Er hægt að reka verktaka?

Fjölmiðlar greindu frá því í síðustu viku að Randver Þorláksson hefði verið rekinn úr Spaugstofunni. Örn Árnason sagði að þeir félagar væru fimm verktakar sem eru ráðnir í vinnu hjá Sjónvarpinu.

Spurningin sem vaknar er hvort hægt sé að reka verktaka. Samkvæmt almennum reglum í vinnurétti er verktaki sá sem tekur að sér tiltekið verk og ábyrgist ákveðinn árangur verksins. Verktakinn er ekki háður verkaupa sínum hvað varðar vinnutíma, kostnað og viðveruskyldu.

Sá sem fær smið til að setja nýja rúðu í gluggann heima hjá sér ræður því yfirleitt ekki hvernig verkið er unnið, en semur kannski við verktakann að hann klári dæmið fyrir kvöldmat, svo ekki sé hávaði frá iðnaðarmönnum í hverfinu á ókristilegum tíma.

Húsráðandinn getur ekki rekið smiðinn, ef það fer að leka inn um gluggann, en getur farið fram á að fá endurgreitt, eða smiðurinn verður að koma aftur og festa rúðuna almennilega. Hann getur síðan ákveðið að fá annan smið næst þegar þarf að skipta um rúðu í húsinu.

Launamaðurinn hefur aftur á móti ekki þetta frelsi. Hann er ráðinn í vinnu ákveðinn tíma, oftast frá átta til fimm virka daga og vinnur yfirleitt fyrirfram ákveðin verk sem til falla á vinnustaðnum. Hann er ekki skaðabótaskyldur vegna tjóns, sem má rekja til hans starfa, en hægt er að segja honum upp, ef hann stendur ekki undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar. Yfirleitt er launþeginn ráðinn ótímabundið, a.m.k. eftir ákveðinn reynslutíma, sem er oftast á bilinu þrír til tólf mánuðir.

Dagskrárstjóri Sjónvarpsins, Þórhallur Gunnarsson, sagði að samningurinn við Randver yrði ekki endurnýjaður. Það er sennilega réttari lýsing á málavöxtum en að tala um að hann hafi verið rekinn. Spaugstofumenn gera eflaust tímabundna samninga við Ríkissjónvarpið.

Hvernig getur síðan ráðningarform Spaugstofumanna fallið undir verktakavinnu samkvæmt lýsingunni hér að framan? Hvaða verk eru Spaugstofumenn að taka að sér? Að koma fram í sjónvarpinu í hálftímalöngum grínþætti einu sinni í viku? Að vera fyndnir? Hvernig er hægt að mæla það hvort það takist? Stundum eru þeir fyndnir, oft stekkur mér ekki bros er ég horfi á Spaugstofuna. Er kannski hægt að mæla það með áhorfsmælingum? Þær segja til um hve margir hafi horft á þáttinn af ákveðnu úrtaki, en segja ekkert til um hvort þátturinn hafi verið góður eða lélegur.

Staðreyndin er sú að það er æ algengara að vinnuveitendur ráði starfsmenn sína sem verktaka þegar þeir ættu að öllu óbreyttu að vera launþegar. Oft er það gert til að þurfa ekki að borga launatengd gjöld og veita starfsmönnum þau réttindi sem launþegar hafa og eru mjög dýr launagreiðendum. Síðan er hægt að losna við verktakann nánast fyrirvaralaust ef atvinnurekandinn er ekki ánægður með hann, meðan launþeginn hefur eins til þriggja mánaða uppsagnarfrest.

Það hefur komið í ljós undanfarið að atvinnuöryggi leikara og fjölmiðlamanna er ekki mikið og verktakasamningar verða æ algengara ráðningarform hjá þeirri stétt. Skemmst er að minnast brotthvarfs Egils Helgasonar frá Stöð 2, þar sem í ljós kom að samningur hans við 365 Miðla var aðeins til eins árs í senn.

Er þessi þróun til góðs? Frjálshyggjumenn segja að hver og einn eigi að ráða því hvernig hann semji við vinnuveitanda sinn um kaup, kjör og aðbúnað. Það á að vera samningsfrelsi, en sú spurning vaknar hvort rétt sé að heilu starfsstéttirnar búi ekki við meira atvinnuöryggi en svo, að starfsmenn geti átt von á því, þegar þeir vakna að morgni, að þeir séu atvinnulausir að kvöldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

"Skemmst er að minnast brotthvarfs Egils Helgasonar frá Stöð 2, þar sem í ljós kom að samningur hans við 365 Miðla var aðeins til eins árs í senn."

Hárrétt, en ég man ekki að það hefði komið fram að hann hefði ekki uppsagnarfrest á þessum eins árs samningi, líkt og hver annar launamaður.

Ef ég er verktaki, og mér er sagt upp sem verktaka, þá í fæstum tilfellum fara menn út samdægurs. En tilfellið með Egil á sínum tíma, hann var búinn að standa í einhverjum e-mail skrifum og einhverju, einmitt útaf uppsögn á samningnum og uppsagnarfresti.

Auðvitað eru hinsvegar til ótalmargir verktakar sem hafa engan uppsagnarfrest, þurfa að pakka saman ekki seinna, en fyrir helgi. Ef maður getur komist svo að orði.

Við værum fínir í business saman, gætum opnað bar. Fengið einhverja heita hljómsveit til að spila á barnum. En ekki nema um 3-4 ára ráðningarsamning, sem verktaka , væri að ræða.

Ef að hljómsveitin myndi eitthvað dala í vinsældum, þá værum við snöggir á hausinn. Hljómsveitin samningslaus, og allir tapa.

En hinsvegar ef við færum þá leiðina að bóka bandið bara í eitt gigg, eða nokkur í einu. Þá gætum við verndað okkur fyrir því að ágóðinn af staðnum færi minnkandi. Hljómsveitin myndi spila á einhverjum lítt þekktari stað, eða hreinlega æfa sig betur. Allir koma útí gróða við þær aðstæður.

Fjölmiðlarekstur er risky business, og þessvegna eru mjög líklega ekki gerðir langtímasamningar við þáttastjórnendur. Nema ef ske kynni að vera fréttamenn. Því þeir eru óháðir tískusveiflum í þáttum, fréttirnar eru alltaf á sínum stað !

Gætum við ekki fengið ríkið til þess að kaupa 2000 eintök af bókum allra íslenskra rithöfunda, bara til þess eins að styrkja "atvinnuöryggi" þeirrar stéttar ?

Reyndar er þetta nú þegar gert í formi listamannalauna, vegna þess að fyrir nýjan höfund er það nánast ógerningur að keppa við menn, sem eru fyrirframbúnir að fá greitt fyrir sína vinnu, óháð því hvort fólki líkar vinnan eður ei.

"Það á að vera samningsfrelsi, en sú spurning vaknar hvort rétt sé að heilu starfsstéttirnar búi ekki við meira atvinnuöryggi en svo, að starfsmenn geti átt von á því, þegar þeir vakna að morgni, að þeir séu atvinnulausir að kvöldi. "

Auðvitað á að vera samningarfrelsi og er að mínu viti, menn semja bara nákvæmlega eins og þeir vilja. En geta hinsvegar ekki farið fram á neina "ríkisráðningu" , þ.e.a.s. 50 ára ráðningarsamning, óháð afköstum og getu. Það er blessunarlega liðin tíð !

Þegar öllu er á botninn er hvolft, þá snýst þetta alltaf um, "Hvað getur þú gert fyrir mig, og hvað finnst þér að þú ættir að fá borgað fyrir það ?"

Kveðja

Sjallinn í Odense

Ingólfur Þór Guðmundsson, 1.10.2007 kl. 20:26

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Takk fyrir ágætan pistil, Ingólfur Þór.

Var Egill ekki með þriggja mánaða uppsagnarfrest? Þeir hjá 365 miðlum sögðu að hann gæti ekki hætt hjá þeim fyrr en eftir 3 mánuði, sem Egill sagði vera í fínu lagi, þar sem hann myndi byrja eftir 3 mánuði hjá RÚV.

Ég er ekki á móti verktakforminu, einungis að velta því upp hvenær það á við og hvenær ekki. Stundum á það við, eins og þú bendir réttilega á, í fjölmiðla- og skemmtanabransanum, þar sem yfirleitt er tjaldað til einnar nætur.

Mestu mistökin sem spaugstofufélagarnir gerðu að mínu mati, var að semja við RÚV sem fimm einstaklingar. Ef þeir hefðu verið með félagið Spaugstofan ehf, skráð nafnið sem nokkurs konar vörumerki og samið sem ein heild við Ríkissjónvarpið, hefði þessi staða með Randver ekki komið með. Þeir hefðu þá getað stillt dæminu þannig upp að RÚV semdi við þá alla, eða engan þeirra.

Egill Helgason fékk, ef ég man rétt, Silfur Egils skráð sem sitt eigið vörumerki. Þannig gat hann sagt "Ég er Silfur Egils og Silfur Egils er ég!" og flutt þáttinn yfir á aðra sjónvarpsstöð.

Æviráðning getur að sjálfsögðu verið slæm, þá getur atvinnurekandinn, ríkið eða einkaaðili, setið uppi með óhæfan starfsmann. Ég held reyndar að "ríkisráðning" sé reyndar mjög sjaldgæf í dag, ekki nema hjá prestum og einstaka embættum hjá ríkinu. Mín tilfinning er að oftast sé fundin leið til að losna við þá menn, sem vantar að losna við, t.d. með því að búa til nýjar stöður eða færa menn til í starfi.

Theódór Norðkvist, 2.10.2007 kl. 00:39

3 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

"Mestu mistökin sem spaugstofufélagarnir gerðu að mínu mati, var að semja við RÚV sem fimm einstaklingar. Ef þeir hefðu verið með félagið Spaugstofan ehf, skráð nafnið sem nokkurs konar vörumerki og samið sem ein heild við Ríkissjónvarpið, hefði þessi staða með Randver ekki komið með. Þeir hefðu þá getað stillt dæminu þannig upp að RÚV semdi við þá alla, eða engan þeirra."

100% sammála....  Hefðu líklega komið betur út, sem Spaugstofan ehf. heldur en hver einstaklingur fyrir sig.

Ingólfur Þór Guðmundsson, 2.10.2007 kl. 07:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 104695

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband