Miskunnsami Samverjinn sem sendi reikninginn til annarra

Það er mjög auðvelt að vera góðmennskan uppmáluð á Facebook og á opinberum fundum og mannsöfnuðum. Það er nefnilega ókeypis. Hinsvegar er ekki ókeypis að vera góðhjartaði miskunnsami maðurinn í raun og veru og standa við stóru orðin. Það reyndar kostar bæði mikið fé, tíma og orku. Því metnaðarfyllri sem góðmennskan er, því meira fé, tíma og orku kostar hún. Þess vegna velja flestir Facebook-góðmennskuna, því þar geta menn auðveldlega frelsað allan heiminn.

Ég fagna því alltaf þegar fólk vitnar í orð Guðs, Biblíuna, til að rökstyðja sitt mál. Enda hafa Vesturlönd flest byggt sín þjóðfélög á þeirri speki að miklu leyti, þar til síðustu áratugina. Fólk vitnar t.d. oft í dæmisögu Krists um miskunnsama Samverjann. Hann hlúði að hálfdauðu fórnarlambi ræningja og bjargaði sennilega lífi hans. Við verðum að fylgja fordæmi hans og taka inn hvern einasta flóttamann sem er að flýja stríð og fátækt, hýsa hann, fæða, klæða og mæta öllum öðrum hans þörfum og gerviþörfum í leiðinni.

Því miður er það svo að þetta góða fólk veit augljóslega mjög lítið um hver boðskapur dæmisögunnar um miskunnsama Samverjann, er í raun og veru. Hana er að finna í 10. kafla Lúkasarguðspjalls. Þrátt fyrir að Nýja testamentið eða Biblíuna í heild, sé að finna á flestum heimilum, hefur fólkið sem talar svona, ekki haft fyrir því að fletta þessari sögu upp, að því er virðist. Við skulum aðeins skoða hvað Frelsarinn segir um þennan góðhjartaða Samverja.

Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.

Spurt er: Hvernig fjármagnaði miskunnsami Samverjinn allt dæmið? Svar: Með sínum eigin peningum. Með sínum eigin eigum. Hann hellti smyrslum og vökvum í sárin á manninum. Væntanlega hefur hann átt viðsmjörið og vínið sjálfur. Kannski ekki alveg sömu efni og notuð eru á Landsspítalanum, en sögusviðið er jú fyrsta öldin. Hann setti manninn á sinn eigin eyk, þ.e. asna. Hann tók upp tvo denara til að borga fyrir gistinguna, peninga sem hann átti sjálfur. Sagði síðan að ef gistihúsaeigandinn þyrfti að kosta meiru til, skyldi hann sjálfur borga honum það, næst þegar hann ætti leið hjá.

Ætla þeir sem tala um að frelsa öll Miðausturlönd og Afríku í leiðinni, að fjármagna það metnaðarfulla verkefni sjálfir?

Nei!

Ríkið (og sveitarfélögin) skulu borga allan brúsann. Hverjir eru ríkið? Eru það einhverjir aðrir en þeir sem borga skatta í landinu? Sem þýðir það, að uppihald, menntun (oft frá barnaskólagrunni þó um fullorðið fólk sé að ræða), húsnæði, heilbrigðisþjónusta og öll félagsleg þjónusta til flóttamanna, skal allt saman greitt úr vasa skattgreiðenda.

Það sjá það allir hvað það hefur í för með sér. Annað hvort verður þá að hækka skatta stórlega, eða skerða lífskjör fólksins í landinu verulega. Hjá flestum öðrum en þeim sem eru áskrifendur að launum frá hinu opinbera eða tóku þátt í að ræna landið innan frá og lifa á ránsfengnum, er löngu komið að þolmörkum hvað skattahækkanir varðar og það er búið að skera inn að beini í flestri opinberri þjónustu.

Þeim sem hafa komist í gegnum þessa löngu færslu mína,  ætti að vera ljóst að komið-þið bara-allir-stefnan í innflytjendamálum, er glórulaus. Ef ekki, þá veit ég ekki hvað ég get gert fyrir ykkur. Lokaskilaboð mín eru þessi:

Borgið þið sjálf fyrir ykkar eigin góðmennsku, eða með að safna frjálsum framlögum. Það gerði Guðrún Margrét Pálsdóttir, stofnandi ABC-hjálparstarfs og fyrrum forsetaframbjóðandi, sem þjóðin hafnaði í forsetakosningunum og valdi í staðinn mann sem hefur ekkert gert sjálfur fyrir flóttamenn að ég best veit, nema láta taka myndir af sér með þeim. Enn eitt eintakið af miskunnsama Samverjanum sem sendir reikninginn til skattgreiðenda. Eftir höfðinu dansa limirnir, eða hvað? Ég vona ekki.


mbl.is Vilja senda ólöglega hælisleitendur til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heill og sæll, Theódór, og þakka þér góðan pistilinn. Það er þér líkt að láta ekki mata þig á því sem viss múgsefjunarhreyfing hefur reynt að halda að mönnum og lætur sem hún hafi orð sannleikans og kærleikans og geti kennt við kristindóm. En Kristur verður ekki kenndur við það sem "No Borders"-þrýstihópurinn boðar og heldur ekki við ýtrustu kröfur Góða fólksins, sem þú hefur lýst hér ágætlega.

Nei, þú gerir það, sem kristnir menn eru hvattir til: þú "rannsakar ritningarnar" (sjá orð Krists í Jóh.5.39, sbr. Post. 17.11), og við lestur dæmisögu Jesú um miskunnsama Samverjann í réttu samhengi sínu kemur einmitt það í ljós við athugun þína, sem þú hefur gert hér grein fyrir. Og bæta má við, að Kristur verður ekki borinn fyrir því að hafa lagt að þjóðum að leggja sín hagkerfi í rúst.

Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 21.3.2017 kl. 12:04

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þakka hlý orð, Jón Valur. Er sammála þér að No Borders/góða fólkið á ekkert skylt við kristilegt hugarfar og snýr út úr Ritningunum, ef það hentar þeim í einhverjum málflutningi, en hunsa þær annars.

Takk sömuleiðis fyrir alla þína góðu pistla um kristna trú og ýmis þjóðfélagsmál, í gegnum tíðina. Það er nauðsynlegt að við höldum uppi merki trúarinnar á Jesú Krist sem víðast.

Ég er sannfærður um að þeir kristnu eru þeir sem eiga að skipa sér í skarðið, til að koma í veg fyrir að reiði Guðs komi af fullum þunga yfir landið, sbr. Esekíel 22:30. Salt jarðar eins og Kristur talar um.

Án þessa salts verður þjóðfélagið rotnun að bráð. Guð sagði að hann hefði hlíft Sódómu ef það hefðu fundist tíu réttlátir í borginni. Við þurfum að biðja og vera vakandi, andlega.

Theódór Norðkvist, 21.3.2017 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 104668

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband