp vegna kvikmyndar eru klippt út úr endanlegu útgáfunni. Við skulum vona að svo verði þó ekki í þessu tilfelli.


mbl.is Ridley Scott gerir mynd á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 104679

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband