Hæsta vöruverð á jarðkringlunni. Er skrýtið að erlendir ferðamenn haldi um veskið?

Er það skrýtið að erlendir ferðamenn kaupi ekki vöru og þjónustu hér á landi ef þeir fá hana á hálfvirði heima hjá sér og geta flutt hana inn? Okrið íslenska hefur að sjálfsögðu skilað sér til leiðsögumannanna og dæmigert fyrir hagsmunasamtök í okrinu að þeim dettur ekki í hug að há verðlagning geti hrakið erlenda ferðamenn til að kaupa þjónustuna annars staðar frá en af innlendu okrurunum. Eina ráðið sem forkólfi leiðsögumanna dettur í hug er að fá einokun í þessum geira eins og ríkir í flestum öðrum atvinnugreinum hér á landi.


mbl.is Uppselt á ferðamannastaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Teddi minn.

Auðvita kemur fólk með aðföng með sér ef hægt er fyrst verðlag  er svona hátt.

Verðlag og kaup fólks þarf að samræma.

Baráttukveðjur/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 7.8.2008 kl. 19:25

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Takk fyrir innlitið bæði tvö. Hárrétt Rósa, verðlag og kaup þarf að samræma, en við þurfum að vera samkeppnishæf við nágrannalöndin um ferðamenn. Ef þeir læsa veskinu vegna verðlags sem er úr korti miðað við heimalönd þeirra fá verslanir og þjónustusalar engar tekjur.

Það er ánægjulegt ef ferðamenn koma hingað vegna náttúrufegurðar, en ef þeir hrista bara hausinn yfir verðlaginu fær ferðamannaiðnaðurinn engar tekjur og verður ekki sá stólpi í hagkerfinu sem Ómar Ragnarsson og fleiri eru að vonast til. 

Theódór Norðkvist, 7.8.2008 kl. 20:27

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mig langar að benda á launatöflu leiðsögumanna - hún er hér. Ef einhverjum finnst þetta há laun veit ég ekki hvað þeir miða við.

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.8.2008 kl. 13:54

4 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Hæ og hó.

Hér var aðallega verið að tala um vöruverð og að ferðamenn kæmu með allt til alls með sér vegna okurverðs á matvælum og allri þjónustu. Einnig að við getum ekki krafist þess að erlendir ferðamenn fái íslenskan leiðsögumann eða fararstjóra. Við værum ekki ánægð með að fara erlendis og mega ekki hafa okkar eigin leiðsögumann. Þægilegra uppá tungumál. Þegar ég var í Ísrael þá var kona af gyðingaættum með okkur, að mig minnir í einn dag og það er oft mjög flott að geta gripið í innlenda viskubrunna í sambandi við sögulegar heimildir sem nóg er af í Miðausturlöndum. Íslenskir leiðsögumenn sem hafa farið á Íslendingaslóðir í Kanada eru mjög fróðir og sennilega ekki síður en þeir innfæddu. Hef verið með í þannig ferð og leiðsögumennirnir okkar voru meiriháttar.

Guð gefi ykkur góðan dag.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 9.8.2008 kl. 14:54

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Lára, það var ekki ætlun mín að ráðast á leiðsögumenn sem slíka. Þeir eru sjálfsagt ekki of sælir af sínum launum af þessari töflu að dæma, a.m.k. ef þeir eru launamenn.

Yfirleitt er leiðsögn seld sem hluti af stærri pakka, þú leiðréttir mig ef þú veist betur. Pakkinn er þá yfirleitt mjög dýr, sem gerir það að verkum að erlendir ferðamenn leita annað en til hérlendra ferðaþjónustuaðila.

Það er þetta sem ég og margir fleiri eru að benda á og það er fáránlegt ef talsmenn leiðsögumanna ætlar að heimta einokun Íslendinga á leiðsögn hér á landi. Þá verður leiðsögumannastéttin að athlægi um allan heim. Ekki trúi ég því upp á þig Lára að þú styðjir einokun, þú sem berst fyrir svo góðu málefni í umhverfisvernd. 

Okur gegnumsýrir allt þjóðfélagið og leiðsögumenn eins og aðrir verða að miða verðlagningu á sinni vinnu við almennt verðlag. Það bara verður að ná niður almennu verðlagi hér, annars verðum við ekki samkeppnishæf á alþjóðlegum vettvangi, hvorki í ferðaþjónustu né á öðrum vettvöngum.

Theódór Norðkvist, 9.8.2008 kl. 15:50

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þegar seldir eru fokdýrir pakkar til Íslands er þóknun leiðsögumannsins hverfandi lítil eins og sjá má af launatöxtunum. Þetta eru taxtar sem ferðaskrifstofur borga, hvað sem tautar og raular, og eftirtekjan rýr þegar búið er að hirða af þessu lögbundin gjöld og skatta. Þó eru aðeins örfáir leiðsögumenn fastráðnir við þá iðju allt árið um kring - allir hinir eru lausamenn, ráðnir til einstakra verkefna en fá engu að síður greitt samkvæmt taxta sem ansi fáir myndu láta bjóða sér.

Ég held að flest annað í pakkanum geri það að verkum hvað hann er dýr - enda verðlagning miðuð við það, að tekjuárinu er haldið meira og minna uppi á þremur sumarmánuðum þótt eitthvað hafi það lengst í báða enda undanfarin ár.

Fjölmörg lönd, bæði í Evrópu og annars staðar, hafa reglur um það, að í hverri rútu sem fer með erlenda ferðamenn verði að vera innlendur leiðsögumaður svo varla verðum við okkur að athlægi með því að setja sams konar reglur. Þetta er ekki spurning um einokun heldur annars vegar öryggi og hins vegar fræðslu. Okkur svíður sárt, leiðsögumönnum, þegar við hittum á ferðum okkar um landið, heilu rúturnar með erlendum bílstjórum og leiðsögumönnum sem vita það eitt að þau eru stödd á Íslandi. Hafa ekki hugmynd um sögu landsins, vegakerfið eða annað sem nauðsynlegt er að vita þegar ferðast er um þetta land. Þetta skapar gjarnan hættur og misskilning. Flestir íslenskir leiðsögumenn og bílstjórar lenda í því ár eftir ár að þurfa að segja þessu fólki til vegar, uppfræða það og farþega þeirra sem halda sig t.d. á leið að Öskju þegar það er á leið suður Kjöl - og þar fram eftir götunum.

Til eru dæmi um að íslenskar ferðaskrifstofur hafi afboðað íslenska leiðsögumenn í ferðir, jafnvel með stuttum fyrirvara, af því að í ferðina fékkst einhver útlendingur, sem oft og tíðum hefur aldrei komið til landsins, til að taka að sér "leiðsögnina" frítt - eða aðeins gegn því að koma hingað og fá frítt fæði og húsnæði. Engin laun. Í samanburði við slík "kostaboð" virkar hinn fáránlega lági taxti leiðsögumanna auðvitað hár og "lægra tilboðinu" tekið. Hér eins og víðar í samfélaginu er horft í aurinn, ekki gæði þjónustunnar - því miður.

Fjölmargir leiðsögumenn og bílstjórar geta einnig sagt sögur af því þegar þeir ferðast með hópa sem hafa hópstjóra eða fararstjóra - erlenda, vitaskuld. Ferðin er sett saman erlendis, af fólki sem þekkir Ísland ekkert, og ætlunin t.d. að keyra frá Seyðisfirði til Reykjavíkur á einum degi með viðkomu á Dettifossi, í Jökulsárlóni og Landmannalaugum á leiðinni. Það getur verið erfitt að gera hópstjóranum grein fyrir því að þetta sé ekki hægt og búið er að selja farþegunum þetta á myndum.

Sjálf hef ég t.d. lent í því að vera kölluð til þegar einkaþota kom með kanadíska fjölskyldu. Þau lentu seint að kvöldi, fóru beint á hótel og ætluðu - fyrst þau voru komin hingað - að verja hér einum degi, um 8 tímum eða svo. Það tók mig talsverðan tíma að gera þeim grein fyrir því að það væri ekki hægt að keyra með þau hringinn í kringum eyjuna á þessum 8 tímum.

Þetta er nú sá veruleiki sem við er að etja og hef ég þó aðeins nefnd örfá dæmi. Ótalin eru t.d. dæmin um þegar gönguhópar halda að þeir geti skoppað um allt hálendi Íslands á 2 dögum og séð ALLT. Því það er búið að selja þeim slíka ferð.

Það er margur pottur brotinn í ferðaþjónustunni og það hefur sárlega vantað stjórn og yfirsýn yfir þau mál. Ferðamál voru geymd í skúffu í Samgönguráðuneytinu þar til um síðustu áramót þegar þau voru flutt í skúffu í Iðnaðarráðuneytinu. Ég veit ekki til þess að það standi til að opna skúffuna í bráð.

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.8.2008 kl. 11:56

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Takk fyrir þessar athygliverðu upplýsingar, Lára. Það er alveg ljóst að strípaðir taxtar leiðsögumanna eru ekki háir. Málið er bara að meðan verðlag hér á flestri þjónustu og vöru er gjörsamlega úr takti við það sem gerist annars staðar í Evrópu og engilsaxneskum löndum munu erlendir ferðamenn hneigjast til að leita annað, þó gæðin og þekkingin á landinu sé mun síðri en hjá okkur.

Ég hef orðið var við það í gegnum björgunarsveitarstarf mitt að ferðamenn koma sér í vandræði vegna vanþekkingar á aðstæðum hér, eins og þú bendir á hér að framan.

Eitt kemur mér á óvart, en það er að einhver lönd skyldi íslenskar ferðaskrifstofur til að hafa a.m.k. einn erlendan leiðsögumann. Ég hef farið til þó nokkurra landa á vegum íslenskra ferðaskrifstofa og hef ekki orðið var við að með í för væri erlendur leiðsögumaður, nema bílstjórinn hafi verið talinn sem leiðsögumaður.

Theódór Norðkvist, 11.8.2008 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband