Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Álagningin á minniskortin er rán um hábjartan dag

Það er ekki nýtt að verslunin hér á landi okri svo mikið að það jaðrar við að vera glæpastarfsemi, en ég hef sérstaklega tekið eftir þessu með minniskortin þar sem ég skipti fyrir stuttu síðan gömlu myndavélinni minni fyrir nýja og fullkomnari.

Ég tek mikið af háskerpu (HD) myndböndum og hef séð að þau hökta stundum í spilun. Eftir smá rannsóknarvinnu hef ég komist að þeirri niðurstöðu að líklega er minniskortið sem fylgdi með vélinni af lakari tegundinni. Kortið er það sem er kallað Standard definition, SD, en til að taka upp myndbönd í HD eða High Definition upplausn, 1280x720, þarf maður víst minniskort af gerðinni SDHC, sem tekur upp á meiri hraða.

Eins og fram kemur í fréttinni (litlu myndinni) er verðið á ákveðinni tegund minniskorts í myndavélar og farsíma þrefalt hærri hjá Beco en á vefsíðunni bhphotovideo.com.

Þetta er ekki svæsnasta dæmið, því Sandisk minniskort sem ég var að spá í, kostar 16 pund á Amazon, en lægsta verð sem ég hef fundið það á hér á landi, er í kringum 13.000 kr. Við erum að tala um fjórfalt verðið á Amazon. Menn sem standa fyrir svona okri eiga hvergi annars staðar að eiga lögheimili en á Litla-Hrauni.

Verst að Amazon sendir ekki raftæki til Íslands, þannig að ég ætla að bíða með að uppfæra minniskortið í myndavélinni minni þar til ég á næst erindi út fyrir landsteinana. Þangað til sætti ég mig frekar við skrykkjótt myndbönd en að kaupa minniskort á þreföldu kostnaðarverði.

Að vísu þætti mér gaman að vita hvað álagning ríkisins í formi tolla og hæsta virðisaukaskatts í heiminum hefur að segja í þessu máli. Eins og allir vita eru engir tollar á milli ESB-landanna, þó það gegni öðru máli um innfluttar vörur frá láglaunalöndum eins og Kína, Indlandi og Tævan, þangað sem flest stórfyrirtækin á rafvörumarkaðnum hafa séð sér hag í að flytja framleiðslu sína.


mbl.is Vel smurt á tölvuleiki, myndavélar, minniskort og myndavélalinsur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Knattspyrnuhetjur og pilsfaldakapítalistar

DV greinir frá því að nokkrir okkar ástsælustu knattspyrnukappa fyrr og síðar, feðgarnir Arnór og Eiður Smári Guðjohnsen, Ásgeir Sigurvinsson og Guðni Bergsson hafi komið 1,6 milljarða króna skuld sinni yfir á Kópavogsbæ.

Skuldin er tilkomin vegna tapreksturs einkahlutafélagsins Knattspyrnuakademíunnar ehf sem var í eigu þeirra og Loga Ólafssonar fyrrum landsliðsþjálfara. Starfsemi félagsins fólst í að reisa íþróttamannvirki (væntanlega er knattspyrnuhöllin Kórinn í Kópavogi þar á meðal) og leigja þau Kópavogsbæ.

Sjálfsagt hefur ekki verið ætlunin hjá þeim félögunum að standa fyrir einhverju misjöfnu, en við efnahagshrunið og tilheyrandi fall krónunnar hafa eflaust allar rekstraráætlanir þeirra farið til fjandans.

Auðvitað er ámælisvert að knattspyrnuhetjurnar skuli velta sínum skuldavanda á herðar útsvarsgreiðenda í Kópavogi, þó þessar tölur séu smáræði miðað við byrðarnar sem hinir stóru gerendur hrunsins komu á almenning.

Það er samt enn alvarlegra að Kópavogsbær skuli hafa gert í buxurnar í þessu máli með því að taka á sig fyrir hönd Kópavogsbúa nær tveggja milljarða skuldahala, meðan Guðjohnsenarnir, Ásgeir Sigurvinsson og þeir hinir komast burt frá þessu með allt sitt á þurru, væntanlega vel stæðir allir saman. Að vísu á Eiður að hafa tapað 130 milljóna láni til félagsins, en reikna má með að það sé aðeins lítill hluti af auðæfum þessa fyrrum besta atvinnumanns Íslands í knattspyrnu.

Líklega eru þessir peningar að stærstum hluta tapaðar kröfur, en enn og aftur kemur hið opinbera með pilsfaldinn og leyfir stóru körlunum að skríða undir þegar harðnar á dalnum. Ef þetta hefði farið í gjaldþrot hefðu skuldirnar allavega ekki lent á útsvarsgreiðendum. Landsbankinn hefði þá leyst til sín eignina og reynt að finna nýja rekstraraðila.

Selt að endingu íþróttamannvirkin upp í skuldir. Nú ef það hefði ekki tekist að finna kaupendur sýnir það þá ekki bara að það er óarðbær rekstur, að byggja íþróttahús og leigja þau til sveitarfélagsins? En eflaust skiptir arðbærni engu máli þegar endalaust er hægt að velta kostnaðinum af illa reknum fyrirtækjum yfir á herðar almennings.

Sökin í þessu máli er fyrst og fremst stjórnmálamannanna.


Ríkissjónvarp með tilboð til ríkissjónvarps?

Ég las grein framkvæmdastjóra 365 í Fréttablaðinu í dag og verð að segja að ég á erfitt með að fallast ekki á rök hans, þrátt fyrir að ég sé mikill handknattleiksunnandi. Hann sagði að eðlilegra væri að þeir sem vildu horfa á íslenska landsliðið keppa á HM borguðu fyrir það sjálfir í stað þess að allir skattgreiðendur, bæði þeir sem engan áhuga hafa og þeir áhugasömu, borguðu fyrir þá sem vilja sjá keppnina. Auk þess fá handknattleikssamböndin, þar á meðal HSÍ, hlutdeild í söluverði sjónvarpsréttarins.

Hinsvegar tel ég að strákarnir okkar muni ekki fá eins mikinn stuðning frá þjóðinni ef keppnin verður aðeins á Stöð 2 Sport. 365 njóta ekki mikilla vinsælda eftir að hafa verið flaggskip Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, eins þekktasta nafnsins úr hópi útrásarvíkinganna sem rændu bankana innan frá og skildu þá stórskulduga eftir á herðum þjóðarinnar. Margir handknattleiksunnendur eru óhressir með að neyðast til að versla við skúrk til að geta horft á HM í handknattleik.

Allir vita að 365 hefur allt til þessa dags verið rekið með bullandi tapi. Sjá t.d. þessa frétt. Leiða má að því rök að með kaupum hins nýja 365 á sjónvarpsréttinum að HM í handknattleik sé félagið að safna meiri skuldum og áskrifendatekjur muni ekki duga fyrir kaupverði sjónvarpsréttarins. Það leiðir til þess að kröfuhafar, þar á meðal hinn nýi Landsbanki í eigu ríkisins, muni fá enn minna upp í kröfur sínar á félagið og skattgreiðendur verði að borga enn meira með bankanum.

Þannig að það, má deila um hvor sjónvarpsstöðin er meira ríkissjónvarp, RÚV eða Stöð 2.


mbl.is RÚV vill kaupa HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnumálastofnun er sjálf að svíkja fé út úr atvinnulausum

Eftir að í ljós kom að atvinnuleysistrygging mín þann 1. apríl á síðasta ári var skert um u.þ.b. 9 þúsund krónur spurðist ég fyrir um ástæðuna. Mér var sagt að þetta væri vegna desemberuppbótar fyrir árið 2009, sem ég fékk greidda í lok þess árs.

Þá fór ég að skoða hvað lög um atvinnuleysistryggingar segja um skerðingu atvinnuleysistryggingar. Um hana er fjallað í 36. grein laganna.

36. gr. Frádráttur vegna tekna.
Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. [4. mgr.]1) skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru.

Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum og séreignarsjóðum, [greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum].1) Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Lokaorð greinarinnar benda sterklega til að einungis skuli skerða atvinnuleysistryggingu vegna tekna er unnið er fyrir eftir að tryggingaþegi varð atvinnulaus. Athugasemdir í frumvarpi að lögunum kveða enn skýrar á um það:

Komi til tekna sem greiddar eru út fyrir ákveðið tímabil, til dæmis greiddar út fyrir allt árið við árslok, skal eingöngu miða við þann tíma er hlutaðeigandi var á atvinnuleysisbótum. Koma þá tekjurnar til frádráttar samkvæmt reglu 1. mgr. sem nemur því hlutfalli sem sá tími er hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur var af heildartímanum sem umræddar tekjur voru ætlaðar fyrir.

Ég benti fulltrúa Vinnumálastofnunar á Skagaströnd á að þar sem desemberuppbót fyrri vinnuveitenda míns var aðeins greidd fyrir vinnu mína áður en ég varð atvinnulaus (augljóslega) væri rangt að skerða trygginguna hjá mér vegna hennar samkvæmt framangreindu.

Fulltrúinn féllst ekki á rök mín. Þá kærði ég þessa ákvörðun Vinnumálastofnunar til Úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga.

Skemmst er frá því að segja að ég vann málið og nefndin skipaði Vinnumálastofnun að draga skerðingu vegna desemberuppbótar til baka, sem hún gerði loks.

Ef Vinnumálastofnun ætlar að berjast gegn bótasvikum má hún alveg byrja á sjálfri sér. Ef þeir 16 þúsund eða svo sem eru atvinnulausir hafa allir fengið skerðingu vegna desemberuppbótar má gera ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé að stela tugum ef ekki hundruðum milljóna frá þeim sem eru atvinnuleysistryggðir á hverju ári. Kannski væri rétt að draga þá fjárhæð frá meintum sparnaði vegna uppgötvaðra tryggingasvika?

Ég hvet alla þá sem eru atvinnulausir og hafa fengið skerðingu vegna desemberuppbótar að kæra ákvörðunina eða krefjast leiðréttingar. Ómögulegt er að vita hve mikið er búið að svindla á atvinnulausum hvað þetta varðar og ekki hef ég fengið neina staðfestingu á að búið sé að leiðrétta þeirra mál með hliðsjón af þessum úrskurði, sem réttast væri þó að gera.


mbl.is Fjöldi sveik út atvinnuleysisbætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjónarmið Hagsmunasamtaka heimilanna útskýrð

Þar sem flestir helstu fjölmiðlar landsins sniðganga sjónarmið Hagsmunasamtaka heimilanna í lánamálum á sama tíma og talsmenn hinnar glæpsamlegu vaxtaokursstefnu þessarar svokölluðu velferðarstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna fá mun greiðari aðgang að fjölmiðlum, hafa samtökin birt samanatekt á sínum helstu sjónarmiðum á heimasíðu sinni og biðja velunnara sína og alla sem óska eftir úrlausnum fyrir skuldum hlaðin heimili landsins að birta umrædda samantekt á bloggsíðum sínum.

Þar sem greinin er í lengra lagi ætla ég að láta tengil á hana duga, en hvet alla til að lesa greinina. Alla sem vilja kynna sér sjónarmið annarra en þeirra sem blása upp meintan kostnað af tillögum HH um sanngjarnar leiðréttingar á lánum sem hækkuðu stjórnlaust eftir hrunið, en horfa (sennilega viljandi) fram hjá þeim kostnaði sem hlýst af fjöldagjaldþrotum og stórfelldum landflótta.

Það hefur nefnilega aldrei þótt gáfuleg búmennska að slátra mjólkurkúnni, sem í þessu tilfelli eru ungar og vel menntaðar barnafjölskyldur sem eiga auðveldast með að taka sig upp og flytja til annarra landa þar sem afkomu þeirra er ekki ógnað. Um leið missir ríkissjóður skatttekjur af launum þeirra og neyslu.

Hvað um það, hér er greinin.

 

Hvatningarpakki heimilanna - sjónarmið Hagsmunasamtaka heimilanna

 


Viðtal við yfirmann rannsóknarfyrirtækisins Kroll

Þrátt fyrir að viðmælandinn væri frekar varkár í yfirlýsingum til að stofna ekki rannsókn á sakargiftunum gegn sjömenningunum í Glitnismálinu í hættu, var viðtal Svavars Halldórssonar við yfirmann Evrópudeildar rannsóknarfyrirtækisins Kroll nokkuð upplýsandi.

Af orðum hans mátti skilja að hagsmunaaðilar í málinu treysti ekki íslenskum dómsyfirvöldum. Yfirmaður Kroll mælti undir rós með því að segja að aðilar málsins teldu líkur á endurheimtum mestar með því að stefna Glitni í Lundunúm og New York. Þó eflaust megi segja að eðli alþjóðlegra fjármagnshreyfinga hafi eitthvað að segja hvað þetta varðar.

Engu að síður er ljóst að íslenskum stofnunum í fjármála- og dómskerfinu hér á Íslandi er ekki treyst fyrir utan landsteinana. Reyndar ekki innan þeirra heldur, ef út í þá sálma er farið.

Enginn getur verið hissa á því, sem hefur horft upp á sleikjuskap Hæstaréttar og héraðsdómstóla við fjármálastofnanir og ríkið sem ber aðeins hagsmuni bankanna en ekki fólksins fyrir brjósti, þrátt fyrir gróf lögbrot og siðlausa viðskiptahætti bankanna í lánveitingum gengistryggðra lána.

Enginn getur heldur verið undrandi á vantrausti í garð fjármálaeftirlitsstofnana, eftir að hafa verið vitni að sofandahætti og meðvirkni Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans gagnvart bönkunum á sama tíma og forvígismenn þeirra rændu þá innan frá þar til þeir komust í þrot og tóku Seðlabankann með sér í fallinu.

Viðmælandinn var einnig fullviss um að ásakanir og niðurstöður Kroll í málinu gegn forsvarsmönnum Glitnis væru byggðar á sterkum gögnum. Það rennir enn betri stoðum undir þann grun margra að Jón Ásgeir Jóhannesson, Pálmi Haralsson kenndur við Fons og ýmsir fleiri áberandi aðilar í fjármálaheiminum fyrir hrun, eigi hvergi annars staðar að eiga lögheimili en á Litla-Hrauni eða Kvíabryggju.


Rúmlega milljón króna skuld á hvert mannsbarn

Ísafjarðarbær skuldar fjóra milljarða las ég einhvers staðar. Íbúar sveitarfélagsins eru um 3.500. Það jafngildir rúmlega 1100 milljón króna skuld á hvert mannsbarn á Ísafirði, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Séu bara teknir þeir sem eru tvítugir og eldri gerir það 1,6 milljón króna skuldabagga á hvern íbúa vegna skulda bæjarfélagsins.

Það eru miklir peningar. Hverjir aðrir munu þurfa að greiða þessa skuld en íbúarnir sjálfir?


Reglan er: Það sem er neytendanum sem mest í óhag skal gilda

Í réttarríkjum er neytendaréttur mjög sterkur og vafaatriði almennt túlkuð neytendum í hag.

Ekki á Íslandi.

Í réttarríkjum ríkir frelsi en hver og einn skal taka ábyrgð á sínum gjörðum. Þar með talið samningafrelsi, en þeir sem semja af sér bera skaðann af mistökum sínum sjálfir.

Ekki á Íslandi.

Allavega ekki fyrir lánastofnanir. Hér ríkir frelsi fyrir þær en án ábyrgðar. Allt í lagi fyrir lánastofnanir að semja af sér því niðurstaðan verður alltaf sú sem er verst fyrir lántaka. Hið svokallaða dómsvald kemur, fellir gerða samninga úr gildi og bjargar þeim úr snörunni með því að hengja lántakann í staðinn.

Ég væri mjög feginn ef það gerðist í hvert skipti sem ég sem af mér, t.d. með að selja bíl langt undir markaðsverði að ég gæti alltaf klagað í Héraðsdóm eða Hæstarétt og látið dæma þann sem keypti af mér hlutinn til að borga miklu hærra verð en samið var um.

En það get ég ekki. Ég er ekki banki. Kannski ætti ég bara að vera feginn því það gæti orðið til að ég þroskaðist, ólíkt fjármálamarkaði á Íslandi.


mbl.is Staðfesti dóm héraðsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef gengislánamálið hefði gerst í matvælaiðnaðinum

Eins og frægt er orðið var kveðinn upp héraðsdómur í máli sem lögbrjótur að nafni Lýsing höfðaði gegn lántakanum sem fjármálafyrirtækið braut lögin á, í þeim tilgangi að velta þeim óhjákvæmilegu afleiðingum sem glæpir hafa oftast í för með sér (a.m.k. í réttarríkum, veit ekki hvort það eigi við séríslenskar aðstæður) yfir á fórnarlamb glæpsins.

Til að dómstóllinn myndi nú örugglega dæma lögbrjótnum í hag, varð að tryggja að héraðsdómari hefði hagsmuna að gæta gagnvart Lýsingu. Þess vegna var eiginkona viðskiptafélaga lögmanns Lýsingar, sækjandans í málinu, skipaður héraðsdómari. Forráðamenn fjármálafyrirtækjanna vita að flestir bíta ekki höndina sem fæðir þá.

Mér sýnist að Al Capone og félagar hefðu mikið getað lært af félögum sínum í fjársvikageiranum uppi á Íslandi, hefðu þeir verið uppi á sama tíma. Þegar dæma átti Al Capone fyrir sín glæpaverk mútaði hann kviðdómnum.

Íslenska mafín má eiga það að hún er greinilega mun lúmskari og hagkvæmari en starfsbræður þeirra í Chicaco voru á bannárunum. Hún handvelur dómara sem er hvort eð er á kaupi hjá glæpamönnunum!

Langar í lokin að birta áhugaverða grein eftir Ólaf Garðasson, varaformann Hagsmunasamtaka heimilanna. Hann veltir því fyrir sér hvernig gengislánamálið liti út, hefði það gerst í matvælageiranum. Ólafur segir:

 

Matvælaframleiðandi er uppvís að því að setja bönnuð heilsuspillandi fæðubótaefni í nokkrar vörur. Viðskiptavinur hætti að greiða afborganir af sendingu af slíkri vöru þegar gallinn varð honum ljós. Framleiðandinn setti reikninginn í innheimtu og málið fór fyrir héraðsdómara. Hæstiréttur hafði áður staðfest viðkomandi fæðubótaefni ólöglegt samkvæmt landslögum.

Héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu að framleiðandinn hefði orðið fyrir forsendubresti með dómi Hæstaréttar og dæmdi kaupandann til að greiða fyrir vöruna að frádregnum ólöglegum efnum en með sérstöku álagi útgefnu af matvælastofu auk áfallina dráttarvaxta. Fjöldi aðila, þar á meðal ríkisstjórn landsins og nokkrir málsmetandi og lærðir menn gáfu í kjölfarið yfirlýsingar um að þetta væri réttlát niðurstaða fyrir alla.

 

Grein Ólafs og athugasemdir er að finna á slóðinni hér fyrir neðan.

 

Matvælaframleiðandi fær skaða sinn bættan


Mætti skoða að ákæra valdamestu stjórnmálamenn síðustu 30 ára

Það voru ráðamenn landsins (landráðamenn) sem bjuggu til jarðveginn fyrir gengislánaruglið. Sá jarðvegur heitir verðtrygging, sem var sett á á lán og laun árið 1979 og síðan afnumin af launum fjórum árum síðar.

Auðvitað mátti endurgjald fyrir vinnu fólksins rýrna í verðbólgunni  (að mati spilltra stjórnmálamanna) en alls ekki prentaðir peningaseðlar sem eru þó aðeins ávísun á verðmætin sem vinnan skapar.

Þannig að það þarf ekki að skoða hvort eigi að ákæra stjórnmálamennina, bara drífa í því.

 


mbl.is Skoðar hvort ákæra eigi vegna myntkörfulána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband