Færsluflokkur: Íþróttir

Frakkaleikurinn - hvað fór úrskeiðis?

Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik Íslendinga og Frakka sem fóru með aðeins tveggja marka forskot í leikhléið, leit ekki út fyrir annað en barátta liðanna yrði jöfn í seinni hálfleik. Annað kom á daginn. Þeir frönsku náðu sjö marka forskoti á innan við tíu mínútum.

Nú er ég alveg viss um að Guðmundur og hans menn hafi legið yfir myndbandsupptökum af franska liðinu. Ekki hefði átt að koma á óvart að Frakkar hafa á að skipa einu sterkasta handboltalandsliði heims. Reynsluleysi getur heldur ekki verið skýringin, því flestir leikmenn okkar hafa margra ára feril að baki með landsliðinu.

Þvert á móti voru það yngstu og óreyndustu leikmennirnir sem virkilega stigu fram og réðust gegn franska múrnum. Þar er ég að tala um hinn 19 ára stórefnilega Aron Pálmarsson og Arnór Atlason, sem hefur verið okkar sterkasti liðsmaður á þessu móti. Því miður sýndu eldri jaxlarnir ekki sömu dirfskuna.

Síðasta korterið var eins og okkar menn hefðu gefist upp. Slæmt að sjá baráttuna vanta, sem hefur löngum verið einkenni íslenska handknattleiksliðsins. Jafn sterkt lið og Frakkland lætur sjö marka forystu ekki auðveldlega af hendi og enn síður ef andstæðingar þeirra hafa ekki trú á sinni eigin getu til að vinna hana niður.

Því fór sem fór. Ekki er hægt að áfellast landsliðið okkar fyrir að vinna ekki eina allra sterkustu þjóð heimsins í handboltanum, aðeins fyrir að sýna ekki baráttuvilja og hungur allan leikinn. Það voru mestu vonbrigðin.

Vissulega er það frábær árangur að keppa um brons á jafn sterku móti og Evrópukeppnin er að venju. Ég er viss um að strákarnir koma einbeittir í þann leik þrátt fyrir að hafa verið hýrudregnir í undanúrslitaleiknum.

Gott væri ef Guðmundur leyfði Loga Geirssyni og Ólafi Guðmundssyni að spreyta sig í  bronsleiknum sem er að hefjast þegar þetta er ritað. Þeir sem fylgst hafa með Loga vita að hann getur miklu meira en hann sýndi þær örfáu mínútur sem hann spilaði gegn Serbum áður en hann var settur á bekkinn.

Reynslan kemur aðeins með því að spila og leikir þar sem keppt er um brons á Evrópukeppni eru gott tækifæri til að gera efnilega leikmenn að einhverju meira en aðeins efnilegum. Þess ber að geta að ef Aron eða Arnór skila sínu vel verður Logi áfram á bekknum því þessir þrír bítast um sömu stöðuna. En gott að breiddin sé að aukast í íslenska handboltalandsliðinu.


« Fyrri síða

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 104728

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband