Færsluflokkur: Bloggar

Mitt álit á skaupinu

 
 

Nýjasta tröllið á blogginu?

Það er ekki annað að sjá en að Kristinn H Gunnarsson sé farinn að blogga. En kíkið á þessa athugasemd og þessa hér.

Sleggjan hefur lengi verið óútreiknanleg, en hann leggst ekki svona lágt. Hér er einhver galgopi á ferð að reyna að sýna fram á að það er ekki alltaf að marka full nöfn.

Er ég sá sem ég segist vera? Ég verð að láta aðra dæma um það.


Verða Íslendingar annars flokks þegnar í eigin landi?

Sú hugsun læddist að mér skömmu eftir hrunið og nú virðist það ætla að verða raunin. Vegna verðfalls krónunnar og efnahagshrunsins geta útlendingar komið hingað og keypt það sem þá lystir, en laun venjulegs vinnandi fólks duga ekki einu sinni fyrir nauðþurftum.

Draumaríki nýfrjálshyggjunnar, til hamingju Ísland.


mbl.is Ísland á hálfvirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlegið að Íslandi á fyrirlestri í Danmörku

Egill Helgason birtir á bloggi sínu frásögn ungs hagfræðinema í Danmörku. Hann var staddur á fyrirlestri í Kaupmannahafnarháskóla. Fyrrverandi aðalhagfræðingur Danske Bank var að halda erindi. Hann sagði:

"Formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson, er fyrrverandi forsætisráðherra. Ímyndið ykkur ef Gordon Brown eða Anders Fogh yrðu ráðnir í stöðu seðlabankastjóra þegar þeir hættu í stjórnmálum!"

Allir í salnum veltust um af hlátri.

Síðan spurði hann:

"Vitið þið um samsvarandi dæmi í hinum vestræna heimi?"

...

Talið var að ekki væri hægt að finna svipað dæmi í neinu vestrænu ríki, heldur þyrfti að leita alla leið til Afríku, til einræðisríkisins Simbabve, þar sem Gideon Gono er seðlabankastjóri, til að finna seðlabankastjóra með jafnmikil stjórnmálaleg tengsl og á Íslandi."

Þetta segir allt sem segja þarf um þá rótgrónu spillingu sem ríkir hér á landi, þar sem stjórnmál, bankakerfið og viðskiptalífið er í einum hrærigraut.

Það er hlegið að Íslandi.

Slagorð Sjálfstæðisflokksins ætti að vera á þessa leið, ef þeir vildu vera sannleikanum samkvæmir:

Þegar öllu(m) er á botninn hvolft er traust spilling það sem skiptir máli,

x-D

 


Frábært framtak. Hárbeitt grín.

Ágætt að minna forráðamenn ríkisstjórnarinnar og bankanna, sem eru jú ríkisbankar, að stjórnarskráin og stjórnsýslulögin eru enn í gildi. Ekki veit ég til að ríkisstjórnin hafi keyrt afnám á þeim í gegnum stimpilstofnunina Alþingi, eins og svo mörg önnur ólög.

Þegar skuldir nokkurra útvalinna braskara eru felldar niður í milljarðatugavís, á sama tíma og bifreiðar og heimili eru miskunnarlaust hirt af öðru fólki, er verið að brjóta gróflega jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaganna.

Ef lögfræðingastóðið á Alþingi er farið að ryðga svona í lögunum er best að hjálpa þeim aðeins við að rifja upp þessi lög:

65. gr. stjórnarskrárinnar:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

11. gr. stjórnsýslulaga (jafnræðisreglan:)


Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.


mbl.is Tætir sundur skuldir heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki rétta leiðin

Það er ekki rétta leiðin til að mótmæla fjársvikum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og annarra hans líka að taka lögin í sínar eigin hendur og ráðast á þá. Þeir sem það gera eru að sökkva niður á sama plan og útrásarliðið.

Ef hinsvegar stjórnvöld fara ekki að hysja upp um sig brækurnar og koma fjársvikurunum í hendur réttvísinnar er hætt við að lögregla götunnar taki völdin.


mbl.is Veist að Jóni Ásgeiri í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þökk til þessara hugulsömu Dana

Það er fallega gert hjá þessum dönsku háskólanemum að hjálpa frændum sínum frá Íslandi. Ég vil hér með koma á framfæri bestu þökkum til þeirra fyrir þessa aðstoð. Um leið hvet ég alla sem eiga þess kost að fara á tónleikana hjá dönsku listamönnunum. Þeir eru þjóð sinni til mikils sóma.

Fréttir bárust af því í upphafi kreppunnar að Íslendingar væru ofsóttir í Danmörku, hent út úr búðum og bankar neituðu að eiga viðskipti við þá. Síðan var einhver leiðindagaur að standa fyrir söfnun fyrir utan danska verslun, augljóslega í þeim tilgangi að niðurlægja Ísland.

Það er því mikið fagnaðarefni að upp skuli rísa hópur í Danmörku sem vill koma frændþjóð sinni til hjálpar.

Íslenskir ráðamenn og viðskiptajöfrar hefðu ekki átt að skella skollaeyrum við aðvörunum danskra banka- og blaðamanna og afgreiða þær sem öfund og illgirni.

Vel kann að vera að öfund hafi ráðið að einhverju leyti í gagnrýni danskra bankamanna, enda voru íslensku útrásarmennirnir í samkeppni við dansk aðila í viðskiptalífinu.

Það er samt einu sinni þannig að óvinur þinn þekkir þig stundum betur en þú sjálfur og því rétt að hlusta á gagnrýni með opnum eyrum, sama frá hverjum hún kemur.

Efnahagskreppan er alheimsvandamál og þjóðir Evrópu og alls heimsins þurfa að standa saman til að komast út úr henni.

Við verðum að reyna að setja allar fyrri deilur á bak við okkur og sameinast, sérstaklega Norðurlandaþjóðirnar sem eiga sameiginlegan menningararf og eru samanlagt mjög lítil stærð miðað við stærri þjóðir og bandalög.


mbl.is Danskir íslenskum til bjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik við gerða kjarasamninga

Þetta loforð sem ríkisstjórnin gaf var forsenda þess að verkalýðsfélögin sættu sig við smánarhækkanir á launum sínum sem eru löngu uppétnar á verðbólgubálinu og gott betur.

Nú ætlar ríkisóstjórnin að ganga á bak orða sinna ofan á allar þær álögur sem hún hefur lagt á almenning í landinu.

Burt með þessa svikahrappa úr ríkisstjórn eins og skot!


mbl.is Fallið frá fjölgun leiguíbúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sindbað sæfari á Íslandi?

Í einni af sögunum af Sindbað sæfara, sem er að finna í hinum arabísku ævintýrasögum Þúsund og einni nótt, skolar Sindbað á land á eyju einni. Hann hittir þar fyrir öldung nokkurn sem hann sér aumur á og ber yfir lækinn til að hann geti náð sér í ávexti af trjánum. Öldungurinn launar Sindbað góðverkið vægast sagt með illu:

En er ég kom lengra á land upp, sá ég gamlan karl, sem mér virtist vera næsta ellihrumur, og sat hann á lækjarbakka. Kom mér þá ekki annað til hugar en hann mundi vera skipbrotsmaður eins og ég; gekk ég því til hans og heilsaði honum, en hann bandaði að eins höfðinu og svaraði engu.

Spurði ég hvað hann væri að gera þar, en í stað þess að svara mér, gerði hann mér skiljanlegt með bendingum, að ég skyldi taka hann á herðar mér og bera hann yfir lækinn, svo hann gæti lesið sér þar aldin. Ég trúði því þá, að hann í raun og veru væri kominn upp á hjálp mína, tók hann upp á bak mér, og bar hann yfir lækinn.

  „Farðu nú ofan af mér,“ sagði ég við hann og laut ofan að jörð, svo að honum yrði hægara fyrir. Á það, sem nú gerðist, get ég aldrei óhlæjandi minnzt. Karlinn, sem mér hafði sýnzt vera svo örvasa og hrörlegur, krækti báðum fótum um háls mér með mesta liðugleik, og settist á herðar mér eins og á hest; var skinnið á fótum hans eins og nautshúð. Kreppti hann svo fast að kverkum mínum, að ég hélt hann ætlaði að kyrkja mig; fékk ég þá öngvit af hræðslu og féll til jarðar....

Þrátt fyrir öngvitið sat hinn hvimleiði karl grafkyrr á hálsi mér, en linaði þó takið ofurlítið, til þess ég skyldi rakna við. En er ég var kominn til sjálfs mín, brá hann öðrum fætinum fyrir kvið mér, en sparkaði hinum í síðu mér, svo ég varð að standa upp. Síðan lét hann mig bera sig inn á milli trjánna og neyddi mig öðru hverju til að staldra við, svo að hann gæti lesið ávexti og étið þá.

Hann sleppti mér ekki allan daginn, en er nótt var komin, og ég ætlaði að hvíla mig, lagðist hann niður á jörðina með fæturna krækta um háls mér.

Á hverjum morgni sparkaði hann í mig, og vakti mig þannig; því næst kreppti hann fæturna svo fast að mér, að ég varð að standa upp. Megið þér nærri geta, hvort ég ekki hef átt bágt, að verða að dragast með þessa byrði, sem mér var lífsómögulegt að losast við.

Einn dag fann ég á leið minni margar þurrar hnetur, sem fallnar voru ofan úr tré einu, er bar þann ávöxt. Tók ég eina, sem var furðu stór, holaði hana innan, og kreisti í hana safa úr mörgum vínberjum, því af þeim óx ógrynni þar í eynni, hvar sem fæti var stigið.

Þegar hnotin var full, lagði ég hana á vísan stað, og stillti svo til, að karlinn skyldi fara með mig þangað nokkrum dögum síðar. Tók ég þá hnotina og drakk hinn ágæta drykk; svæfði hann um stund þá dauðans hryggð, sem ég kvaldist af. Mér þótti afl færast um limu mína, og varð svo kátur, að ég hoppaði í loft upp syngjandi.

Þegar karlinn sá, að drykkurinn hafði þessi áhrif og fann að mér varð venju fremur létt fyrir að bera hann, benti hann mér, að ég skyldi lofa honum að súpa á. Rétti ég honum þá hnotina, og með því honum þótti drykkurinn góður, slokaði hann allt í sig og kúgaði hnotina til hins síðasta dropa.

Þurfti hann ekki meira til að verða svinkaður og sveif skjótt á hann; tók hann þá að syngja, sem honum lá rómur til, og reri í ýmsar áttir á herðum mér. En af róli þessu varð honum svo óglatt, að hann ældi upp því, er hann hafði drukkið; fann ég þá að fætur hans linuðust og losnuðu smámsaman um háls mér, og þegar ég fann, að hann hætti að kreppa að mér, fleygði ég honum til jarðar, og lá hann þar hreyfingarlaus; þreif ég þá upp stóreflis stein og mölvaði með honum hvert bein í hausi hans.

Ég var nú guðsfeginn að vera orðinn laus við þenna karlskratta og gekk fagnandi til strandar; hitti ég þar nokkra sjómenn, sem nýlega voru lentir til að sækja vatn og matföng.

Urðu þeir hlessa, þegar þeir sáu mig og heyrðu sögu mína. „Þú hefur rekizt í greipar sjávar-öldungsins“ sögðu þeir, „og ert þú sá fyrsti, sem hann hefur ekki kyrkt. Hann sleppti aldrei þeim, sem hann einu sinni hafði fest hendur á, fyrr en hann hafði kyrkt þá, og er ey þessi illræmd af mannskaða þeim, er hann hefur gert. Sjómenn þeir og kaupmenn, er lentu hér við eyna, þorðu aldrei upp á land, nema þeir væru margir saman.“

Ég get ekki gert að því, en gamli maðurinn minnir mig á yfirstétt auðmanna og stjórnmálamanna hér á landi. Því meir sem vaxta- og skattpínd alþýðan kveinkar sér eykur auðstéttin og leppar þeirra á þingi byrðarnar á henni, en veltist enn meira um í ólifnaði sjálf.

Sindbað losnaði við gamla manninn með því að fylla hann og stúta honum síðan. Ekki mæli ég með þannig aðförum. Mannkynssagan sýnir samt að spilltar forréttindastéttir í öllum samfélögum hafa yfirleitt liðið undir lok vegna eigin drykkjuskapar og óhófs. Eins og Sindbað braut hausinn á öldungnum uppáþrengjandi hafa blóðugar byltingar og innrásir annarra landa eða þjóðflokka ekki gert annað en að flýta fyrir óhjákvæmilegum endalokunum hverju sinni.

Gerist það á Íslandi?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband