Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vegtollar væru mikið framfaraskref

Ég hef í nokkurn tíma barist fyrir því að sú regla verði tekin upp sem víðast að þeir borgi sem noti. Það á vel við í samgöngumálum. Jón sem á ekki bíl á ekki að borga skatta til að Guðmundur geti farið með fjölskylduna á fína og dýra jeppanum sínum inn í Þórsmörk að skoða eldgosið.

Það er því fagnaðarefni að stjórnvöld eru að skoða möguleikann á veggjöldum á helstu umferðaræðum til og frá Reykjavík. Verra er ef það á að seilast í vasa lífeyrissjóðanna til að fá fjármagn til vegaframkvæmda, en það er önnur sorgarsaga sem er ekki til umfjöllunar hér og nú.

Sá fyrirvari er á gleði minni að sú ríkisstjórn sem nú situr er mjög skattaglöð og gæti freistast til að nota þetta sem átyllu til að auka skattheimtu. Mér skilst að ákveðinn hluti bensíngjaldsins sé eyrnamerktur vegaframkvæmdum, en þeir peningar hafi samt verið notaðir til annarra verkefna. Stjórnvöld eiga að sjálfsögðu að lækka bensíngjald ef vegtollar verða teknir upp í meira mæli.

Eflaust munu margir kvarta og kveina undan fyrirhuguðum vegtollum eins og framkvæmdastjóri FÍB í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld. Hann sagði að þetta myndi bitna á þeim sem minnst bera úr býtum, en það er ekki rétt. Það fólk sem er illa statt fjárhagslega er ekki að flengjast á milli landshluta alla daga. Það hefur ekki efni á því nú þegar.

Við höfum dæmi um eina vegaframkvæmd sem var fjármögnuð með veggjöldum, Hvalfjarðargöngin. Það hefur gengið vel og ekki mikið kvartað undan veggjöldunum. Ef einhverjir hefðu ástæðu til að kvarta væru það Akurnesingar og nágrannar, en þeir hafa þurft að greiða á bilinu 500-1500 krónur fyrir hverja ferð um Hvalfjarðargöng á meðan Vestfirðingar fengu sína stóru samgöngubót Vestfjarðargöngin frítt, eða réttara sagt á kostnað skattgreiðenda.


Þvílík ályktunargáfa sem manneskjan býr yfir

Ég held að Jóhanna Sigurðardóttir hljóti að koma sterklega til greina við næstu útnefningu til Nóbelsverðlaunanna í stjórnmálafræði.

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar leysa ekki Icesave málið!

Það hlýtur að þurfa gríðarlega háa greindarvísitölu til að geta sett fram svona djúpa speki. Þetta hefur örugglega engum öðrum dottið í hug.

Fyrst Jóhanna Sigurðardóttir hefur svona frábæra ályktunargáfu hlýtur hún að skilja að þjóðin var að flengja hana og stjórn hennar fyrir að hafa tvívegis troðið nauðasamningi fengnum með fjárkúgun upp á almenning vegna skuldar óreiðumanna í fjármálum.


mbl.is Kosningarnar ljúka ekki málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verið að fela óhreinu börnin hennar Evu?

Samkvæmt því sem ég hef heyrt eru það Hagsmunasamtök heimilanna, Attac og Nýtt Ísland sem standa að göngunni. Þar sem þetta eru bara þrjú samtök skil ég ekki hvers vegna þau eru hvergi öll nefnd í fréttatilkynningum um þessa fyrirhuguðu mótmælagöngu. Aðeins Hagsmunasamtökin eru nefnd í þau skipti sem minnst er á hverjir standa fyrir göngunni.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa legið undir ámæli vegna samstarfs þeirra við Nýtt Ísland, en sum stefnumál síðarnefndu samtakanna þykja vafasöm. Þar á meðal má nefna þrælahald á atvinnulausum, að ökklabönd með staðsetningartæki verði sett á afbrotamenn og samtökin hafa lýst yfir vilja til að stofna leyniþjónustu sem fylgist með mögulegum afbrotum.

Mér dettur einna helst í hug að Hagsmunasamtökin séu ekki mjög hreykin af samstarfinu við Nýtt Ísland og hafi ákveðið að nefna enga aðstandendur göngunnar í fréttatilkynningum nema sín eigin samtök.


mbl.is Alþingi götunnar stofnað á laugardag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæf umboðslaus ríkisstjórn fremur stjórnarskrárbrot

Ríkisstjórnin hefur ekkert umboð til að gera samning við Breta og Hollendinga vegna hinnar meintu Icesave-skuldar. Bretar og Hollendingar reyna að innheimta skuldina með fjárkúgun og gegna Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn ásamt ESB hlutverki handrukkaranna.

Stjórnarskráin kveður á um að ef forseti synjar lögum staðfestingar SKULI þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram til að skera úr um hvort lögin taki gildi. Verði niðurstaðan afgerandi höfnun laganna er ekki hægt annað en að líta svo á að þjóðin sé andvíg þeim drápsklyfjum sem hin getulausa og vanhæfa ríkisstjórn Samfylkingar og VG reynir að þröngva upp á þjóðina í þriðja sinn.

Stofnuð hafa verið samtök sem hafna Icesave byrðinni á grunni innlendra og alþjóðlegra laga. Þjóðarheiður - samtök gegn Icesave heita þau og komast má á vefsíðu þeirra með því að smella hér.

NEI við Icesave!


mbl.is Án samráðs við stjórnarandstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver eru réttaráhrif héraðsdóms?

Ég fæ ekki séð að lánastofnunum sé stætt á að innheimta vexti af stökkbreytum höfuðstól ólöglegra lána. Hvað þá að hirða eignir af fólki og leggja líf þeirra í rúst með innheimtuaðgerðum. Það segir allt sem segja þarf um vanhæfni félagsmálaráðherra sem vill halda nauðungarsölum til streitu af ólöglegum lánum. Maður sem er með kúlulánþega sem aðstoðarmann. Líkur sækir líkan heim.


mbl.is Nauðungarsölum ekki frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollendingurinn ljúgandi

Gat ekki stillt mig um að rjúfa bloggbindindið og svara þessum níðing, Wouter Bos fjármálaráðherra Hollands. Bos er að láta það líta þannig út að Ísland sé að svíkjast undan sínum alþjóðlegu skuldbindingum, en það er haugalygi.

Væri það klárt að EES-samningurinn og ESB tilskipanir tengdar honum segðu ótvírætt að íslenska ríkinu bæri að borga Icesave-reikningana hefði ekki þurft sérstök lög á Alþingi til þess. Þá hefði verið nóg að ESB sendi bara reikning til  stjórnarráðsins í pósti.

Meðan um það er deilt að þessi skuldbinding er til staðar er það glæpur gegn hagsmunum Íslands fyrir stjórnmálamann að tala þannig á alþjóðavettvangi að Ísland sé að svíkjast um. Er ekki hægt að kæra þennan mann fyrir glæpi gegn mannkyninu?

Hann er að vinna gegn landinu og beitir fyrir sig alþjóðlegum stofnunum til að kúga Ísland. Engin lagastoð er fyrir því að nota ESB og AGS sem handrukkara fyrir einstök kúgunarveldi eins og Holland og Bretland.

Ég ætla allavega að leita allra leiða til að koma þessari skepnu í hendur réttvísinnar. Þessi maður ætti að sitja inni.


mbl.is Bos: Ekki hægt að hlaupast á brott
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna ég skrifa ekki undir þessa yfirlýsingu

Ég tel að verið sé að leiða athyglina frá hinum raunverulegu sökudólgum í málinu, sjónhverfingarmönnunum í útrásinni, sem hafa svikið milljarða út úr saklausu fólki, ríkisstjórninnni, sem hefur setið á rassinum og ekki sýnt neina viðleitni til að uppræta fjársvikastarfsemi þeirra og þvert á móti varið hana út á við og forsetanum, sem hefur verið grúppía hjá útrásarliðinu.

Ekki hef ég séð neina undirskriftarlista til að fá ríkisstjórnina til að segja af sér, eða réttað verði yfir þeim mönnum sem rökstuddur grunur eru um að hafi lagt stund á fjársvik. Það er alltaf auðvelt að finna óvin fyrir utan landsteinana en að líta í eigin barm.

Í rauninni hefur Gordon Brown gert það eina viturlega í allri þessari stöðu: Fryst eigur þeirra manna sem hafa svikið fé út úr fjölda manns. Þessir menn hafa unnið efnahagsleg hryðjuverk út um allan heim og slátrað trúverðugleika heillrar þjóðar.


mbl.is Til varnar Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nágrannar hrista hausinn

Hvernig gátum við siglt þjóðarskútunni svona illilega í strand á öllum sviðum? Gjaldmiðillinn hruninn, trúverðugleikinn fokinn og fákeppni á öllum sviðum.

Það er ekki skrýtið þó Svíar og margir aðrir klóri sér í höfðinu yfir hlutskipti okkar. Hætta á því að landið hverfi aftur til nítjándu aldar hvað lífsskilyrði varðar og í þokkabót heyrir frjáls fjölmiðlun sögunni til.

Ég tel að það sé raunveruleg hætta á því að einhver nágrannaþjóð eða nokkrar saman taki sig til og hernemi landið til að koma í veg fyrir meira rugl. Ég stórefa það allavega að vestræn ríki taki þá áhættu að Ísland og hin mikilvæga siglingaleið norður fyrir landið komist undir yfirráð Rússa.

Sennilega væri það ekki verra hlutskipti en að láta núverandi stjórnvöld sitja áfram í rústunum, sem neita að horfast í augu við eigin afglöp og þvælast fyrir öllu björgunarstarfi.


mbl.is Áhyggjur af fjölmiðlum hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vá, þvílíkur heiður!

Forkólfur málfundafélags nokkurs, sem í daglegu tali er kallað ríkisstjórn Íslands, ætlar að gera hlé á málfundaræfingunum í ráðherrabústaðnum og flytja þjóðinni, sem hann hefur hingað til ekki viljað tala við, ávarp.

Það er framför. Ég hef litla trú á því að hann hafi einhverjar alvöru lausnir að flytja okkur. Það er þá skömminni skárra að hann flytji okkur ávarp fyrst hann hefur ekkert annað að flytja okkur.


mbl.is Forsætisráðherra flytur ávarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið í djúpum þið vitið hvað

Er ekki ríkissjóður hér með orðinn ábyrgur fyrir þessum skuldbindingum sem langstærsti hluthafinn? Davíð, þú ert snillingur.

Eða þykist ríkið ætla að selja hlutinn og það með hagnaði? Verður það ekki frekar skortsala, þar sem enginn vill taka við banka á fallandi fæti með skuldbindingar sem hann ræður ekkert við? Ef þá einhver vill kaupa svoleiðis flak.

Verði þeim að góðu sem stóðu fyrir þessum gjörning.


mbl.is Fjárþörfin 230 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband