Færeyskur stjórnmálamaður sýnir fáséðan manndóm

Ég er alltaf þakklátur þegar það kemur í ljós að enn er til fólk sem er óhrætt við að sýna hugrekki og óttaleysi við að standa við skoðanir sínar á tímum þegar stjórnmálamenn og aðrir sem eru áberandi í sviðsljósinu láta stjórnast af lýðskrumi.

Biblían, bæði Gamla og Nýja testamentið, eru alveg skýr með það að hjónaband skuli einungis vera á milli karls og konu. Jenis av Rana er aðeins að sýna það í verki hvað felst í því að vera kristinn einstaklingur. Það felst ekki aðeins í nafni á blaði eða merkingu í þjóðskrá, heldur því að fylgja kenningum Krists. Líka þegar það er óvinsælt.

En þetta mál sýnir að það kemur sér illa að hafa samkynhneigðan forsætisráðherra í þau fáu skipti sem það þarf að eiga opinber samskipti við stjórnmálamenn með bein í nefinu.

Hafðu þökk fyrir Jenis av Rana.

Að gefnu tilefni skal tekið fram að öllum athugasemdum sem fela í sér persónuníð gegn mér, Jenis eða hverjum sem er og lyga- eða hatursáróður gegn kristni, Guði eða Biblíunni, verður miskunnarlaust hent út og lokað á IP-tölu viðkomandi til frambúðar á þessari síðu. Sé um að ræða skráðan notanda á blog.is verður sá eða sú hin sama sem gerist sek/ur um slíkt bannaður eða bönnuð, sömuleiðis til frambúðar.


mbl.is Neitar að sitja veislu með Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ELO - mjög vanmetin hljómsveit

Ljóst er að langlífi verður ekki hlutskipti allra meðlima þessarar vanmetnu hljómsveitar. Bassaleikari ELO lést af völdum hjartaáfalls snemma á síðasta ári. Hann var aðeins 63 ára, rúmlega ári eldri en Mike Edwards var þegar hann lenti í slysinu á föstudaginn.

Electric Light Orchestra hafði mjög sérstakan stíl sem vann þeim heimsfrægð á áttunda áratugnum og í upphafi þess níunda. Plata þeirra Discovery frá árinu 1979 er að mínu mati ein af betri plötum sem ég hef heyrt. Time sem kom út árið 1981 er ekki mikið síðri. Eftir þetta fór tónlist þeirra að hraka, Secret Messages (1983) er ágætis plata en í Balance of Power (1986) eru þeir töluvert frá sínu besta.

Þess má geta að á árinu 2008 útnefndi The Washington Times Jeff Lynne forsprakka ELO sem fjórða mesta plötuframleiðanda allra tíma. Aðeins George Martin (fyrir Bítlana), Quincy Jones, þekktastur sem maðurinn á bak við söluhæstu plötu allra tíma, Michael Jackson plötuna Thriller og Phil Spector eru fyrir framan hann.


mbl.is Sellóleikari ELO lést er hann varð fyrir heyrúllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðdráttarafl sem rannsakar sig sjálft

Margir trúleysingjar, þar á meðal nokkrir sem hafa verið áberandi á blogginu, fögnuðu mikið þegar eitt af þeirra æðstu goðum, vísindamaðurinn Stephen Hawking, lýsti því yfir að engin þörf væri á Guði til að skýra út tilvist alheimsins. Hann hefði bara skapað sig sjálfur með þyngdaraflinu. Nú geti Guð bara farið í frí á Bahamaeyjum.

Það sem mér finnst merkilegast er að verur sem urðu til af aðdráttaraflinu einu saman geti rannsakað sjálfar sig, aðdráttaraflið sem á að hafa skapað þær og búið til farartæki til að ferðast um geiminn.

Vel að verki staðið hjá þyngdaraflinu. Það er ekki eins vitlaust og það lítur út fyrir að vera. Getur greinilega gert margt annað en að fótbrjóta fallhlífarstökkvara og gamlar konur að labba í hálku.


Kattarþvottur lögregluforingjans heldur áfram

Mætti halda að hann væri í VG. Björgvin kemst ekkert framhjá því sem hann sagði. Ef yfirmaður kynferðisbrotarannsókna sem eru einhver viðkvæmasti og erfiðasti málaflokkur sem upp getur komið í mannlegum samskiptum, getur ekki komið sínum skoðunum á framfæri skýrara en þetta á hann ekkert að vera í embætti þar sem orð þess sem því gegnir hafa gríðarlegt vægi.
mbl.is „Brotaþoli getur aldrei borið ábyrgð á ofbeldisverknaði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smánarblettur á þjóðkirkjunni sem boðbera ljóss sannleikans og kærleikans

Kynferðisbrot eru alvarlegir glæpir og sérstaklega þegar börn og unglingar verða fyrir þeim. Enn verra er þegar slík óhæfa er framin af þeim sem hafa valist sem leiðtogar og sálgæsluaðilar. Fólk hefur fram til þessa að öllu jöfnu treyst prestum þar sem hlutverk þeirra er að veita leiðsögn og huggun og er síður á varðbergi gegn þeim. Það kann að breytast töluvert til hins verra í ljósi þeirra mála sem hafa verið að koma upp á yfirborðið er snerta kynferðislega misnotkun presta á konum unglingsstúlkum og jafnvel börnum.

Sumir vilja kenna kristinni trúariðkun um það að þeir sem starfa innan kirkjunnar fremji kynferðisafbrot. Þær fullyrðingar standast ekki þar sem þá myndu kynferðisbrotamenn ekki finnast annars staðar en í kristilegu starfi. Staðreyndin er að þeir koma úr öllum stéttum og stöðum.

Þvert á móti bendir há tíðni kynferðislegra brota innan kirkjunnar til þess að hinir brotlegu séu ekki að fara eftir boðskapnum sem þeir eiga að boða. Það er síðan mjög alvarlegur hlutur, því hvernig ætla þeir sem boða kristilega breytni að fá fólk til fylgis við boðskapinn ef þeir virða hann sjálfir að vettugi?

Ef hin lúterska kirkja ætlar ekki að hreinsa til innan sinna raða og gera þessi mál upp er það áfall fyrir kristna trú í landinu, sem á nógu mikið í vök að verjast án þess að svona alvarleg brot bætist við. Tilraunir biskupsins til að moka yfir óþverrann með hástemmdum tilvísunum í dóm Guðs á efsta degi eru ósmekklegar og óásættanlegar.

Æðsti maður stærsta kristna safnaðar landsins á að vita að þó dómsdags sé að vænta fyrir alla menn merkir það ekki að aldrei skuli dæma um mál sem koma upp í daglegu lífi fólks eða taka á brotum. Líklega veit hann þetta en segir annað til að hylma yfir hinum seku. Það lítur út fyrir að biskupinn meti völd og forréttindi fámennrar prestastéttar meira en velferð hinna lægra settu skjólstæðinga kirkjunnar.


mbl.is Kynferðisbrot þögguð niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfablús í E-dúr

Hef ákveðið að tjá mig í bundnu máli í þetta sinn um Gylfamálið. Hnoðaði saman þessum texta við gamla Dr. Hook-lagið Sylvia's mother.

Þeir sem gutla á gítar geta séð gripin með því að smella hér. Ósköp einfalt aðeins þrír hljómar, A, D og E. Ótal myndbönd með laginu er að finna á YouTube.

 

Gylfi hinn margsaga

 

Gylfi hinn margsaga segir
Seðlabankans – aldrei ég sá minnisblað.
Gylfi hinn margsaga segir
í svari á þingi – um erlend lán: ekkert er að.
Gylfi hinn margsaga segir
samt eru dómsvöld – sem dæma að lokum um það.

Viðlag

Og Seðlabankinn segir samdrætti‘ er spáð,
svona næstu þrjú árin,
Gerðu það Mási minn, lækkaðu vexti
lánin þau ætla mig að
lifandi drepa og útlitið ei gott,
gerðu það........


Gylfi hinn margsaga segir
í sjónvarpinu – að engu var leynt fyrir sér
Gylfi hinn margsaga segir
samt laug ég ekki – og mun ekki segja af mér
Gylfi hinn margsaga segir
svo er ég farinn – á Hornstrandir för heitið er.

Viðlag

Og Seðlabankinn segir samdrætti‘ er spáð,
svona næstu þrjú árin,
Gerðu það Mási minn, lækkaðu vexti
lánin þau ætla mig að
lifandi drepa og útlitið ei gott,
gerðu það........

Gylfi hinn margsaga segir
sárt þykir mér það – að menn skuli misskilja frekt.
Gylfi hinn margsaga segir
samt hef ég engan – afvegaleitt eða hrekkt
Gylfi hinn margsaga segir
saklaus er ég af – því að hafa þjóðina blekkt.

Viðlag

Og Seðlabankinn segir samdrætti‘ er spáð,
svona næstu þrjú árin,
Gerðu það Mási minn, lækkaðu vexti
lánin þau ætla mig að
lifandi drepa og útlitið ei gott,
gerðu það........

mbl.is Gylfi á fund Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn eru látin þjást af þorsta til að skepnur fái að drekka

Ég hef lengi haft á tilfinningunni að þeir sem ráða á þessu landi séu skepnur, en átti aldrei von á því að raunverulegar skepnur (ekki aðeins hvað hjartalagið varðar) stjórni og hafi forgang framyfir íbúana. Það er einmitt að gerast í Akurholti, rétt fyrir utan nýju byggðina í Úlfarsfelli.

Samkvæmt þessari frétt er vatnsskortur að Akurholti og gruggugt vatn kemur úr krönum. Ástæðan? Ríka liðið gleypir til sín allt vatnið úr sameiginlegum brunni fyrir hrossarækt! Borgin hefur leigt landið fyrir neðan til hrossaeigenda og skepnurnar (þær ferfættu) drekka svo mikið að lítið verður eftir handa fjölskyldunni að Akurholti, sem inniheldur þrjú börn.

Þetta er svo ósvífið að maður á ekki til orð, nema þessa tilvísun í skepnur hér fyrst. Alveg er ég viss um að ferfætlingarnir sem drekka vatnið hafa ekki síðra og sennilega betra hjartalag en mennirnir sem standa á bak við þessa brenglun og spurning hvora tegundina skuli kalla skepnur.

Ég hef um alllangt skeið verið þeirrar skoðunar að hrossarækt í landinu væri komin út í hreina vitleysu. Hestamennska er forréttindi þeirra ríku, en verst er að spilltir stjórnmálamenn hafa ausið fjármunum skattborgaranna í monthallir fyrir greinina og alls kyns styrki. Þetta verður að stöðva.

Það var hrikalegt að horfa upp á það á Suðurlandinu í fyrrasumar í þurrkunum að hrossaræktendur létu krana og slöngur renna á fullu til að brynna hestunum. Sveitarstjórinn á Hellu hafði manndóm til að mótmæla þessu, en ég veit ekki hvort gripið var til aðgerða. Nú er vandamálið líka til staðar á höfuðborgarsvæðinu.


Ný rammíslensk stétt endurvakin?

Í kjölfar ESB-umræðunnar allrar og óttans við að Ísland verði innlimað í þetta stóra ríkjasamband hafa margir beint augum sínum að því að efla það sem kalla má séríslenska menningu. Ekki veit ég hvort það er liður í því að einhverjir ógæfumenn á Vesturlandi skuli hafa tekið upp á að næla sér í einstaka lamb úti í haga þarna vestur frá. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum á Stöð 2 í gær.

Sauðaþjófar voru allmargir hér fyrr á öldum þegar fátækt var almenn og alþýðan svalt heilu og hálfu hungri. Kannski ekki skrýtið að einhverjir hafi gripið til þess óyndisúrræðis að taka ófrjálsri hendi lömb stórbænda sér til matar. Eiginkona eins föðurbróður míns átti það til að segja að maður sinn væri kominn af sauðaþjófum þegar ættfræði barst í tal þeirra á meðal. Ekki var frændi sérlega ánægður með það.

Eins er ég viss um að hvorki bændur né lögreglan á Vesturlandi eru mjög hrifin af því að farið verði að endurvekja þann þjóðlega sið sauðaþjófnaðinn.


Hvað er ættjörð?

Umræður standa nú yfir á bloggi Páls Blöndals um íslenska þjóðerniskennd og á hvaða stig hún er komin, t.d. hjá yfirlýstum ESB-andstæðingum. Þar kom einn með eftirfarandi fullyrðingu sem ég hnaut um og varð tilefni þessarar greinar.

Staðreyndin er sú að ættjörð þín er fjölskylda þín Stefán, þó þú og margir aðrir líti kannski ekki svoleiðis á þá landa sína. Auðvitað stendur þú með fjölskyldu þinni, þeim sem standa þér næstir. En ef allir hugsa aðeins um sig og þá sem standa sér næstir. Hvað verður þá um samheildina?

Síðan segir höfundur ofangreinds efnislega að Íslendingar verði að standa saman. En er rétt að segja að ættjörð Íslendingsins sé fjölskylda hans? Merkir það að tryggð Íslendingsins við ættjörðina eigi að ganga framar tryggð við nánustu fjölskyldu hans?

Mikilvægasta spurningin er e.t.v. hvað er ættjörð? Enska orðið homeland, sem almennt er þýtt sem ættjörð, er skilgreint svona á vef Wikipedia, lauslega þýtt:

Hugtakið ættjörð merkir þann landfræðilega eða menningarlega stað þar sem ákveðin þjóð eða þjóðflokkur á sér langa sögu og tengist djúpum menningarlegum rótum.

Samkvæmt þessari skilgreiningu er ættjörðin ekki endilega landið sjálft, enda erfitt að sjá hvaða vit er í því að halda meiri tryggð við grjóthnullunga og moldarköggla en við sitt nánasta fólk. Ættjörð einhvers getur líka merkt tengsl hans við aðra landa sína, þar sem menning er fyrst og fremst fólgin í samskiptum manna á meðal.

Það kann að vera að hugtök eins og ættjörð og menning hafi hálfpartinn týnst í hinu hraða nútímaþjóðfélagi. Jafnvel innan nánustu fjölskyldna hefur fólk stundum lítil samskipti innbyrðis. Báðir foreldrar vinna úti og hafa ekki orku í annað en að setjast upp í sófa er heim er komið á kvöldin og horfa á sjónvarpið. Unglingarnir eru oft uppteknari af vinunum en fjölskyldu sinni og fjarskyldari ættingjar hittast ekki nema í fermingarveislum og jarðarförum nokkrum sinnum á ári.

Þetta er að sjálfsögðu neikvæð þróun og full ástæða til að hér verði á breyting. Í kjölfar efnahagshrunsins fyrir tæpum tveimur árum er samt staðan sú að þúsundir á þúsundir ofan eiga varla til hnífs og skeiðar vegna þess að bankakerfið hrundi yfir þá af völdum spillingar og sjálftöku tiltölulega fámennrar forréttindastéttar.

Þegar svona bráðavandi blasir við hefur stór hluti fórnarlamba efnahagskreppunnar staðið frammi fyrir tveimur kostum: að eiga í basli til æviloka og geta ekki boðið börnum sínum upp á mannsæmandi framtíð, eða flytja til lands þar sem vinna á tvöfalt til þrefalt betri launum býðst og viðunandi kjör að öðru leyti.

Fólk getur ekki borðað Gísla sögu Súrssonar sér til viðurværis. Hjá sumum hefur það borgað sig að láta keyra sig í gjaldþrot en aðrir séð sér fært að semja um að lengja í lánum skuldbreyta, eða hvort tveggja.

Þá er það spurningin hvort það sé eitthvað merki um lélega ættjarðarást að huga að hagsmunum sinna nánustu. Er það meiri ættjarðarást að kasta þeim fyrir róða vegna einhverra annarra óskilgreindra og óljósra hagsmuna ímyndaðrar þjóðarheildar? Fyrir utan að ég get ekki séð að núverandi ráðamenn séu mikið að hugsa um heildarhagsmuni. Viðbrögð kerfisins í kjölfar Hæstaréttardóma um gengistryggð lán sýna ótvírætt að sjálftökuliðið og forréttindabraskliðið ræður enn förinni.

Loks má bæta því við að aldrei hefur verið auðveldara að rækta ættjarðartengslin hvar sem fólk er statt í heiminum en á okkar tímum. Tæknin gerir okkur kleift að vera í sambandi í gegnum netið eða símann og samgöngur eru algengar og auðveldar á milli heimshorna. Að auki eru Íslendingafélög starfandi í nánast öllum bæjum og borgum erlendis þar sem brottfluttir landar okkar hafa komið sér fyrir og menningarlegt starf þeirra er oft á tíðum mjög öflugt.

Það er því hæpið að fullyrða að þeir sem flytja úr landi séu almennt eitthvað andþjóðlegri en annað fólk. Við þurfum að koma umræðunum af sandkassastiginu.


Einelti á bloggsíðum

Deila Kristins Theódórssonar og Guðbergs Ísleifssonar (Grefilsins) heldur áfram nú þegar sá síðarnefndi hefur fengið að nota blogg sanns félaga í nauðum eftir að hafa orðið fyrir því að blogginu hans sjálfs var lokað. Þegar þetta er ritað eru fimm heitustu umræðubloggin um þetta leiðindamál. Báðir hafa eitthvað til síns máls. Deilan hófst í kjölfar umræðna um hvort trúleysi væri trú á bloggi Kristins. Umræðurnar áttu að vera á milli hans og Grefilsins og skyldu lúta ákveðnum reglum.

Umræðan byrjaði vel en fljótt fór að gæta óþolinmæði hjá báðum aðilum. Kristni fannst Grefillinn draga umræðuna á langinn og vera lengi að koma sér að efninu og Grefillinn taldi Kristin vera að brjóta reglurnar um umræðurnar sem þeir komu sér saman um í upphafi. Í stuttu máli lauk umræðunum með leiðinda skætingi og í kjölfarið skrifaði Grefillinn pistil þar sem hann réðist að Kristni með ljótum orðum sem ekki verða höfð eftir hér. Deilan hefur síðan haldið áfram á hinum ýmsu bloggum (sennilega hér líka seinna meir, vona þó ekki!)


En mig langar fyrst og fremst að fjalla almennt um einelti á blogginu, hvort það tíðkast í hve miklum mæli og til hvaða ráða er hægt grípa til að vinna bug á því. Bæði Kristinn og Grefillinn telja sig hafa orðið fyrir einelti hvor af hendi hins. Er ekki frá því að báðir hafi þeir rétt fyrir sér.

 

Hvað er einelti eða bloggelti?
 


Það getur birst í mörgum myndum og þarf ekki endilega að felast í ljótum óbirtingarhæfum orðum eða uppnefnum. Einelti getur allt eins falist í því að margir taki sig saman og hæðist að ákveðnum notanda á bloggsíðum eða hópi manna. Orðin þurfa ekki endilega að vera ljót, svo dæmi sé tekið er hægt að níða aðra niður með oflofi, en oft er sagt að oflof sé háð. Einnig geta þeir sem beita einelti vitað af einhverri sérstöðu eða afstöðu sem fórnarlambið hefur og nýtt sér það til að gera lítið úr viðmælanda sínum, þrátt fyrir að þeir sem hafa ekki þessa sömu sérstöðu eða afstöðu myndu ekki taka slíku illa.


Síðan má spyrja hvenær er réttlætanlegt að kalla einelti því nafni. Er hægt að setja einhverja ákveðna staðla til að meta það eða er það undir hinu meinta fórnarlambi komið hvort um sé að ræða einelti? Ef ákveðinn einstaklingur telur sig hafa orðið fyrir einelti er hægt að fullyrða að hann HAFI orðið fyrir einelti? Sársaukaþröskuldur eða viðkvæmni er mjög einstaklingsbundið fyrirbæri. Það sem einn getur tekið sem góðlátlegu gríni upplifir annar sem grófa móðgun og aðför að sinni persónu.

 

Umfang eineltis og úrræði

 

Því miður sýnir þessi umtalaða deila sem er nú í gangi að einelti þrífst á netinu. Önnur dæmi hef ég orðið var við sem ég ætla ekki að nefna og er viss um að aðrir notendur bloggsíðna þekki enn fleiri tilfelli eineltis. Hvað er til ráða? Er ekki ágætt að hafa hina einföldu reglu skáldsins í huga, hvort sem um er að ræða samskipti á vefsíðum eða augliti til auglitis?


Aðgát skal höfð í nærveru sálar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband