Greiðsluverkfall – hver er tilgangurinn?

Hugtakið greiðsluverkfall er sótt í verkalýðsbaráttuna frá því seint á 19. öld, þegar verkamenn fóru að leggja niður vinnu til að mótmæla bágum kjörum og aðbúnaði og knýja fram úrbætur í þeim málum. Réttindi eins og 40 stunda vinnuvika, framlag launagreiðenda í lífeyrissjóð, sem þykja sjálfsögð í dag, komu ekki á silfurfati. Fyrir þeim þurfti að berjast oft á tíðum mjög hatrammri baráttu. Ég vil byrja á því að rekja aðdragandann að því að ákveðið var að fara í greiðsluverkfall á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna (HH).

Þann 28. ágúst sl. sendi greiðsluverkfallsstjórn HH bréf til ríkissáttasemjara þar sem óskað var eftir að embættið tæki að sér að miðla málum milli samtakanna og viðsemjenda þeirra, Samtaka fjármálafyrtækja, Landssamband lífeyrissjóða og forsætisráðuneytisins. Jafnframt var tilkynnt um að greiðsluverkfall myndi hefjast þann 1. október. Nánar má lesa um þetta ferli á heimasíðu HH, heimilin.is.

Enn daufheyrast viðsemjendur HH við réttlátum kröfum samtakanna um leiðréttingu höfuðstóla íbúðalána og annarra neytendalána heimilanna og afnám verðtryggingar. Boði samtakanna um viðræður hefur ekki verið tekið. Ríkisstjórnin hefur komið fram með lög um greiðslujöfnun sem leysa engan vanda, en eru aðeins tilraun til að fá fólk til að sætta sig við áframhaldandi skuldaþrældóm, með því að klæða hann í búning villandi útreikninga og sjónhverfinga. Greiðsluverkfallsstjórn ákvað því að boða aftur til greiðsluverkfalls þann 15. nóvember og skyldi það standa til 10. desember. Lántakendur eru  hvattir til að greiða ekki af lánum sínum á tímabilinu og taka innistæður út úr ríkisbönkum.

Nú er svo komið að stór hluti heimilanna situr uppi með lán til húsnæðis- og bifreiðakaupa sem hafa allt að því þrefaldast í krónum talið. Verðtryggðu lánin hafa hækkað um tugi prósenta og myntkörfulánin svokölluðu stökkbreyst í kjölfar hruns íslensku krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum heimsins. Íslensk heimili hafa lengi þurft að búa við verstu kjör á íbúðar- og bifreiðalánum á Vesturlöndum. Íbúðarkaupandi sem tekur 10 milljón króna lán til 40 ára þarf að greiða til baka sjöfalda þá upphæð jafnvel þó við reiknum með hóflegri verðbólgu. Þeir vextir sem hér tíðkast væru fangelsissök í mörgum öðrum löndum.

Lánaþrældómi yfirvalda og fjármálastofnana má líkja við bónda sem er að flytja byrðar á asnanum sínum. Hann lemur aumingja skepnuna áfram þrátt fyrir að hún sé að örmagnast vegna þess að bóndinn hefur sett meiri byrðar á dýrið en það ræður við að bera.  Gallinn við líkinguna er að stjórnvöldum og bankayfirvöldum má frekar líkja við þessa tilteknu skepnu en heimilum landsins. Nema að því leytinu að ég veit ekki um neina asnategund sem kemur sínum byrðum yfir á herðar annarra og kemur sér undan því að axla þær sjálf.

Flest heimili landsins réðu engu um þá efnahagsstefnu sem hér hefur ríkt undanfarna áratugi og keyrði loks fjárhag landsins á kaf. Samt eiga þau að greiða allan herkostnaðinn, meðan þeir sem bera mestu sökina fá niðurfellingar kúlulána og annarra ofurlána til plateignarhaldsfélaga að því er virðist eftir pöntun. Ákveðnir menn og fyrirtæki gátu gengið í sameiginlega sjóði og auðlindir þjóðarinnar, tekið að eigin geðþótta út lán á kjörum sem buðust ekki meðaljóninum, til glórulausra fjárfestinga úti í heimi og skilið eftir tóma banka, ríkissjóð og Seðlabanka með risaskuldir. Þeir eru enn að hirða bestu bitana úr rústunum og velta óreiðuskuldum sínum yfir á herðar almennings.

Heimilin eru grunnstoð samfélagsins. Við stöndum frammi fyrir þeirri hættu að þriðja til fjórða hvert heimili komist í varanlegt greiðsluþrot. Fyrir utan hvað það er mikið persónulegt áfall að missa allar eignir og sitja uppi með óviðráðanlegar skuldir mun slík holskefla gjaldþrota hafa djúp samfélagsleg áhrif til hins verra. Hætt er við að unga og menntaða fólkið muni flytja úr landi í tugþúsunda tali þegar við þeim blasir skuldaþrældómur alla ævi og verri lífskjör. Þetta er fólkið sem helst stendur að verðmætasköpun og framþróun þjóðfélagsins og við megum síst við að missa. Gerist það mun landið dragast enn meir niður á við. Sumir halda því fram að Ísland verði ekkert annað en verbúðir eða sumarbústaðaland fyrir ríka Evrópubúa og kannski brottflutta Íslendinga sem koma fótunum undir sig á nýjum slóðum.

Við getum snúið þessari þróun við með samstöðu. Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið í forystu þeirra sem berjast fyrir bættum kjörum þeirra sem eru að sligast undan stökkbreyttum fasteignar- og bifreiðalánum í kjölfar hruns íslensku krónunnar og óðaverðbólgu af þeim sökum. Ég hvet þig lesandi góður að leggja okkur lið og skrá þig í samtökin á heimasíðu okkar, heimilin.is. Ég hvet þig líka til að mæta á baráttufund Hagsmunasamtaka heimilanna og samtakanna Nýs Íslands á Austurvelli laugardaginn 28. nóvember kl. 15:00. Sameinuð standa heimilin, sundruð falla þau.

 

Höfundur er stjórnarmaður í greiðsluverkfallsstjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og skuldaþræll.

 

 (Greinin hefur verið send í  Morgunblaðið og bíður birtingar)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tilraun.

TN 15.1.2010 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband