Opinber útflutningur á hrunhönnuðum

Oft er sagt að til að þess að við vinnum okkur fyrr út úr efnahagsvandanum verði að auka útflutning landsins. Ég skal vera fyrstur til að taka undir það hvenær sem er, en ekki er ég viss um að sá útflutningur sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er farin að stunda, sé okkur til framdráttar.

Þau eru farin að flytja út hrunhönnuði í bitlinga sem falla Íslandi í skaut vegna alþjóðlegs samstarfs landsins. Jón Baldvin Hannibalsson guðfaðir Samfylkingarinnar, gagnrýnir enn og aftur afkvæmi sitt og fyrrverandi samhrunflokk þess, Sjálfstæðisflokkinn, að þessu sinni fyrir að styðja Árna Mathiesen í umsókn hans um deildarstjórastöðu hjá Matvælastofnun Sameinuðu Þjóðanna FAO, í Róm. Þetta kemur fram í frétt á Pressunni.

Það var vitað að hrunverjinn Árni Mathiesen var of góður til að mæta til yfirheyrslu fyrir verk sín (og verkleysi) í ráðherrastól árin fyrir hrun og naut skjaldborgar hrunflokkanna, en nú hefur líka komið í ljós að hann er of góður til að atast í beljunum áfram, sem hann er þó menntaður til að gera.

Þess vegna áleit ríkisstjórnin að nauðsynlegt væri að draga Ísland enn fram til háðungar í augum umheimsins með því að verðlauna einn af þeim spilltu og ónýtu stjórnmálamönnum, sem sökktu Íslandi efnahagslega, með feitu embætti á alþjóðlegum vettvangi.


Sköpunarsinni rekur Richard Dawkins á gat

Kíkið á þetta kostulega myndband þar sem trúleysispostulanum og vísindamanninum Richard Dawkins vefst tunga um tönn þegar einfaldri spurningu er beint til hans.

Spurningin var þessi:

Geturðu nefnt dæmi um stökkbreytingu lífveru eða þróunarferli, sem vitað er um að hafi bætt upplýsingum inn í genamengi viðkomandi lífveru?

Eftir fimmtán sekúndur af augnagotum og heilabrotum gugnar Dawkins og biður kvikmyndatökufólkið um að slökkva á upptökuvélunum.

Síðar í myndbandinu kemur Dawkins með svar að því er virðist við allt annarri spurningu og hann hefur sjálfur sagt að hann hafi þá ekki verið að svara upprunalegu spurningunni.

Miklar deilur eru um það á YouTube hvort myndbandið sé falsað og klippt til að gefa ákveðna niðurstöðu. Ég hef skoðað nokkur myndbönd þar sem því er haldið fram, en ekki séð nein haldbær gögn sem sýna að viðtalið við Dawkins sé á einhvern hátt falsað. Augljóst er að Richard Dawkins á í vandræðum með að svara spurningunni.

Sjálfur hefur hann gefið þá skýringu á fumi sínu að þeir sem spurðu voru sköpunarsinnar, en það er skrýtið ef einn af frægustu vísindamönnum heimsins treystir sér aðeins til að svara spurningum frá þeim sem eru hlutlausir gagnvart kenningum hans eða fylgjandi þeim.

En hér er myndbrotið.

 


 


Ríkisstjórnin felur alltaf nýjustu afglöpin sín í rykinu af síðustu á undan

Eitt má segja þessari ríkisstjórn til hróss, en það er að hún er mjög snjöll í að fela hver og ein afglöp sín í moldviðrinu af einhverjum öðrum stórum málum þar sem hún er einnig með allt niður um sig. Ef hægt er að líta á það að fela misgjörðir sínar sem mannkost.

Þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út á sínum tíma notuðu stjórnvöld tækifærið meðan allir voru á kafi í skýrslunni, að birta skýrslu Seðlabankans þar sem í ljós kom afleit staða heimilanna í landinu. Nýlokið er starfi þingmannanefndarinnar sem kennd er við Atla Gíslason og því verki lauk á snautlegan hátt, þar sem í ljós kom að hrunflokkarnir tveir, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur, slógu skjaldborg um sína hrunvalda.

Þegar þetta er ritað ólgar reiðin í þjóðfélaginu og veggir Alþingishúsið eru klæddir að nýju í sjálfboðaliðavinnu þar sem klæðningin er egg, tómatar, skyr og annar óþverri. Bæði vegna skjaldborgar stjórnmálaflokkanna um eigin spillingu og leikritsins sem sett upp var til að láta líta út fyrir að stjórnvöld vildu eitthvað gera til að leysa skuldavanda heimilanna.

Ekki virðist ríkisstjórnin hafa manndóm til að taka á þeim málum sem skapa þessa miklu ólgu, heldur notar hana sem skálkaskjól til að svíkja enn meiri álögur yfir almenning. Og þetta gerir yfirlýst stjórn litla mannsins. Sveiattan þessu liði.


mbl.is Skriður kominn á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrjum á læknunum

Verið er að mótmæla niðurskurði í heilbrigðismálum út um allt land og er það að vissu leyti skiljanlegt.

En hvernig er það má ekki byrja niðurskurðinn á launum læknanna? Oft eru það læknarnir sem eru að leiða mótmælin gegn niðurskurðinum. Margir eru með 2-3 milljónir í mánaðarlaun, er ekki hægt að taka eitthvað þarna? Fimm milljón kr. launalækkun á ári myndi skila hálfum milljarði fyrir hverja hundrað lækna.


mbl.is Mannleg skjaldborg á Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjulegt að fá öflugan þjálfara vestur

Þegar ég var hjá áhugamannaliði á Ísafirði, sem reyndar tók við af BÍ eitt sumarið vegna fjárhagsörðugleika síðarnefnda félagsins (fyrir sameiningu við Bolungarvík) fékk aðalmaðurinn þar furðulega hugmynd að mínu mati. Hann stakk upp á að við réðum Vöndu Sigurgeirsdóttur sem þjálfara.

Ég spurði hann hvort hann væri með báða fætur á jörðinni og hvað það myndi kosta. Sé núna að þetta var ekki eins fjarlægt og ég hélt. Nú er BÍ/Bolungarvík komið með mikið frægari einstakling sem þjálfara en Vöndu Sigurgeirs. Vonandi gengur fyrrum sveitungum mínum vel í knatttspyrnunni eftir þetta, þó ég velti því fyrir mér hvað þessi ráðning muni kosta.


mbl.is Guðjón: Líst vel á að takast á við krefjandi hluti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggvinalistinn grisjaður

Var að taka til í listanum, tók þá út sem ekki hafa ekki bloggað lengi. Almenna viðmiðunin var ár, þó fóru einhverjir sem hafa verið í aðeins styttra fríi. Hver sá sem er ósáttur við útvísun óski eftir bloggvináttu aftur og verður þá hún eða hann endurreistur á listanum.

Líst betur á alþrif

Gott að þetta gangi vel, en mér skilst að hreinsunarstarfið gangi ekki eins vel innan dyra í þessu húsi. Þar er hver höndin upp á móti annarri, sama sérhagsmunagæslan, mútuþægnin og dekur við fjárglæframenn sem fyrr.

Er ekki kominn tími á Al(þingis)þrif?


mbl.is Þinghúsið þvegið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálafræðingar sem þykjast vera annarskonar fræðingar.

Það hefur lengi tíðkast í þessu þjóðfélagi að stjórnmálafræðingar þykjast vera gildir álitsgjafar á sviðum sem snerta lítið þeirra eigin sérmenntun. Gott dæmi um þetta er Hannes Hólmsteinn Gissurarson, en þegar Sjálfstæðisflokkurinn réði hér öllu tróð hann sér jafnan fram sem sérfræðingur um jafn ólík svið stjórnmálafræðinni og hagfræði, lögfræði og jafnvel umhverfismál.

Mér sýnist Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor og sérfræðingur í Evrópufræðum vera á sömu leið. Hann var í Silfri Egils í gær og ákærur þingmannanefndar Atla Gíslasonar voru til umræðu. Hann þóttist þess umkominn að geta dæmt Landsdóm sem ónýtt tæki.

Erfitt var að átta sig á hvar hann stendur í þessu máli, en mér sýndist hann einna helst vera á þeirri línu eins og nokkrir aðrir, að setja á stofn einhverskonar sannleiksnefnd að suður-afrískri fyrirmynd. Sú nefnd myndi kalla stjórnmála- og embættismenn lengra aftur í tímann en lög um Landsdóm leyfa og beita þá einhverjum sálfræðihernaði til að fá þá til að segja að sér þyki þetta allt voða leitt sem þeir gerðu eða gerðu ekki. Hann nefndi Davíð Oddsson og Finn Ingólfsson í þessu sambandi, nöfn sem oft eru nefnd þegar rætt er um helstu hrunkvöðlana.

Nú ætla ég ekkert að leggja neinn dóm á ákvæði stjórnarskrárinnar um Landsdóm, enda er lögfræðin ekki mitt sérsvið. En þá sem telja hann vera ónýtan vil ég spyrja hvort við höfum nokkurn annan möguleika til að láta réttvísina ná fram að ganga, en þau lög sem eru í gildi? Hvort sem þau eru illa eða vel smíðuð? Eru meintir gallar við lagasetningu virkilega rök til að gera ekki neitt til að láta þá sem grunaðir eru um eitthvað refsivert svara til saka? Spyr sá sem ekki veit.

Síðan hef ég ákveðnar efasemdir um íslensk-suðurafríska sannleiksnefnd. Fyrirgefningin er mikilvæg en undanfari hennar er sönn iðrun. Við skulum athuga að þegar sannleiksnefndin var kölluð til í kjölfar aðskilnaðarstefnunnar höfðu blökkumenn í Suður-Afríku verið kúgaðir í mörg hundruð ár með vopnavaldi og ofbeldi af hvíta bresk-hollenska minnihlutanum. Þeir voru því veikari aðilinn og ekki víst að þeir hefðu haft stuðning til að fara í harðar refsiaðgerðir gagnvart kvölurum sínum.

Auk þess held ég að ef svona nefnd væri sett á laggirnar sem myndi fyrirfram gefa út þá yfirlýsingu að ekki væri ætlunin að gera neitt við þá sem játa á sig glæpi nema klappa þeim á kinnina myndu hinir forhertu spilltu afbrotamenn úr stjórnmála-, embættismannakerfinu og fjármálaheiminum einungis hlæja að slíkum söfnuði. Þeir myndu vita að þeir gætu bara logið einhverju í nefndina og verið þar með lausir allra mála.


Sjálfstæðismenn hafa ekkert lært

Standa vörð um hrunkvöðla sína eins og fyrri daginn. Vilja forða þeim frá réttvísinni. Sé að marka skoðanakannanir um að þriðji hver Íslendingur ætla að kjósa Hrunflokkinn kallar það á stórfellda heilarannsókn á stórum hluta þjóðarinnar.

Verst að það er sennilega ekki hægt því Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt heilbrigðiskerfið í rúst.


mbl.is Harma aðför að Geir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynt að opna eyru ráðamanna og forréttindastétta

Þótt ég hvetji til þess að fólk reyni áfram að opna eyru þeirra sem ráða í þjóðfélaginu held ég að þessi tiltekni eggjakastari hafi lagt of bókstaflegan skilning í þá hvatningu. Er þessi atburður kannski tákn um að þau neyðarhróp sem dunið hafa í eyrum ráðamanna í meira en tvö ár hafa ekki dugað til að þeir leggi við hlustirnar?

Þó vissulega megi færa rök fyrir því að þeir sem hlusta ekki þurfi ekki eyru, þá vara ég við því að grípa til ofbeldis. En það er lengi búið að vara við því að uppskeran yrði óöld af því að taka ekki á málum skatt- og skuldpínds almúgans og skuldhreinsa fjárglæframenn á sama tíma án þess að skerða hár á höfði þeirra.

Vonandi er það ekki að fara að gerast þrátt fyrir atburðina í dag. Eina góða sem getur leitt af þeim er að ráðamenn  vakni, ef það er ekki orðið of seint.


mbl.is Blæddi úr eyra prestsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband