Skemmtileg byrjun Evrópukeppninnar - mikið skorað

Evrópukeppni landsliða er mikil uppskeruhátíð fyrir sparkunnendur, sem næst áhugaverðasta stórmót knattspyrnunnar á eftir heimsmeistarakeppninni. Margir telja að Evrópukeppnin sé í raun sterkari, þar sem lakari lið frá hinum álfunum koma í stað sterkra Evrópuliða. Hver álfa á rétt á ákveðið mörgum sætum, annars væri keppnin ekki kölluð heimsmeistarakeppni.

Leikirnir í riðlakeppninni eru oft skemmtilegri og opnari en þegar komið er í útsláttarkeppnina sjálfa, þar sem tap liðs táknar að það er úr leik í keppninni. Ég man samt ekki eftir að svona mikið hafi verið skorað í 1. umferð riðlakeppninnar í nokkru Evrópumóti.

Portúgalir unnu nokkuð sannfærandi sigur á Tyrkjum og virðast vera gríðarsterkir með hinn frábæra Ronaldo í fararbroddi. Tékkar, sem eru með sterkt lið rétt mörðu sigur á gestgjöfunum Sviss í áhugaverðum leik.

Þýska vélin, vel smurð, gekk á öllum fjórum og fyrsta fórnarlamb þeirra voru Pólverjar. Króatar ollu mér nokkrum vonbrigðum, þrátt fyrir sigur á hinni gestgjafaþjóð mótsins, Austurríki. Þeir síðarnefndu eru ekki eins sterkir og Svisslendingar og komast líklega ekki áfram úr riðlinum.

Eftir slakan og óspennandi markalausan leik Frakka og Rúmena kom stórgóður leikur Hollendinga og Ítala. Ég vil hrósa RÚV fyrir að bjóða upp á að fólk geti skoðað alla leiki keppninnar á vefnum þeirra. Ég nýtti mér tækifærið og horfði á þennan skemmtilega leik, sem Hollendingar unnu með þremur mörkum gegn engu marki Ítala.

Sigurinn var fyllilega sanngjarn, þrátt fyrir að rangstöðulykt væri af fyrsta markinu. Eins og fram hefur komið var rétt að dæma markið löglegt, þar sem ítalskur leikmaður lá á vellinum fyrir aftan endalínu og taldist sem annar varnarmaður. Það gerði það að verkum að Ruud van Nistelrooy var ekki rangstæður er hann skoraði.

Í ljósi heiðarleikans (fair play) hefði þó verið rétt hjá Hollendingum að spyrna boltanum út af, en á móti kemur að Nistelrooy hefði með réttu átt að fá vítaspyrnu fyrr í leiknum í ljósi hagnaðarreglunnar.

Ítalar verða ekki dæmdir af þessum leik (þeir spiluðu reyndar ágætlega í leiknum þrátt fyrir tapið) og eiga eftir að koma öflugir til leiks í næstu tveimur leikjum. Þeir eru með bakið upp að vegg, því tapi þeir gegn Rúmenum eru þeir að öllum líkindum á leið heim. Það sást vel hvað brimbrjóturinn í vörninni hjá þeim, Cannavaro, er liðinu mikilvægur. Vonandi verður hann með þeim í næsta leik.

Hollendingar mæta hinsvegar eflaust fullir sjálfstrausts gegn Frökkum, sem eru í lítið betri stöðu en Ítalir. Ég er ekki eins bjartsýnn fyrir hönd Hollands í þeim leik, þar sem þeir eiga það til að detta niður frá leik til leiks. Þeir geta spilað eins og englar í einum leik, en verið á hælunum í þeim næsta. Sjáum til.

Spánverjar virka geysilega sterkir, með Torres og Villa, en gleymum ekki að þeir eru brokkgengir líkt og Hollendingar. Oft hefur þeim verið spáð góðu gengi, en það hefur ekki gengið eftir þegar á hólminn er komið.

Rússarnir eiga eftir að gera ágætis hluti í E-riðlinum þrátt fyrir tapið gegn Spánverjum. Svíarnir gætu þó strítt þeim, eftir sigur þeirra á Grikkjum og vindinn í seglunum, en ég hef ekki trú á að Grikkir geri mikið  meira en að mæta í leikina sem eftir eru í riðlakeppninni.

Svo að einhver nenni nú að lesa langlokuna frá mér ætla ég að láta þetta duga, en ég bíð spenntur eftir leikjunum í annarri umferð, sem hefst á morgun með áhugaverðum leik Tékklands og Portúgal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Já Teddi minn þetta er sannkölluð veisla alla daga.Ég held að í dag klári Portugal sinn leik og eru þar með komnir áfram.Svo er ég að vona að þetta sé keppnin sem Hollendingar springi út,þeir spila svo skemmtilegan bolta.

Annars er ómögulegt að spá strax í spilin enda bara einni umferð lokið.

Samt sem áður áfram Portugal.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 11.6.2008 kl. 07:00

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Einmitt, Úlli. Vonandi sigrar skapandi knattspyrna maskínuboltann.

Theódór Norðkvist, 11.6.2008 kl. 10:36

3 identicon

sæll frændi,

 góð umfjöllun hjá þér og mótið farið vel af stað en ég verð að vera leiðinlegur og leiðrétta þig aðeins

 Mark Hollendinganna var löglegt eins og þú nefndir en þeir áttu ekki að sparka boltanum útaf. Skv, nýjum reglum er það í verkahring dómarans að stöðva leikinn liggi meiddur maður á vellinum. Þ.e. hitt liðið á ekki að sparka boltanum útaf liggi meiddir leikmaður á vellinum. Þetta var tekið upp því nokkuð bar á því að leikmenn voru að liggja viljandi um allan völl til að draga hraðann úr spili andstæðingsins.

 Svo verður Cannavaro víst ekkert með Ítölunum á mótinu, því miður. Frábær varnarmaður þar á ferð.

 Líka gaman að sjá mína menn í Portúgal og Hollandi sterka.

kv,

Teddi stóri

Teddi frændi 16.6.2008 kl. 14:45

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ekki málið frændi stóri, gaman að sjá athugasemd frá þér. Góð ábending.

Theódór Norðkvist, 16.6.2008 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband