Bláskjár

Ég hef lengi haft það á tilfinningunni, að ákveðnir gæðingar geti gengið inn og út í Ríkissjónvarpinu með hvaða bull sem er, svo lengi sem þeir eru á "réttri" línu hvað stjórnmálaskoðanir varðar.

Þessi grunur fékk byr undir báða vængi eftir kvöldfréttir í gær. Þar var löng frétt um bandaríksan hagfræðing að nafni Arthur Laffer, sem boðar fagnaðarerindi skattalækkana.

Það er ljóst að Laffer er á frjálshyggjulínunni, enda skrifaði Hannes Hólmsteinn langa grein í Morgunblaðið um þetta goð sitt. Í lok jákvæðrar umfjöllunar um Laffer var viðtal við fjármálaráðherra, Árna Mathiesen, þar sem hann tók undir þessi orð Laffers.

Ég er ekki á móti því að fjallað sé um heimsóknir þekktra fræðimanna til landsins í ríkisfjölmiðlunum. Það er bara orðið mjög áberandi hvað hægri sinnaðir frjálshyggjuhagfræðingar fá mikla umfjöllun í Ríkissjónvarpinu, sem á samkvæmt lögum að gæta hlutleysis í stjórnmála- og efnahagslegri umræðu.

Ef hingað kæmi einhver frægur vinstri sinnaður hagfræðingur, fengi hann svona mikið rými í ríkisfjölmiðlunum? Einhvern veginn efast ég um það.

Gárungarnir hafa oft nefnt Ríkissjónvarpið Bláskjá, vegna tíðra drottningarviðtala við Davíð Oddsson, meðan hann var forsætisráðherra og vegna þess að yfirlýstir hægri menn hafa verið ráðnir í nánast allar lykilstöður á fjölmiðlinum.

Það væri e.t.v. réttast að selja bara RÚV með manni og mús og hætta að reka fjölmiðil á kostnað almannafé í samkeppni við aðra fjölmiðla í einkaeigu. Kannski er þetta leið Sjálfstæðisflokksins til þess að rýja stofnunina trausti almennnings til að kröfurnar um einka(vina)væðingu RÚV verði háværari.

Er ekki betri hugmynd að losa um tök Sjálfstæðisflokksins á Ríkissjónvarpinu og hætta að nota fjölmiðilinn sem málgagn ríkjandi stjórnvalda hverju sinni. Var einhver að tala um Sovétríkin og ægisvald þeirra á fjölmiðlum á sínum tíma?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég tel, að vinstri sinnar í hópi fræðimanna hafi almennt fengið meira rými í ljósvakamiðlum en hægri sinnar. Til dæmis var ekki viðtal við Laffer í Kastljósi, en þar var talað við hinn umdeilda hagfræðing Jeffrey Sachs, þegar hann kom hingað á sínum tíma. Þegar John Kenneth Galbraith gerði 13 þætti um efnahagsmál, voru þeir allir sýndir í sjónvarpi (um 1980), en aðeins fimm þættir af tíu, sem Milton Friedman gerði um efnahagsmál. Þegar Stefán Ólafsson segir eitthvað um ójöfnuð, eru sérstakar fréttir af því (jafnvel sérstakar fréttir í hljóðvarpi ríkisins af því, þegar hann segir eitthvað í viðtali við Fréttablaðið). Þegar kemur í ljós í skýrslu Evrópusambandsins (í febrúar 2007), að ekkert er hæft í fullyrðingum hans, er reynt að þegja það í hel í Ríkisútvarpinu (hljóðvarpinu). Ég gæti talið upp mörg fleiri dæmi. Gleymdu því ekki, að Laffer er einn frægasti hagfræðingur heims, hvort sem menn eru sammála honum eða ekki. Það eru ekki margir, sem fá boga kenndan við sig, eins og Laffer-bogann. Auðvitað á að nota tækifærið og ræða við slíka menn. HHG

Hannes H. Gissurarson 19.11.2007 kl. 17:53

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þakka þér fyrir svar þitt Hannes. Fyrst, þá var nú annað ríkisstjórnarmynstur 1980, það má vera að vinstri öflin hafi verið mjög öflug í fjölmiðlaumræðu á þeim tíma. Reyndar fékk Milton Friedmann mikla umfjöllun þegar hann dó, en ég tek fram að ég set ekki út á það, enda maðurinn nóbelsverðlaunahafi í hagfræði.

Ekki finnst mér minna hafa borið á þér í ójafnaðar- og skattaumræðunni en Stefáni Ó. Hann er reyndar mjög virtur fræðimaður hér á landi og þið báðir. Reyndar fannst mér sú umræða mjög ruglingsleg og ótrúlegt að ekki sé hægt að fá það á hreint hvort skattbyrðin á hina og þessa tekjuhópana hafi lækkað eða hækkað. Það á að vera einföld tölfræði að komast að því, sama hvar menn standa í stjórnmálum. Tölfræðin lýgur ekki, þó hægt sé að ljúga með tölum.

Þetta er ekki eina svona ráðstefnan með frjálshyggjuáherslum, það hafa verið tvær aðrar, 26. júlí og 14. september. Báðar fengu mikla athygli í fjölmiðlum og voru á vegum Félagsvísindastofnunar. Ríkisrekinn áróður fyrir frjálshyggju.

Ég tek fram að ég hef ekkert á móti því að frjálshyggjumenn brýni vopnin í sinni baráttu. Það sem mér finnst óeðlilegt og brot á hlutleysis- og jafnaðarreglu RÚV, er að þessar ráðstefnur fái fría auglýsingu í Ríkissjónvarpinu.

Það væri meira í takt við hlutverk opinberra stofnana eins og Félagsvísindastofnunar og RÚV að halda málþing um hagfræði og kosti og galla skattalækkana, þar sem menn með ólík sjónarmið tækjust á, ekki bara lofgjörðarsamkomur frjálshyggjumanna.

Theódór Norðkvist, 19.11.2007 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 104771

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband