Sindbað sæfari á Íslandi?

Í einni af sögunum af Sindbað sæfara, sem er að finna í hinum arabísku ævintýrasögum Þúsund og einni nótt, skolar Sindbað á land á eyju einni. Hann hittir þar fyrir öldung nokkurn sem hann sér aumur á og ber yfir lækinn til að hann geti náð sér í ávexti af trjánum. Öldungurinn launar Sindbað góðverkið vægast sagt með illu:

En er ég kom lengra á land upp, sá ég gamlan karl, sem mér virtist vera næsta ellihrumur, og sat hann á lækjarbakka. Kom mér þá ekki annað til hugar en hann mundi vera skipbrotsmaður eins og ég; gekk ég því til hans og heilsaði honum, en hann bandaði að eins höfðinu og svaraði engu.

Spurði ég hvað hann væri að gera þar, en í stað þess að svara mér, gerði hann mér skiljanlegt með bendingum, að ég skyldi taka hann á herðar mér og bera hann yfir lækinn, svo hann gæti lesið sér þar aldin. Ég trúði því þá, að hann í raun og veru væri kominn upp á hjálp mína, tók hann upp á bak mér, og bar hann yfir lækinn.

  „Farðu nú ofan af mér,“ sagði ég við hann og laut ofan að jörð, svo að honum yrði hægara fyrir. Á það, sem nú gerðist, get ég aldrei óhlæjandi minnzt. Karlinn, sem mér hafði sýnzt vera svo örvasa og hrörlegur, krækti báðum fótum um háls mér með mesta liðugleik, og settist á herðar mér eins og á hest; var skinnið á fótum hans eins og nautshúð. Kreppti hann svo fast að kverkum mínum, að ég hélt hann ætlaði að kyrkja mig; fékk ég þá öngvit af hræðslu og féll til jarðar....

Þrátt fyrir öngvitið sat hinn hvimleiði karl grafkyrr á hálsi mér, en linaði þó takið ofurlítið, til þess ég skyldi rakna við. En er ég var kominn til sjálfs mín, brá hann öðrum fætinum fyrir kvið mér, en sparkaði hinum í síðu mér, svo ég varð að standa upp. Síðan lét hann mig bera sig inn á milli trjánna og neyddi mig öðru hverju til að staldra við, svo að hann gæti lesið ávexti og étið þá.

Hann sleppti mér ekki allan daginn, en er nótt var komin, og ég ætlaði að hvíla mig, lagðist hann niður á jörðina með fæturna krækta um háls mér.

Á hverjum morgni sparkaði hann í mig, og vakti mig þannig; því næst kreppti hann fæturna svo fast að mér, að ég varð að standa upp. Megið þér nærri geta, hvort ég ekki hef átt bágt, að verða að dragast með þessa byrði, sem mér var lífsómögulegt að losast við.

Einn dag fann ég á leið minni margar þurrar hnetur, sem fallnar voru ofan úr tré einu, er bar þann ávöxt. Tók ég eina, sem var furðu stór, holaði hana innan, og kreisti í hana safa úr mörgum vínberjum, því af þeim óx ógrynni þar í eynni, hvar sem fæti var stigið.

Þegar hnotin var full, lagði ég hana á vísan stað, og stillti svo til, að karlinn skyldi fara með mig þangað nokkrum dögum síðar. Tók ég þá hnotina og drakk hinn ágæta drykk; svæfði hann um stund þá dauðans hryggð, sem ég kvaldist af. Mér þótti afl færast um limu mína, og varð svo kátur, að ég hoppaði í loft upp syngjandi.

Þegar karlinn sá, að drykkurinn hafði þessi áhrif og fann að mér varð venju fremur létt fyrir að bera hann, benti hann mér, að ég skyldi lofa honum að súpa á. Rétti ég honum þá hnotina, og með því honum þótti drykkurinn góður, slokaði hann allt í sig og kúgaði hnotina til hins síðasta dropa.

Þurfti hann ekki meira til að verða svinkaður og sveif skjótt á hann; tók hann þá að syngja, sem honum lá rómur til, og reri í ýmsar áttir á herðum mér. En af róli þessu varð honum svo óglatt, að hann ældi upp því, er hann hafði drukkið; fann ég þá að fætur hans linuðust og losnuðu smámsaman um háls mér, og þegar ég fann, að hann hætti að kreppa að mér, fleygði ég honum til jarðar, og lá hann þar hreyfingarlaus; þreif ég þá upp stóreflis stein og mölvaði með honum hvert bein í hausi hans.

Ég var nú guðsfeginn að vera orðinn laus við þenna karlskratta og gekk fagnandi til strandar; hitti ég þar nokkra sjómenn, sem nýlega voru lentir til að sækja vatn og matföng.

Urðu þeir hlessa, þegar þeir sáu mig og heyrðu sögu mína. „Þú hefur rekizt í greipar sjávar-öldungsins“ sögðu þeir, „og ert þú sá fyrsti, sem hann hefur ekki kyrkt. Hann sleppti aldrei þeim, sem hann einu sinni hafði fest hendur á, fyrr en hann hafði kyrkt þá, og er ey þessi illræmd af mannskaða þeim, er hann hefur gert. Sjómenn þeir og kaupmenn, er lentu hér við eyna, þorðu aldrei upp á land, nema þeir væru margir saman.“

Ég get ekki gert að því, en gamli maðurinn minnir mig á yfirstétt auðmanna og stjórnmálamanna hér á landi. Því meir sem vaxta- og skattpínd alþýðan kveinkar sér eykur auðstéttin og leppar þeirra á þingi byrðarnar á henni, en veltist enn meira um í ólifnaði sjálf.

Sindbað losnaði við gamla manninn með því að fylla hann og stúta honum síðan. Ekki mæli ég með þannig aðförum. Mannkynssagan sýnir samt að spilltar forréttindastéttir í öllum samfélögum hafa yfirleitt liðið undir lok vegna eigin drykkjuskapar og óhófs. Eins og Sindbað braut hausinn á öldungnum uppáþrengjandi hafa blóðugar byltingar og innrásir annarra landa eða þjóðflokka ekki gert annað en að flýta fyrir óhjákvæmilegum endalokunum hverju sinni.

Gerist það á Íslandi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hrikalega góð myndlíking. Nú er bara að sjá hvort þeim takist að kyrkja þjóðina.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.12.2008 kl. 23:26

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég las Þúsund og eina nótt þegar ég var yngri og rakst á gamla bók með sögunum um Sindbað í sumar. Las sögurnar aftur og sá þetta samhengi eftir að kreppan skall á. Margt merkilegt fólgið í þessum fornu arabísku þjóðsögum.

Theódór Norðkvist, 14.12.2008 kl. 00:31

3 Smámynd: Sverrir Einarsson

Þessir háu herrar sem hér ráða trúa því um leið og það verður að hér verði gerð bylting.....en ekki fyrr.

Sverrir Einarsson, 16.12.2008 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband