Átrúnaðargoð nokkurra Moggabloggara fljótlega handtekið

Nokkrir bloggarar (nefni engin nöfn, þeir taki til sín sem eiga) hafa varið, réttlætt eða reynt að finna skýringar á stríðsglæpum Vladímírs Pútín. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að kenna Vesturlöndum og Úkraínu um hryðjuverkin. Sennilega myndu þessir einstaklingar segja að þegar konum er nauðgað í miðbæ Reykjavíkur, þá sé það alltaf þolendum nauðgananna að kenna. Fórnarlambið sé í raun gerandinn og gerandinn þolandinn.

Það er spurning hvort það ætti líka að gefa út handtökuskipun á þessa umræddu bloggara, sem hafa svona mikla hæfileika til að snúa staðreyndum á hvolf. Þó það væri ekki nema til að athuga hvort þeir kunni að skammast sín. Ef þeir skammast sín ekki við að frétta að skjólstæðingur þeirra er nú eftirlýstur og hundeltur af réttvísinni. Var kominn tími til.


mbl.is Gefa út handtökuheimild á Pútín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aron - límið í íslenska landsliðinu?

Hef oft verið að hugsa á þessum nótum, athyglivert að lesa þessi orð Bjarka Más, sem sjálfur hefur verið frábær á þessu HM þrátt fyrir að lokaniðurstaðan fyrir Ísland á þessu móti, hafi verið vonbrigði. Ef Aron er ekki að skora sjö eða átta mörk í hverjum leik, viljum við stundum álykta að hann hafi bara ekkert getað. Málið er ekki svona einfalt.

Mörkin sem hver og einn leikmaður gerir, segja ekki alla söguna. Það þarf líka að koma markaskoraranum í færi til að skora og það gerist með þrotlausri vinnu og baráttu við að draga í sundur varnir andstæðinganna og þar spilar Aron stórt hlutverk. Hann er límið sem bindur leik íslenska landsliðsins saman. Sú vinna sem fram fer úti á vellinum til að skapa færin, er ekki eins sýnileg og mörkin sem hún leiðir af sér. Svipað má segja um varnarvinnuna.

Ég hef lengi óskað eftir að landsliðið verði leikmannahópur þar sem allir leikmenn eru góðir og kannski tveir eða þrír séu fremstir meðal jafningja. Frekar en að liðið sé þannig samsett að einn leikmaður skorar 10 - 12 mörk í hverjum leik og síðan nokkrir með 1 - 3 mörk. Áður fyrr áttum við þannig leikmenn, eins og Duranona og Sigga Sveins, en hvað gerist þegar þessi eini leikmaður sem er þá í raun hálft liðið, meiðist? Breiddin er algjört lykilatriði. Það sjáum við í liði Svíþjóðar, sem á a.m.k. tvo frábæra leikmenn í hverri einustu stöðu.

Við þurfum að fara að dæmi Svía (og fleiri liða sjálfsagt) og ekki treysta á 8 - 9 leikmenn, sem eru látnir spila nánast hverja einustu mínútu. Síðan þegar við missum þá í meiðsli, sem getur einmitt verið afleiðingin af því að þeir spila of mikið án þess að fá hvíld, er enginn til að taka við keflinu (eða réttara sagt boltanum.) Breiddin er leiðin að þeim árangri sem við viljum ná.


mbl.is Tileinkaði Aroni sigurinn: „Þeir sem skilja handbolta sjá hvað hann gerir fyrir okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sólin úreld?

Inga Auðbjörg Straumland formaður Siðmenntar vill meina að Biblían sé ónothæf sem vegvísir fyrir lífið í nútímaþjóðfélagi. Hún segir að þessi hand­bók hafi átt vel við fyr­ir botni Miðjarðar­hafs fyr­ir ríf­lega tvö þúsund árum, en sé úrelt fyrir þjóðfélög á 21. öldinni. Jobsbók, er elsta bók Biblíunnar og um 3400 ára gömul. Opinberunarbókin er síðasta rit Biblíunnar, skrifað árið 90 eftir Krist. Það er þannig ekki rétt að Biblían sé 2000 ára gömul, heldur 1900 ára í þeirri mynd sem hún er í nú, en látum það liggja á milli hluta.

Meðfylgjandi mynd með þessu viðtali við Ingu, sýnir hana í góðu skapi í glampandi sólskini. Sólin er talin vera 4,5 milljarða ára gömul, töluvert mikið eldri en Biblían. Það virðist ekki trufla formanninn mikið, að þurfa að sitja undir svona gamalli sól. Samt líður henni ekki vel með að láta ljós Biblíunnar lýsa sér í sínu eigin lífi. Sem er skrýtið, ef einu rökin fyrir því að hún vilji það ekki, sé að Biblían sé svo gömul þrátt fyrir að aldur hennar (Biblíunnar) sé aðeins brotabrot af aldri sólarinnar, sem Inga nýtur svo vel að láta skína á sig.

Í rauninni er Biblían miklu eldri en sólin, við nánari athugun. Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Þannig byrjar Jóhannesarguðspjallið og er þarna að lýsa sjálfum Jesú Kristi, sem er Orð Guðs. Hann hefur því alltaf verið til. Í Matteusarguðspjalli, segir Jesús: Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða. M.ö.o. þá munu orð Krists, sem voru til áður en sólin varð til, standa áfram eftir að jafnvel sólin er liðin undir lok. Þau hafa engan síðasta söludag, ólíkt orðum formanns Siðmenntar, með fullri virðingu annars fyrir henni.

Það er alvarlegur hlutur að breyta boðorðunum, sem munu líka standa sem sannleikur eftir að allt annar er horfið af yfirborði jarðar (og jörðin sjálf, ef út í það er farið.) Alls staðar þar sem Biblían talar um að helgum orðum og hlutum sé breytt, þá er það í tengslum við fráhvarf frá kristnum gildum og heimsendi. Þetta fikt þjóðkirkjunnar með boðorðin er því mikið áhyggjuefni.


mbl.is „Til hamingju með þessa uppfærslu!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haldnir hvalalosta?

Það þarf að fara að stoppa þessa brjálæðinga á vegum Kristjáns Loftssonar, beitandi fréttamenn ofbeldi. Fjölmiðla- og tjáningarfrelsi í heiminum á nógu mikið í vök að verjast, af völdum hryðjuverkasveita Pútíns og þeim síbrotamönnum í mannréttindamálum eins og Kína, Íran og fleiri ríkjum í ruslflokki hvað varðar lífskjör og mannréttindi, sem fylgja þeim.

Talandi um Íran, þá var brjálæðingur á þeirra vegum nú nýlega nánast búinn að drepa rithöfundinn Salman Rushdie, fyrir að segja sannleikann um Íslam og ekki einu sinni allan sannleikann. Sá maður hefur þurft að óttast um líf sitt í næstum 35 ár og ekki einu sinni víst að hann lifi þessa morðtilraun af.

Þess má geta að æjatollarnir í Íran fögnuðu auðvitað morðtilrauninni og lofsungu hryðjuverkamanninn sem hetju. Ótrúlegt að sú staðreynd hafi ekki vakið meiri athygli, eins og Jón Magnússon rekur ágætlega á sinni bloggsíðu.

Aftur að Hval hf., nú ætla ég ekki að kenna Kristjáni Loftssyni um að starfsmenn hans séu snarbrjálaðir ofbeldisseggir, en hann virðist þó taka afstöðu með þeim. Talar um það í annarri frétt að þeir hafi þurft að leggja hald á drónann (stela honum) til að hafa einhver sönnungargögn.

Sönnungargögn um hvað? Eru ekki sönnunargögnin gegn þeim það sem þeir þurfa að hafa mestar áhyggjur af? Mér sýnist enginn vafi liggja á hver er sekur í þessu máli. Líkamsárás á fréttamenn og þjófnaður á myndatökugræjum.

Glæsileg landkynning þetta, ríkissjónvarp Sviss ætlar að fjalla um Ísland, en þurfa hreinlega að óttast um líf sitt og limi og mega þakka fyrir að komast óskaddaðir úr landi.


mbl.is „Níu ógnandi starfsmenn Hvals“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nýr öxull hins illa að myndast og sá síðasti í mannkynssögunni?

Í Esekíelsbók Gamla testamentisins, er eftirfarandi spádómur gefinn, fyrir u.þ.b. 2.600 árum síðan:

1Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, snú þér gegn Góg í Magóglandi, höfðingja yfir Rós, Mesek og Túbal, spá gegn honum 3og seg: Svo segir Drottinn Guð:

Ég skal finna þig, Góg höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal, 4og ég skal setja króka í kjálka þína og leiða þig út, ásamt öllu herliði þínu, hestum og riddurum, öllum með alvæpni, mikinn manngrúa, með skjöld og törgu, alla með sverð í höndum. 5Persar, Blálendingar og Pútmenn eru í för með þeim, allir með törgu og hjálm, 6Gómer og allir herflokkar hans, Tógarma-lýður, hin ysta norðurþjóð, og allir herflokkar hans - margar þjóðir eru í för með þér. 7Bú þig út og ver viðbúinn, þú og allar hersveitirnar, sem safnast hafa til þín, og ver þú yfirmaður þeirra. 8Eftir langan tíma munt þú útboðsskipun hljóta. Á síðustu árunum munt þú koma inn í það land, sem aftur er unnið undan sverðinu, til þjóðar, sem safnað hefir verið saman frá mörgum þjóðum á Ísraels fjöll, sem stöðuglega hafa í eyði legið, já, frá þjóðunum var hún flutt, og nú búa allir öruggir. 9Þá munt þú brjótast fram sem þrumuveður, koma sem óveðursský til þess að hylja landið, þú og allir herflokkar þínir og margar þjóðir með þér.

10Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi munu illar hugsanir koma upp í hjarta þínu og þú munt hafa illar fyrirætlanir með höndum 11og segja: Ég vil fara í móti bændabýlalandi, ráða á friðsama menn, sem búa óhultir, þeir búa allir múrveggjalausir og hafa hvorki slagbranda né hlið, 12til þess að fara með rán og rifs, til þess að leggja hönd þína á borgarrústir, sem aftur eru byggðar orðnar, og á þjóð, sem saman söfnuð er frá heiðingjunum, sem aflar sér búfjár og fjármuna, á menn, sem búa á nafla jarðarinnar.

Góg höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal, er Rússland. Í sænsku biblíunni frá 2005, er sagt í neðanmálsgrein að Rós geti ekki átt við annað en Rússland. Persar eru augljóslega Íran, Blálendingar er Eþíópía og Pútmenn eru Líbía.

Þetta er almennt mat biblíuskýrenda, en passar vel við þróun í heiminum í dag. Öll þessi lönd hafa staðið með Rússlandi og eru grófir mannréttindabrjótar og einræðisríki sjálf. Tógarma-lýður gæti verið Tyrkland, en það er ekki eins augljóst. Tyrkir virðast samt leika tveimur skjöldum í þessari deilu allri.

M.ö.o. Rússland mun, ásamt bandalagi fleiri einræðisríkja, ráðast inn í Ísrael og það verður undanfari endurkomu Jesú Krists. Ert þú viðbúinn, lesandi góður?

Nú skal það tekið fram, að þetta eru engin nákvæm vísindi, því enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda. - 2. Pétursbréf 1: 20, 21.

Engu að síður er þetta uggvænleg þróun og við sem viljum fylgja Frelsaranum Jesú Kristi, erum hvött til að kynna okkur spádóma um endurkomu Hans og enda veraldar, en umfram allt vera alltaf viðbúin að Hann geti komið á hverri stundu. A.m.k. er þessi þróun athygliverð í ljósi spádómanna um endatímana og gæti vel bent til að við höfum lítinn tíma til stefnu, áður en fjandinn verður laus í meira en einum skilningi.

Gætið yðar, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans. - Opinberunarbókin 16:15

Þess má geta í lokin, að auðvitað fær þessi öxull hins illa framtíðarinnar (eða nútíðarinnar?) makleg málagjöld, en mikið mun ganga á, áður en það gerist. Ég hvet alla til að lesa 38. og 39. kafla Esekíelbókar og kynna sér efni um þessi mál á netinu. Margt athyglivert að finna þar.


mbl.is Forseti Írans fundar með Pútin og Erdogan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keisarinn Nero spilaði á fiðlu meðan Róm brann...

...sólþyrstir ferðamenn liggja á vindsæng í sundlauginni með Piña colada í hendinni á meðan skógarnir í kringum þá brenna til ösku. Er einhver munur á þessu tvennu?


mbl.is Skógareldar á Costa del Sol
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hef búið til nýjan bloggvettvang

Þetta er kannski hugsað meira sem áhugamál og hugsjón, en ég tel að bloggkerfið sé alveg nothæft. Að mörgu leyti betra en Moggabloggið, en að mörgu leyti einfaldara til að vera sanngjarn.cool

Það er hægt að skrá sig sem notanda með gervipóstföngum, þarf ekki að gefa upp alvöru tölvupóstfang. Ekki er beðið um að staðfesta póstfangið, enda ekki hægt að staðfesta tölvupóstföng sem eru ekki til.

Lykilorð eru dulkóðuð, ef einhver skráir sig sem notanda og ég get því ekki skráð mig inn sem sama notanda. Lykilorð eru geymd í gagnagrunninum, en ekki á sínu upprunalegu textaformi, heldur sem textastrengir er samanstanda af runu af bókstöfum, sértáknum og tölustöfum sem dulkóðunarpakkinn (bcrypt) býr til.

Ef einhver vill prófa vettvanginn, er það velkomið. Ég er ekkert að fara að reka bloggvettvang þannig séð, þetta er meira hugsað sem tilraun. Vefþjónninn myndi ekki ráða við þúsundir notenda, enda notast kerfið einungis við ókeypis vefhýsingu og gagnagrunn.

https://thefreeblog.herokuapp.com/


Gat nú ekki annað en hlegið að þessu

Kostulegt, snilld hjá Búlgaríu, Makedóníu og Svartfjallalandi að niðurlægja utanríkisráðherrann með því að banna honum að fara í gegnum lofthelgi þeirra. Þar kom svo sannarlega vel á vondan. Harðstjórar og brjálæðingar eiga ekki að komast upp með að leggja líf heillrar þjóðar í rúst.

Í annarri frétt grenjar Lavrov yfir því að réttur þjóðar til að reka eigin utanríkisstefnu hafi verið tekinn í burtu. Halló, jörð kallar Lavrov! Þú ert búinn að rústa innviðum Úkraínu og reka fjórðung þjóðarinnar á vergang af þeirri einu ástæðu að þú vildir að utanríkisstefna landsins yrði eingöngu ákveðin í Kreml!

Síðan dirfist hann að saka aðra um að meina Rússlandi að reka eigin utanríkisstefnu. Haltu þér bara í Kreml og haltu kjafti, Lavrov siðrof. Stríðsglæpamaðurinn er svo fullur af eigin lofti, að hann skilur ekki að ástæðan fyrir því að honum er ekki leyft að rjúfa lofthelgi annarra landa, er að viðkomandi þjóðir eru að mótmæla stríðsglæpum hans og yfirgangi gagnvart nágrannaríki.


mbl.is Lofthelgi lokað fyrir Lavrov
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófétið sem gaf skipunina þarf að koma fyrir dómstólinn

Þetta atvik sýnir vel brotavilja og virðingarleysi gagnvart mannslífum í rússneska hernum. Fyrir utan að það er merki um mikla heimsku viðkomandi herforingja. Ef hann vildi tryggja að enginn gæfi upp staðsetningu hersins, hefði hann þurft að láta drepa alla í þorpinu. Líklega hafa margir séð til hermannanna út um gluggann í næsta nágrenni og hringt i vini og kunningja lengra í burtu. Ef að líkum lætur gæti stór hluti bæjarbúa hafa vitað að rússneski herinn væri staddur í þorpinu.

Ungi maðurinn er að sjálfsögðu sekur og hefur fengið makleg málagjöld, en glæpur herforingjans er enn alvarlegri. Hann gaf skipunina sem sá rúmlega tvítugi átti mjög erfitt með að neita að framfylgja. Þá átti hann á hættu að vera drepinn sjálfur, eða a.m.k. fá lífstíðarvist í Síberíu.

Þetta dæmi er vonandi bara það fyrsta um að illvirkjarnir fái makleg málagjöld fyrir glæpi sína og enn frekar vona ég að þeir hærra settu verði negldir. Klappstýrur Pútíns hafa lengi haldið því fram að Úkraínumenn hafi framið svipaða glæpi í Donbas héröðunum Donetsk og Luhansk, en þá spyr ég:

Rússar hafa ráðið þessum héröðum að mestu í 8 ár. Af hverju hafa engin svona réttarhöld verið haldin þar yfir meintum stríðsglæpamönnum frá Úkraínu? Getur verið að þeir hafi ekkert slíkt í höndunum og rússneskir uppreisnarmenn hafi sjálfir drepið flesta af þeim óbreyttu borgurum sem féllu fram að hryðjuverkaárásinni 24. febrúar sl.?


mbl.is Rússneskur hermaður dæmdur í lífstíðarfangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viltu ekki að nágrannar þínir hervæðist? Hættu þá að ógna þeim.

Vanvitar og óvitar hér á blogginu og víðar, hafa haldið því fram að ástæðan fyrir hryðjuverkaárás Rússlands á Úkraínu, sé að lönd langt í burtu frá Úkraínu séu með sterkan her. Það væri of langt mál að ræða þá ranghugmynd í sjálfu sér, en skoðum Finnland og Svíþjóð aðeins, hvað varðar samskipti við Rússland.

Þessi lönd ætluðu sér ekkert að ganga í NATO og viðhalda svokölluðu hlutleysi sínu. Síðan réðist Rússland inn í Úkraínu, er búið að leggja landið í rúst og er beint og óbeint að hóta því að ráðast inn í fleiri lönd.

Gagnvart hverjum þarf að vígvæðast? Þeim sem eru með sterkan her til að verja sig? Þeim sem eru með sterkan her og nota hann til að ráðast inn í löndin í kringum sig? Svarið er augljóst.

Rússland hefur verið með yfirgangssemi gagnvart nágrannalöndum sínum í mörg ár. NATO hefur einungis verið í varnarstöðu í Evrópu. Ef Rússland ætlar sér ekki að vera með útþenslustefnu áfram, hafa þeir ekkert að óttast frá Vesturlöndum jafnvel þó þau vígvæðist.

Ef Rússland hinsvegar ætlar sér að leggja undir sig alla Evrópu, fyrst fyrrum Sovétríkin og síðan vaða áfram í vesturátt, þá þurfa þeir að sjálfsögðu að óttast sterka heri í V-Evrópu. Skyldi það vera ástæðan fyrir ókyrrð yfirgangsseggsins í Kreml að honum er nú settur stóllinn fyrir dyrnar í yfirgangssemi sinni og kúgun?


mbl.is Finnar munu sækja um aðild að NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband