22.10.2008 | 16:05
Ósáttfúsi þjónninn
Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur. Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.
Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði.
Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.
Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.
Þessi dæmisaga Jesú í 18. kafla Matteusarguðspjalls fjallar um nauðsyn þess að vera fús til að fyrirgefa öðrum, um leið og við þiggjum sjálf fyrirgefningu Guðs í Kristi. Til að setja fjárhæðirnar í sögunni í samhengi sem við þekkjum skal upplýst að einn denar jafngilti daglaunum landbúnaðarverkamanns á fyrstu öldinni. Ein talenta jafngilti sex þúsund denörum.
Þjónninn í dæmisögunni skuldaði konunginum 10 þúsund talentur, eða hvorki meira né minna 60 milljón daglaun, eða miðað við 200 vinnudaga á ári 300 þúsund ársverk dag launamanns. Lægstu árslaun verkamanns hér á landi fyrir fulla dagvinnu má ætla að séu tvær milljónir og heildarskuld þjónsins við herra sinn var þannig 600 milljarðar. Er ekki einmitt sagt að íslenska ríkið þurfi að taka 600 milljarða íslenskra króna að láni vegna yfirvofandi skuldbindinga sinna erlendis?
Boðskapurinn er þannig skýr: Þjónninn skuldaði herra sínum meira en hann gat með nokkru móti borgað. Konungurinn sá aumur á honum og afskrifaði skuldina. Bar þjóninum ekki siðferðisleg skylda til að gefa náunga sínum eftir skuld sem var aðeins brot af því sem hann hafði sjálfur fengið fellt niður?
Einn ágætur vinur minn úr KFUM sagði að fyrirgefning Guðs hafi ekki verið virk í lífi hans, hvort sem hann skildi hana ekki, eða kunni ekki að meta hana. Segja má að við séum öll annað hvort í stöðu þessa ósáttfúsa þjóns gagnvart konungi okkar, Guði almáttugum, eða í stöðu samþjónsins sem var í skuld við hinn þjóninn.
Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð segir Páll í Rómverjabréfinu og þurfa á fyrirgefningu að halda. Sömuleiðis hafa allir orðið fyrir því að einhver hefur gert honum eða henni eitthvað og verið gerendur sjálfir. Hvernig bregst þú við lesandi góður, þegar einhver gerir þér skráveifu? Leitastu við að jafna sakirnar eða sýnirðu umburðarlyndi, vitandi að þú ert líka veik(ur) á svellinu?
Rétt eins og erfitt er að skilja hvernig þjónninn í dæmisögunni gat komið sér í hvílíkar skuldir hafa íslenskir fjármálamenn stofnað til svo hárra skuldbindinga í útlöndum að flestir klóra sér í höfðinu yfir þeim fjárhæðum. Egill Helgason spurði Jón Ásgeir í hinu fræga viðali á dögunum hvernig þeir félagarnir fóru eiginlega að því að koma sér og þjóðinni í svona mikil vandræði.
Bretar, Hollendingar og fleiri þjóðir gera háar kröfur á íslenska ríkið vegna tapaðs sparifjár þegna sinna, sem þeir áttu í íslenskum bönkum erlendis og hefur gufað upp. Þessar kröfur vegna bankanna virðast ætla að lenda á núlifandi og næstu kynslóðum íslenskra skattgreiðenda og við skuldum flest þessum sömu bönkum húsnæðislán, bílalán, yfirdráttarlán, eða lán vegna atvinnurekstrar.
Er málið þó ekki flóknara en svo að hægt sé að fella niður skuldir upp á hundruðir eða þúsundir milljarða með einu pennastriki á þeim forsendum að Guð hafi fyrirgefið okkur? Það yrði til þess að lánardrottnar, þar á meðal góðgerðarsamtök og sveitarfélög, sem eru fæst of sæl af sínu, myndu tapa miklum fjármunum.
Við getum lært af dæmisögunni um ósáttfúsa þjóninn og við getum lært af mannkynssögunni. Eftir að bandamenn báru sigur af Þjóðverjum og bandalagsríkjum þeirra í heimsstyrjöldinni fyrri var Þýskaland gert ábyrgt fyrir eyðileggingunni af völdum styrjaldarinnar. Með Versalasamningnum svonefnda var þýska ríkinu gert að greiða stjarnfræðilegar upphæðir í stríðsskaðabætur.
Landið stóð ekki undir þessum álögum. Afleiðingin varð óðaverðbólga og kreppa sem lætur núverandi þrengingar líta út eins og fermingarveislu. Öfgaöfl fasismans skutu rótum, brjálæðingurinn Adolf Hitler komst til valda og framhaldið þekkja flestir.
Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar höfðu Vesturlönd lært af reynslunni og í gegnum Marshallaðstoð Bandaríkjanna var Þýskaland byggt upp í góðu bandalagi við fyrrum óvinalönd sín. Það leiddi til þess að Þýskaland, varð með tíð og tíma öflugt efnahagsveldi og lýðræðisríki. Sárin greru hægt, en þau greru.
Vonandi læra Bretar af reynslunni, sem og við Íslendingar. Það á að draga hina seku til ábyrgðar, en það má ekki heldur láta refsinguna vera úr meðalhófi og meiri en þeir geta risið undir. Haldi Bretar og aðrir lánardrottnar því til streitu að láta íslenska ríkið borga hvern eyri af skuldum sínum mun það leiða til landflótta, minni framleiðni, óðaverðbólgu og þeir munu aðeins fá lítinn hluta af skuldum sínum greiddar.
Eins held ég að hinir íslensku fjármálamenn sem hafa spilað rassinn úr buxunum á sjálfum sér og þjóðinni munu ekki geta staðið undir þeim skuldbindingum sem þeir hafa flækt sér í, þótt hver snekkja, einkaþota, sumarbústaður og skúffufyrirtæki í skattaparadísum verði selt eða dregin fram í dagsljósið.
Látum meðalhófið vera okkur að leiðarljósi, sem og mannúð og mildi Krists í þessu erfiða uppgjöri sem er framundan. Guð blessi land og þjóð.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 23.10.2008 kl. 11:15 | Facebook
Um bloggið
Theódór Norðkvist
Tenglar
Hjálparstarf
Ferðalög
- Samferða - vefsíða fyrir fólk sem vill vera samferða Fyrir þá sem vilja sameinast í bíla og lækka eldsneytiskostnað
- Göngum um Ísland Fróðleikur um gönguferðir. Gagnvirkt Íslandskort
- Ferðafélagið Útivist Félagsskapur sem býður upp á gönguferðir um áhugaverða staði
Líkamsrækt
Tenglar um líkamsrækt
Mannréttindabaráttan
- Félagið Ísland-Palestína Félag sem berst fyrir réttindum Palestínumanna
- Amnesty International á Íslandi Íslandsdeild mannréttindasamtakanna Amnesty International
Náttúruvernd
http://www.solistraumi.org/
Bloggvinir
- zeriaph
- eeelle
- tbs
- rosaadalsteinsdottir
- baenamaer
- ulli
- saemi7
- skulablogg
- kuriguri
- vilhjalmurarnason
- marinogn
- hreinn23
- vonin
- icekeiko
- maeglika
- fun
- axelpetur
- prakkarinn
- rafng
- kreppan
- hehau
- photo
- sjalfbodaaron
- mofi
- hlynurh
- bjarnimax
- astromix
- ea
- huldumenn
- muggi69
- jonnnnni
- gerdurpalma112
- gp
- krist
- jonvalurjensson
- bassinn
- gustafskulason
- diva73
- jvj
- maggiraggi
- toshiki
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Teddi minn.
Þessi pistill er mjög góður.
Konungurinn í dæmisögunni gaf þjóni sínum upp skuld en þjónninn gerði það ekki við samþjón sinn sem skuldaði honum.
Jesús hefur fyrirgefið okkur og við eigum líka að fyrirgefa samferðamönnum okkar. Það er oft meira en að segja það eins og núna að margir hafa tapað fleiri, fleiri milljónum út af brjálæði útrásavíkinganna. Ábyggilega bera margir kala til útrásarvíkinganna og til stjórnvalda sem sváfu Þyrnirósarsvefninum langa.
Það er því miður ekki hægt að taka neitt til baka sem búið er að gera en ég vil láta frysta eigur þeirra sem komu okkur í þessa erfiðu stöðu. Kannski hægt að rétta hlut einhverja sem hafa tapað aleigunni. Það væri smá sárabót til að byrja uppá nýtt.
Ég trúi því ef vel er stjórnað hér þá getum við saman komist út úr þessu. Við höfum allt til alls. Landið okkar flýtur í mjólk og hunangi. Landið er sjálfbært.
Margar góðar tillögur hafa komið fram í gegnum tíðina sem stjórnvöld hafa ekki hlustað á en nú er kominn tími til að hlusta á fólkið í landinu sem þeir eru kosnir af og eru í vinnu hjá. Nú ef ekki, þá á þjóðin að fara fram á kosningar og það sem fyrst.
Ég trúi því að nú sé sá tími kominn sem hefur svo oft verið spáð um með Ísland. Spádómarnir voru á þá leið að íslenska þjóðin myndi frelsast. Margir eru í neyð og sem betur fer vita allir hvert á að leita. Hef heyrt að fólk sé byrjað að flykkjast í kirkju nú í október.
"Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá." Sálm. 37.5.
"Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum." Sálm. 55:23.
Drottinn mun snúa við högum okkar.
Guð veri með þér.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.10.2008 kl. 18:47
Sæl Rósa og takk fyrir innlitið. Ég gæti sagt margt meira um fyrirgefninguna, en aðalatriðið er að þeir sem þarf að fyrirgefa kannist við illgjörðir sínar. Fyrirgefningin er oft mjög erfið og getur tekið langan tíma.
Ég er sammála þér að frysta þurfi eigur auðmanna. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki gert það og afleiðingin er að íslenska ríkið hefur misst allan trúverðugleika út á við.
Ég er ekki eins bjartsýnn og þú á allsherjarvakningu. Oft er það þannig að þrengingar hafa í för með sér almenna andlega vakningu, en síðan leitar fólk í sama farið þegar fer að ára betur.
Theódór Norðkvist, 22.10.2008 kl. 20:54
Ef þú kallar þetta langt þá hefur þú greinilega ekki lesið bloggið hennar Bryndísar! (Jæja, nú fæ ég að fara útileigu í nokkra daga, m.ö.o.: Sófinn!)
En þetta er gríðarlega góð grein og mættir þú skrifa oftar svona 'langa' pistla, því ekki kemur maður að tómum kofanum hjá þér fremur en Rósu okkar.
Flottur Teddi !
Guðsteinn Haukur Barkarson, 22.10.2008 kl. 22:56
Sæll Teddi minn þarna ert þú í essinu þínu,og sýnir eins og ég hef lengi vitað hversu fær penni þú ert og hversu þú ert megnugur þegar sá gállinn er á þér.Þetta var mér kær lesning takk takk.
Mig langar að setja inn smá úr bæn okkar er Jesú kenndi og næstum allir Íslendingar og Kristnir kunna(og hvað sú bæn segir okkur þegar við aðskiljum orð hennar og skiljum merkingu orðanna sem Guð setti saman.
Faðir vor þú sem ert á himni helgist þitt nafn og tilkomi þitt ríki(og okkar ríki sem með honum ganga)verði þinn vilji á jörðu sem og á himni(ok gott að láta egíóð til hliðar og skilja hans vilja ekki minn)gef oss í dag vort daglegt brauð(hann mér hjálpar að fæða og klæða mig og mína,og að ég beri umhyggju og hjálpi öðrum)fyrirgef oss vorar skuldir sem og vér fyrirgefum vorum skuldunautum(hér er gott að hinkra og endurtaka orðin aftur,sem sagt mínar skuldir til hans og annarra og að ég láti af kröfum skuldara mína eins og hann gefi mér varðandi skuldir mínar)eigi leið þú oss í freistni heldur frelsir oss frá illu(gef okkur að við getum summað lesti okkar og fáum hjálp við berstina sem allir bera)því að þitt er ríkið mátturinn og dýrðin að eilífu amen.(sem segir mér að allt er þetta hans og vegna hans og hjálpræðið kemur frá guði bæði frá honum og fyrir hann í gegnum fólk okkur sem sagt, hans er auðvitað heiðurinn og um allatíð).
Ég þegar mig skortir guð vegna hversu lítilfjörlegur ég er og vanmáttugur og verð stundum sjálfelskur og leita hans og svara hans ekki nóg,reyni ég oft að skilja hvað þessar bænir og orðið á að segja mér.Auðvitað samkvæmt mínum skilning á orði guðs í þeim sporum og þeim þroska sem ég ber hverju sinni.Ég veit ekki með þig Teddi elsku vinur en mér veitir ekki af að stúdera og eftir bestu getu skilja hvað hann vill mér kenna,svo ég geti orðið að betri manni smátt og smátt og fetað í spor míns Guðs Jesú krists.Ég hef kannski ekkert verið allt of duglegur undanfarið að blogga þessi málefni,og ég er þakklátur ykkur hinum fyrir dugnað ykkar.
Bestu kveðjur og guð blessi þig.Þinn vinur Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 23.10.2008 kl. 00:15
Sæll Theódór.
Heimurinn er öllu flóknari í dag en á dögum Krists og það kann að vefjast fyrir fólki hvernig hægt sé að heimfæra svona dæmisögu upp á núverandi aðstæður.
Spurningin sem við verðum að spyrja til að byrja með er; hver skuldar hverjum hvað? Íslenska þjóðin (þjónn 2) skuldar ekki Bretum (konunginum) þessar upphæðir. Ríkinu (þjóðinni) ber aðeins skylda til að standa skil á hluta þeirra fjármuna sem töpuðust eða aðeins því sem lög um tryggingasjóði kveða á um.
Nú krefst konungurinn að að öll upphæðin verði greidd og býðst til að lána sömu upphæð til að skuldin geti verið skuldfærð á nafn þjóðarinnar (þjóns 2) frekar en bankans, einkaaðilans (þjóns 1) sem átti að standa skil á henni en tapaði peningunum. Þjónn 2 hefur tekið yfir ráðsmennsku eigna þjóns 1 vegna þess að hann er hlaupin frá. Samtímis lofar konungurinn (til að auka vinsældir sínar) þegnum sínum að hann muni ábyrgast að engin muni bera skaða af hinum töpuðu fjármunum. Hann veit að þjónn 1 átti eiginir sem eru miklu meiri en skuldin er sem hann er að reyna að innheimta en að sú eign hefur verið tekin yfir af þjóni 2 (þjóðinni, ríkinu, almenningi) og því grípur hann til þess óyndis ráðs að frysta þær eignir (Kaupþing í Bretlandi) og neyða þannig þjón 2 til að standa skil á skuldinni sem hann var ekki ábyrgur fyrir.
Hefði konungurinn (Brown og breska fjármálráðuneytið) verið réttlátur hefði hann annað hvort látið gíruga og gráðuga þegna sína, sem hann sjálfur ráðlagði að ávaxta fé sitt í hávaxtasjóðum hins fallna banka þjóns 1, taka skellinn eða greitt þeim skaðann sjálfur og sleppt því að beita þjón 2 fjárkúgun. Konungurinn hefði síðan getað dregið þjón 1 fyrir dómarann og látið hann greiða allt sem hann skuldaði eins og dæmisagan segir til um og notað til þess m.a. þær eigur sem eftir voru í búi hans. Þess í stað eyðileggur konungurinn mannorð þjóns 2 og gerir honum m.a. ómögulegt að ávaxta og koma í verð eignum sem hefðu getað greitt skuldir hins ótrúa þjóns.
Segjum svo að konungurinn hefði fyrirgefið þjóni 1 (Icesave) þá hefði það verið réttlátt samkvæmt dæmisögunni að Icesave fyrirgæfi sínum skuldunautum hverjir sem þeir voru. Spurningin sem allir vilja fá svar við er hvað varð um alla peningana sem Icesave var falið til ávöxtunar. Hverjum lánaði Icesave og í hverju fjárfesti það. Hvar eru peningar kóngsins niðurkomnir?
Svanur Gísli Þorkelsson, 23.10.2008 kl. 01:43
Sæll Teddi.
Þessi pistill er einn sá albesti sem ég hef lesið um þessi mál
og vel ígrundað hjá þér að nota samlíkingar úr Biblíunni og svo atburðum síðustu 100 ára.
þetta er alvörumál, fyrir alla aðila, hverra þjóðar sem fólk er !
Birtu okkur fleiri svona pistla.
Kærleikskveðja.
Þórarinn Þ Gíslason 23.10.2008 kl. 02:11
Sæll Teddi minn, gaman að þú tókst líka á Matt 18. Ég gerði það í síðustu viku. Fín færsla hjá þér.
bk.
Linda.
Linda, 23.10.2008 kl. 08:31
Þakka ykkur kærlega fyrir innlitið og hlý orð í minn garð, öll sömul.
Haukur ég vona sannarlega að þú lendir ekki í skammarkróknum!
Úlli, ég held að þetta sé með betri útleggingum á Faðir vorinu sem ég hef lesið. Orðið er endalaus uppspretta viska til að gera okkur að betri mönnum og verðum við líklega aldrei fullnuma í því.
Svanur Gísli, góð úttekt hjá þér á þessu erfiða máli. Ég er reyndar á því að það hafi verið skiljanleg ákvörðun Breta að frysta íslenskar eignir í Bretlandi, enda gáfu óábyrg ummæli íslenskra ráðamanna þeim tilefni til þess. Það er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld hafi ekki gert það sama og sýnir sofandahátt þeirra. Lítur út fyrir að Bretar beiti Alþj. gjaldey.sj. fyrir sig til að beygja Ísland undir kröfur sínar. Hvað varð um peningana hjá Icesave, það verður að komast að því.
Takk Þói og Linda, kíki á færsluna þína.
Theódór Norðkvist, 23.10.2008 kl. 10:12
Nei ég slapp við útileiguna Teddi .. *phew*, en þú ert hér með "klukkaður", sjá nánar hér.
Guðsteinn Haukur Barkarson, 23.10.2008 kl. 10:35
Mjög góður pistill Theódór! Þótt það getur verið erfitt að heimfæra söguna á nútíma samfélag þá samt gerðir þú það vel. Svakalega væri gott að búa í samfélagi gyðinga þar sem allar skuldir voru afskrifaðar sjöunda hvert ár. Væri gaman að skoða allar þessar reglur sem Guð setti Ísrael og sjá hvernig Guð var aðalega umhugað um að vernda hina fátæku og þá sem lentu utangarðs.
Mofi, 23.10.2008 kl. 12:51
Takk fyrir, Mofi. Nákvæmlega, reglurnar sem Guð setti Ísraelsmönnum var ætlað að standa vörð um þá illa settu, hlutur sem hefur gleymst í öllu góðærinu (=skuldsetningunni) undanfarin ár.
Theódór Norðkvist, 23.10.2008 kl. 13:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.