Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samtök atvinnulífsins stunda fjárkúgun

Hvað er hægt að kalla þetta annað en fjárkúgun? Hóta ríkisstjórn landsins að taka launþega í gíslingu til að beygja stjórnvöld til hlýðni við frekjuna í sér.

Síðan má spyrja hvort athæfi SA sé ekki ólögleg og ósvífin árás á löglega kjörin stjórnvöld, sbr. 98. gr. hegningarlaga:

    Veki maður eða stýri uppreisn í þeim tilgangi að breyta stjórnskipun ríkisins, þá varðar það fangelsi, ekki skemur en 3 ár eða ævilangt.
    Hver, sem tekur þátt í þess konar uppreisn, svo og hver sá, sem sekur gerist um verknað, er miðar að því að breyta stjórnskipuninni á ólögmætan hátt, skal sæta fangelsi allt að 8 árum.

 Kannski á Vilhjálmur Egilsson heima í klefa með Sigurjóni Árnasyni á Litla-Hrauni?


mbl.is SA á fundi með Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austurríki meira áhyggjuefni

Ekki má vanmeta Brassana frekar en önnur lið á mótinu, þeir virðast kunna ýmislegt fyrir sér, en mér sýnist meiri ástæða til að hafa áhyggjur af leiknum gegn Austurríki.

Af þessum leik að dæma eru þeir gríðarlega snöggir og búa yfir mikilli tækni. Hreyfingarnar hjá austurrísku leikmönnunum eru hraðar og virðast úthugsaðar. Leikurinn gegn þeim verður barningur.


mbl.is Hvers má vænta af Brasilíu (myndb.)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðverjar öflugir

Góður sigur hjá þeim, en ég veit að vísu ekki hve sterkir Egyptar eru um þessar mundir. Þeir voru góðir fyrir einhverjum árum síðan og gerðu strákunum okkar skráveifu.

Hvað sem því líður er þetta skegg Heiner Brand umhverfisslys.


mbl.is Fimm marka sigur hjá Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einbeittur brotavilji?

Ég skil ekki ákafa þingmanna ríkisstjórnarinnar við að reyna að svíkja yfir þjóðina enn einn drápsklyfjabaggann vegna upploginnar skuldar Icesave, sem á ekki að greiðast með neinum peningum öðrum en þeim sem hægt er að kreista út úr þrotabúi Landsbankans.

Og það í þriðja sinn eftir að stjórnvöld hafa verið rekin til baka tvívegis með handónýta samninga. Í seinna skiptið var það forsetinn og þjóðin sem sáu um rassskellinguna. Ég fæ ekki betur séð en að um einbeittan brotavilja sé að ræða hjá ríkisstjórninni að svíkja yfir þjóðina skuldabagga sem öll lög, bæði alþjóðleg og innlend, segja að henni ber ekki að taka á sig.

Landsbankinn var einkabanki og samkvæmt kröfurétti ber þeim sem eiga inni ógreidda reikninga hjá einkafyrirtækjum í greiðsluþroti að beina kröfum sínum til þrotabúa umræddra fyrirtækja. Ekki til gömlu konunnar í næsta húsi, þó hún kunni að eiga eitthvað smá sparifé.


mbl.is Segir Icesavevinnu ganga vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru rök álsinna fyrir því að drita niður álbræðslum um landið byggð á sandi?

Jónas Kristjánsson fjallar um græðgi byggðarlaga í álbræðslur í nýjasta örpistli sínum. Hann bendir á að þau sveitarfélög sem hæst hafa gargað um að fá álver eða hafa fengið, eru á hausnum og að ógæfa í fjármálum virðist fylgja álbræðslugræðginni. Ekki er hægt að minnast ógrátandi á Keflavík og Hafnarfjarðarbær er skuldum vafinn.

Álmengunarsinnar hafa jafnan hátt um að mikil atvinna og umsvif í efnahagslífinu fylgi álbræðslum. Hinsvegar ef hugsað er út í hvaða kjör þær álbræðslur sem hér hafa verið grátnar í gegn hafa fengið, þarf enginn að vera hissa þó álsveitarfélögin séu illa stöddd.

Allskyns aumingjastyrkir hafa verið veittir álrisunum fyrir að koma hingað á hjara veraldar og veita nokkrum hræðum atvinnu af mikilli miskunn sinni. Þeir hafa fengið hverja skattaundanþáguna á fætur annarri og orkuverð sem er aðeins helmingur af því sem þeim býðst í þriðja heims ríkjum eins og Brasilíu.

Það þarf því enginn að undrast þó það drjúpi ekki smjör af hverju álstrái og allur áróður þar um eru tómar blekkingar.


Skemmtilegur leikmaður

Þrátt fyrir að Ítalir séu þekktir fyrir að spila leiðinlega knattspyrnu sem byggir á skyndisóknum og leggjast í vörn eftir að hafa komist yfir, hefur Roberto Baggio alltaf heillað mig sem knattspyrnumaður. Hann réði yfir mikilli tækni, hraða og útsjónarsemi.

Bestur var hann á HM 1994, er Ítalía komst, að margra mati óverðskuldað þó, í úrslitaleikinn gegn Brasilíu. Átti leiðinlegan endi á mótinu er hann misnotaði vítaspyrnu gegn Brasilíu í vítaspyrnukeppninni sem varð til að Brasilía vann titilinn. Finnst eins og sól hans hafi aldrei náð að skína jafn skært eftir það. Baggio er þó talinn á meðal bestu knattspyrnumanna sögunnar samkvæmt Wikipedia.

Roberto Baggio var í ítalska landsliðinu á HM 1998, en spilaði ekki alla leikina. Dino Zoff sniðgekk hann á EM 2000 og Trappatoni kaus að velja Baggio ekki í hópinn fyrir HM 2002. Fyrir það uppskar hann (Trappatoni) mikla gagnrýni. Ítalía datt út í 16 liða úrslitum, sem þykir ekki góður árangur á þeim bænum. Skyldi fjarvera Baggios hafa haft eitthvað að segja um það?

 


mbl.is Baggio fær friðarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinber útflutningur á hrunhönnuðum

Oft er sagt að til að þess að við vinnum okkur fyrr út úr efnahagsvandanum verði að auka útflutning landsins. Ég skal vera fyrstur til að taka undir það hvenær sem er, en ekki er ég viss um að sá útflutningur sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er farin að stunda, sé okkur til framdráttar.

Þau eru farin að flytja út hrunhönnuði í bitlinga sem falla Íslandi í skaut vegna alþjóðlegs samstarfs landsins. Jón Baldvin Hannibalsson guðfaðir Samfylkingarinnar, gagnrýnir enn og aftur afkvæmi sitt og fyrrverandi samhrunflokk þess, Sjálfstæðisflokkinn, að þessu sinni fyrir að styðja Árna Mathiesen í umsókn hans um deildarstjórastöðu hjá Matvælastofnun Sameinuðu Þjóðanna FAO, í Róm. Þetta kemur fram í frétt á Pressunni.

Það var vitað að hrunverjinn Árni Mathiesen var of góður til að mæta til yfirheyrslu fyrir verk sín (og verkleysi) í ráðherrastól árin fyrir hrun og naut skjaldborgar hrunflokkanna, en nú hefur líka komið í ljós að hann er of góður til að atast í beljunum áfram, sem hann er þó menntaður til að gera.

Þess vegna áleit ríkisstjórnin að nauðsynlegt væri að draga Ísland enn fram til háðungar í augum umheimsins með því að verðlauna einn af þeim spilltu og ónýtu stjórnmálamönnum, sem sökktu Íslandi efnahagslega, með feitu embætti á alþjóðlegum vettvangi.


Ríkisstjórnin felur alltaf nýjustu afglöpin sín í rykinu af síðustu á undan

Eitt má segja þessari ríkisstjórn til hróss, en það er að hún er mjög snjöll í að fela hver og ein afglöp sín í moldviðrinu af einhverjum öðrum stórum málum þar sem hún er einnig með allt niður um sig. Ef hægt er að líta á það að fela misgjörðir sínar sem mannkost.

Þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út á sínum tíma notuðu stjórnvöld tækifærið meðan allir voru á kafi í skýrslunni, að birta skýrslu Seðlabankans þar sem í ljós kom afleit staða heimilanna í landinu. Nýlokið er starfi þingmannanefndarinnar sem kennd er við Atla Gíslason og því verki lauk á snautlegan hátt, þar sem í ljós kom að hrunflokkarnir tveir, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur, slógu skjaldborg um sína hrunvalda.

Þegar þetta er ritað ólgar reiðin í þjóðfélaginu og veggir Alþingishúsið eru klæddir að nýju í sjálfboðaliðavinnu þar sem klæðningin er egg, tómatar, skyr og annar óþverri. Bæði vegna skjaldborgar stjórnmálaflokkanna um eigin spillingu og leikritsins sem sett upp var til að láta líta út fyrir að stjórnvöld vildu eitthvað gera til að leysa skuldavanda heimilanna.

Ekki virðist ríkisstjórnin hafa manndóm til að taka á þeim málum sem skapa þessa miklu ólgu, heldur notar hana sem skálkaskjól til að svíkja enn meiri álögur yfir almenning. Og þetta gerir yfirlýst stjórn litla mannsins. Sveiattan þessu liði.


mbl.is Skriður kominn á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrjum á læknunum

Verið er að mótmæla niðurskurði í heilbrigðismálum út um allt land og er það að vissu leyti skiljanlegt.

En hvernig er það má ekki byrja niðurskurðinn á launum læknanna? Oft eru það læknarnir sem eru að leiða mótmælin gegn niðurskurðinum. Margir eru með 2-3 milljónir í mánaðarlaun, er ekki hægt að taka eitthvað þarna? Fimm milljón kr. launalækkun á ári myndi skila hálfum milljarði fyrir hverja hundrað lækna.


mbl.is Mannleg skjaldborg á Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líst betur á alþrif

Gott að þetta gangi vel, en mér skilst að hreinsunarstarfið gangi ekki eins vel innan dyra í þessu húsi. Þar er hver höndin upp á móti annarri, sama sérhagsmunagæslan, mútuþægnin og dekur við fjárglæframenn sem fyrr.

Er ekki kominn tími á Al(þingis)þrif?


mbl.is Þinghúsið þvegið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband