Ræður markatalan?

Ef svo illa fer að Noregur vinni okkar menn í kvöld byrja bæði liðin ásamt Ungverjalandi milliriðilinn með tvö stig. Þá hlýtur upphafsstaða þeirra í riðlinum að ráðast af markatölu (eða hvað?) Við verðum líklega með bestu markatöluna og þar með fyrir ofan Norðmenn og Ungverja.

Við skulum vona að beljan Glæta frá Hrunamannahreppi verði ekki sannspá (glætan!) um að Noregur vinni. Beljur vinna ekki ekki handboltaleiki, nema í örfáum undantekningartilvikum, þ.e. ef sumir leikmennirnir eru mjög klunnalegir og luralegir, eins og beljur. Ekki eru okkar menn þannig.

Ef einhver leikur í þessari keppni má tapast er það einna helst þessi, en vonum að strákarnir vinna þá norsku og við vitum að þeir geta það. Áfram Ísland.


mbl.is Mikið í húfi í Linköping
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austurríki meira áhyggjuefni

Ekki má vanmeta Brassana frekar en önnur lið á mótinu, þeir virðast kunna ýmislegt fyrir sér, en mér sýnist meiri ástæða til að hafa áhyggjur af leiknum gegn Austurríki.

Af þessum leik að dæma eru þeir gríðarlega snöggir og búa yfir mikilli tækni. Hreyfingarnar hjá austurrísku leikmönnunum eru hraðar og virðast úthugsaðar. Leikurinn gegn þeim verður barningur.


mbl.is Hvers má vænta af Brasilíu (myndb.)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðverjar öflugir

Góður sigur hjá þeim, en ég veit að vísu ekki hve sterkir Egyptar eru um þessar mundir. Þeir voru góðir fyrir einhverjum árum síðan og gerðu strákunum okkar skráveifu.

Hvað sem því líður er þetta skegg Heiner Brand umhverfisslys.


mbl.is Fimm marka sigur hjá Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einbeittur brotavilji?

Ég skil ekki ákafa þingmanna ríkisstjórnarinnar við að reyna að svíkja yfir þjóðina enn einn drápsklyfjabaggann vegna upploginnar skuldar Icesave, sem á ekki að greiðast með neinum peningum öðrum en þeim sem hægt er að kreista út úr þrotabúi Landsbankans.

Og það í þriðja sinn eftir að stjórnvöld hafa verið rekin til baka tvívegis með handónýta samninga. Í seinna skiptið var það forsetinn og þjóðin sem sáu um rassskellinguna. Ég fæ ekki betur séð en að um einbeittan brotavilja sé að ræða hjá ríkisstjórninni að svíkja yfir þjóðina skuldabagga sem öll lög, bæði alþjóðleg og innlend, segja að henni ber ekki að taka á sig.

Landsbankinn var einkabanki og samkvæmt kröfurétti ber þeim sem eiga inni ógreidda reikninga hjá einkafyrirtækjum í greiðsluþroti að beina kröfum sínum til þrotabúa umræddra fyrirtækja. Ekki til gömlu konunnar í næsta húsi, þó hún kunni að eiga eitthvað smá sparifé.


mbl.is Segir Icesavevinnu ganga vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissjónvarp með tilboð til ríkissjónvarps?

Ég las grein framkvæmdastjóra 365 í Fréttablaðinu í dag og verð að segja að ég á erfitt með að fallast ekki á rök hans, þrátt fyrir að ég sé mikill handknattleiksunnandi. Hann sagði að eðlilegra væri að þeir sem vildu horfa á íslenska landsliðið keppa á HM borguðu fyrir það sjálfir í stað þess að allir skattgreiðendur, bæði þeir sem engan áhuga hafa og þeir áhugasömu, borguðu fyrir þá sem vilja sjá keppnina. Auk þess fá handknattleikssamböndin, þar á meðal HSÍ, hlutdeild í söluverði sjónvarpsréttarins.

Hinsvegar tel ég að strákarnir okkar muni ekki fá eins mikinn stuðning frá þjóðinni ef keppnin verður aðeins á Stöð 2 Sport. 365 njóta ekki mikilla vinsælda eftir að hafa verið flaggskip Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, eins þekktasta nafnsins úr hópi útrásarvíkinganna sem rændu bankana innan frá og skildu þá stórskulduga eftir á herðum þjóðarinnar. Margir handknattleiksunnendur eru óhressir með að neyðast til að versla við skúrk til að geta horft á HM í handknattleik.

Allir vita að 365 hefur allt til þessa dags verið rekið með bullandi tapi. Sjá t.d. þessa frétt. Leiða má að því rök að með kaupum hins nýja 365 á sjónvarpsréttinum að HM í handknattleik sé félagið að safna meiri skuldum og áskrifendatekjur muni ekki duga fyrir kaupverði sjónvarpsréttarins. Það leiðir til þess að kröfuhafar, þar á meðal hinn nýi Landsbanki í eigu ríkisins, muni fá enn minna upp í kröfur sínar á félagið og skattgreiðendur verði að borga enn meira með bankanum.

Þannig að það, má deila um hvor sjónvarpsstöðin er meira ríkissjónvarp, RÚV eða Stöð 2.


mbl.is RÚV vill kaupa HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnumálastofnun er sjálf að svíkja fé út úr atvinnulausum

Eftir að í ljós kom að atvinnuleysistrygging mín þann 1. apríl á síðasta ári var skert um u.þ.b. 9 þúsund krónur spurðist ég fyrir um ástæðuna. Mér var sagt að þetta væri vegna desemberuppbótar fyrir árið 2009, sem ég fékk greidda í lok þess árs.

Þá fór ég að skoða hvað lög um atvinnuleysistryggingar segja um skerðingu atvinnuleysistryggingar. Um hana er fjallað í 36. grein laganna.

36. gr. Frádráttur vegna tekna.
Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. [4. mgr.]1) skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru.

Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum og séreignarsjóðum, [greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum].1) Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Lokaorð greinarinnar benda sterklega til að einungis skuli skerða atvinnuleysistryggingu vegna tekna er unnið er fyrir eftir að tryggingaþegi varð atvinnulaus. Athugasemdir í frumvarpi að lögunum kveða enn skýrar á um það:

Komi til tekna sem greiddar eru út fyrir ákveðið tímabil, til dæmis greiddar út fyrir allt árið við árslok, skal eingöngu miða við þann tíma er hlutaðeigandi var á atvinnuleysisbótum. Koma þá tekjurnar til frádráttar samkvæmt reglu 1. mgr. sem nemur því hlutfalli sem sá tími er hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur var af heildartímanum sem umræddar tekjur voru ætlaðar fyrir.

Ég benti fulltrúa Vinnumálastofnunar á Skagaströnd á að þar sem desemberuppbót fyrri vinnuveitenda míns var aðeins greidd fyrir vinnu mína áður en ég varð atvinnulaus (augljóslega) væri rangt að skerða trygginguna hjá mér vegna hennar samkvæmt framangreindu.

Fulltrúinn féllst ekki á rök mín. Þá kærði ég þessa ákvörðun Vinnumálastofnunar til Úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga.

Skemmst er frá því að segja að ég vann málið og nefndin skipaði Vinnumálastofnun að draga skerðingu vegna desemberuppbótar til baka, sem hún gerði loks.

Ef Vinnumálastofnun ætlar að berjast gegn bótasvikum má hún alveg byrja á sjálfri sér. Ef þeir 16 þúsund eða svo sem eru atvinnulausir hafa allir fengið skerðingu vegna desemberuppbótar má gera ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé að stela tugum ef ekki hundruðum milljóna frá þeim sem eru atvinnuleysistryggðir á hverju ári. Kannski væri rétt að draga þá fjárhæð frá meintum sparnaði vegna uppgötvaðra tryggingasvika?

Ég hvet alla þá sem eru atvinnulausir og hafa fengið skerðingu vegna desemberuppbótar að kæra ákvörðunina eða krefjast leiðréttingar. Ómögulegt er að vita hve mikið er búið að svindla á atvinnulausum hvað þetta varðar og ekki hef ég fengið neina staðfestingu á að búið sé að leiðrétta þeirra mál með hliðsjón af þessum úrskurði, sem réttast væri þó að gera.


mbl.is Fjöldi sveik út atvinnuleysisbætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjónarmið Hagsmunasamtaka heimilanna útskýrð

Þar sem flestir helstu fjölmiðlar landsins sniðganga sjónarmið Hagsmunasamtaka heimilanna í lánamálum á sama tíma og talsmenn hinnar glæpsamlegu vaxtaokursstefnu þessarar svokölluðu velferðarstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna fá mun greiðari aðgang að fjölmiðlum, hafa samtökin birt samanatekt á sínum helstu sjónarmiðum á heimasíðu sinni og biðja velunnara sína og alla sem óska eftir úrlausnum fyrir skuldum hlaðin heimili landsins að birta umrædda samantekt á bloggsíðum sínum.

Þar sem greinin er í lengra lagi ætla ég að láta tengil á hana duga, en hvet alla til að lesa greinina. Alla sem vilja kynna sér sjónarmið annarra en þeirra sem blása upp meintan kostnað af tillögum HH um sanngjarnar leiðréttingar á lánum sem hækkuðu stjórnlaust eftir hrunið, en horfa (sennilega viljandi) fram hjá þeim kostnaði sem hlýst af fjöldagjaldþrotum og stórfelldum landflótta.

Það hefur nefnilega aldrei þótt gáfuleg búmennska að slátra mjólkurkúnni, sem í þessu tilfelli eru ungar og vel menntaðar barnafjölskyldur sem eiga auðveldast með að taka sig upp og flytja til annarra landa þar sem afkomu þeirra er ekki ógnað. Um leið missir ríkissjóður skatttekjur af launum þeirra og neyslu.

Hvað um það, hér er greinin.

 

Hvatningarpakki heimilanna - sjónarmið Hagsmunasamtaka heimilanna

 


Eru rök álsinna fyrir því að drita niður álbræðslum um landið byggð á sandi?

Jónas Kristjánsson fjallar um græðgi byggðarlaga í álbræðslur í nýjasta örpistli sínum. Hann bendir á að þau sveitarfélög sem hæst hafa gargað um að fá álver eða hafa fengið, eru á hausnum og að ógæfa í fjármálum virðist fylgja álbræðslugræðginni. Ekki er hægt að minnast ógrátandi á Keflavík og Hafnarfjarðarbær er skuldum vafinn.

Álmengunarsinnar hafa jafnan hátt um að mikil atvinna og umsvif í efnahagslífinu fylgi álbræðslum. Hinsvegar ef hugsað er út í hvaða kjör þær álbræðslur sem hér hafa verið grátnar í gegn hafa fengið, þarf enginn að vera hissa þó álsveitarfélögin séu illa stöddd.

Allskyns aumingjastyrkir hafa verið veittir álrisunum fyrir að koma hingað á hjara veraldar og veita nokkrum hræðum atvinnu af mikilli miskunn sinni. Þeir hafa fengið hverja skattaundanþáguna á fætur annarri og orkuverð sem er aðeins helmingur af því sem þeim býðst í þriðja heims ríkjum eins og Brasilíu.

Það þarf því enginn að undrast þó það drjúpi ekki smjör af hverju álstrái og allur áróður þar um eru tómar blekkingar.


Viðtal við yfirmann rannsóknarfyrirtækisins Kroll

Þrátt fyrir að viðmælandinn væri frekar varkár í yfirlýsingum til að stofna ekki rannsókn á sakargiftunum gegn sjömenningunum í Glitnismálinu í hættu, var viðtal Svavars Halldórssonar við yfirmann Evrópudeildar rannsóknarfyrirtækisins Kroll nokkuð upplýsandi.

Af orðum hans mátti skilja að hagsmunaaðilar í málinu treysti ekki íslenskum dómsyfirvöldum. Yfirmaður Kroll mælti undir rós með því að segja að aðilar málsins teldu líkur á endurheimtum mestar með því að stefna Glitni í Lundunúm og New York. Þó eflaust megi segja að eðli alþjóðlegra fjármagnshreyfinga hafi eitthvað að segja hvað þetta varðar.

Engu að síður er ljóst að íslenskum stofnunum í fjármála- og dómskerfinu hér á Íslandi er ekki treyst fyrir utan landsteinana. Reyndar ekki innan þeirra heldur, ef út í þá sálma er farið.

Enginn getur verið hissa á því, sem hefur horft upp á sleikjuskap Hæstaréttar og héraðsdómstóla við fjármálastofnanir og ríkið sem ber aðeins hagsmuni bankanna en ekki fólksins fyrir brjósti, þrátt fyrir gróf lögbrot og siðlausa viðskiptahætti bankanna í lánveitingum gengistryggðra lána.

Enginn getur heldur verið undrandi á vantrausti í garð fjármálaeftirlitsstofnana, eftir að hafa verið vitni að sofandahætti og meðvirkni Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans gagnvart bönkunum á sama tíma og forvígismenn þeirra rændu þá innan frá þar til þeir komust í þrot og tóku Seðlabankann með sér í fallinu.

Viðmælandinn var einnig fullviss um að ásakanir og niðurstöður Kroll í málinu gegn forsvarsmönnum Glitnis væru byggðar á sterkum gögnum. Það rennir enn betri stoðum undir þann grun margra að Jón Ásgeir Jóhannesson, Pálmi Haralsson kenndur við Fons og ýmsir fleiri áberandi aðilar í fjármálaheiminum fyrir hrun, eigi hvergi annars staðar að eiga lögheimili en á Litla-Hrauni eða Kvíabryggju.


Skemmtilegur leikmaður

Þrátt fyrir að Ítalir séu þekktir fyrir að spila leiðinlega knattspyrnu sem byggir á skyndisóknum og leggjast í vörn eftir að hafa komist yfir, hefur Roberto Baggio alltaf heillað mig sem knattspyrnumaður. Hann réði yfir mikilli tækni, hraða og útsjónarsemi.

Bestur var hann á HM 1994, er Ítalía komst, að margra mati óverðskuldað þó, í úrslitaleikinn gegn Brasilíu. Átti leiðinlegan endi á mótinu er hann misnotaði vítaspyrnu gegn Brasilíu í vítaspyrnukeppninni sem varð til að Brasilía vann titilinn. Finnst eins og sól hans hafi aldrei náð að skína jafn skært eftir það. Baggio er þó talinn á meðal bestu knattspyrnumanna sögunnar samkvæmt Wikipedia.

Roberto Baggio var í ítalska landsliðinu á HM 1998, en spilaði ekki alla leikina. Dino Zoff sniðgekk hann á EM 2000 og Trappatoni kaus að velja Baggio ekki í hópinn fyrir HM 2002. Fyrir það uppskar hann (Trappatoni) mikla gagnrýni. Ítalía datt út í 16 liða úrslitum, sem þykir ekki góður árangur á þeim bænum. Skyldi fjarvera Baggios hafa haft eitthvað að segja um það?

 


mbl.is Baggio fær friðarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband