Færsluflokkur: Bloggar

Ég fer aldrei í svona tæki

Ástæðan er sú að með því að fara í svona hasartæki er maður að treysta útbúnaði og viðhaldi annarra fyrir lífi sínu. Ég stíg ekki upp í tæki sem fara lengra en nokkra metra frá jörðu, ekki nema ég neyðist til þess, t.d. ef ég þarf að ferðast í flugvél til að komast ferða minna.


mbl.is Íslendingar heilir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverskonar heilbrigðiskerfi er rekið hér?

Það besta í heimi? Kanntu annan? Götufyllibyttur sem stríða við geðræn vandamál eru ekki taldar húsum hæfar á sjúkrahúsum, þar sem er ströng gæsla og eftirlit lækna og hjúkrunarfólks.

En það er talið óhætt af heilbrigðisstofnunum að henda þeim út á götu, þar sem er miklu minni gæsla og eftirlit og almennir borgarar, gamalt fólk, börn og konur, eru í stórhættu af völdum þeirra!


mbl.is Veikasta fólkið í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háir vextir eru að slátra atvinnulífinu

Ég hef margoft fullyrt á bloggsíðum að vaxtastigið á Íslandi væri að drepa niður allt atvinnulíf. Formaður félags stórkaupmanna varaði við því í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að búast mætti við fjöldauppsögnum og gjaldþrotum í stórum stíl í haust, ef fram fer sem horfir.

Formaðurinn sagði að rekstraraðilar gætu ekki búið við það ástand sem er í efnahagsmálum um þessar mundir. Að þurfa að búa við 10% sveiflur á gengi íslensku krónunnar á einum mánuði og vexti upp undir 25% (að teknu tilliti til verðtryggingar) eru aðstæður sem atvinnurekstur í landinu getur einfaldlega ekki búið við lengi.

Efnahags(ó)stjórn ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, þar sem hverjum uppgjafarstjórnmálamanninum á fætur öðrum hefur verið raðað í lykilstöður og um leið gengið framhjá hæfari einstaklingum, hefur gjörsamlega mistekist.

Íslenska krónan var sett á flot árið 2001, sem þýðir að gengi hennar skyldi ráðast af lögmálum markaðarins um framboð og eftirspurn. Gengið lækkaði um 25% á árinu 2001, en krónan náði að rétta úr kútnum aftur. Gengi krónunnar hefur oftast verið sterkt síðan, en frá áramótum hefur gengisvísitalan hækkað um tæp 30%. Í marsmánuði einum féll gengið um 20%.

Hrossalæknarnir í Seðlabankanum og ríkisstjórninni (ekkert skot á Árna Matthíasson, það eru fleiri en hann sem beita hrossalækningum í efnahagsmálum, þó hann einn hafi réttindi til þess að beita þeim gegn ferfætlingum) hafa yfirleitt aðeins haft eina hrossalækningu fram að færa handa þjóðarbúinu: Vaxtahækkanir og þensluhvetjandi virkjanaframkvæmdir fyrir erlenda álrisa.

Það átti að vera ljóst strax í gengishruninu árið 2001 að eitthað annað þyrfti að gera til að verja krónuna en að hækka vexti og treysta á að spákaupmenn renndu áfram hýru auga til krónunnar vegna vaxtamunarins. Ríkisstjórn Íslands og Seðlabankinn hafa hinsvegar ekki komið fram með neinar lausnir, aðrar en áðurnefndar hrossalækningar.

Lækningin er orðin að sjúkdómnum. Vaxtastigið er að því komið að drepa niður allt atvinnulíf og frumkvæði til sjálfsbjargar á landinu. Stjór hluti af atvinnulífinu og fjölskyldum sem þurfa að koma sér þaki yfir höfuðið eru flúin yfir í aðra gjaldmiðla. Fasteignaeigendur í lántökum og mörg atvinnufyrirtæki eru að öllu leyti búin að taka upp evruna í sínum uppgjörum.

Ef ríkisstjórnin ætlar að sitja áfram með hendur í skauti á hún að segja af sér á stundinni. Að ósekju mætti líka reka stjórn Seðlabankans eins og hún leggur sig. Ósagt skal látið hvort ESB-aðild sé töfralausn, en ef fram fer sem horfir verður efnahagslífið flúið yfir í evruna eins og það leggur sig áður en langt um líður. Sem þýðir að við sogumst óviljug inn í bandalagið.


Og hvar er lækkun olíufélaganna?

Þeirra sem réttlæta hækkanir á eldsneytisverði vegna gengissigs? Gengið er búið að styrkjast alla þessa viku fyrir utan einn dag, um ca. 4% í heildina. Hvar er samráðsliðið núna?
mbl.is Krónan styrkist í morgunsárið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að koma í veg fyrir að annars flokks knattspyrnulið komist í úrslitaleiki

Knattspyrnuheimsins bíður það verkefni að gera allt sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir að annars flokks landslið í knattspyrnu eins og það þýska komist í úrslitaleiki á stórmótum hvað eftir annað.

Spánverjar voru miklu betri í leiknum, hefðu átt að vinna 3-0, en Þjóðverjum tókst að drepa niður leikinn með grófum leik, eins og ég hef áður lýst yfir að gæti gerst. Þjóðverjar voru líklega í léttasta riðli keppninnar, meðan stórþjóðir eins og Frakkland, Ítalía og Holland, ásamt Rúmenum, sem eru eflaust ekki síðra lið en Þýskaland, röðuðust saman í riðil.

Þjóðverjum tókst þó aðeins að lenda í öðru sæti síns riðils, meðan Spánverjar sigruðu sinn riðil, sem var mun erfiðari. Þeir mættu síðan sofandi Portúgölum, sem héldu að það væri nóg að hafa hárgreiðsluna í lagi til að vinna Þjóðverja. Þegar þeir vöknuðu tveimur mörkum undir og fóru að spila fótbolta var það of seint. Síðan slógu þeir varalið Tyrkja út úr undanúrslitum.

Það er ekki nógu gott þegar léleg lið komast þetta langt. Það eyðileggur svona stórleiki eins og úrslitaleik á EM og HM. Að svona kraftakarlaknattspyrnulið sé að spila í úrslitum þeirra bestu er móðgun við þær mörg hundruð milljónir sjónvarpsáhorfenda og áhorfendur á leiknum sjálfum, sem eru búnir að kaupa miða á leikinn dýrum dómum, eða borga óbeint fyrir sjónvarpsréttinn með sköttum eða beinni áskrift að sjónvarpsstöð.

Bæði verður að raða betur í riðla og stórþjóðir geta ekki leyft sér að mæta með hálfum huga í þýðingarmikla leiki. Portúgalir eru betri en Þjóðverjar og hefðu unnið þá, hefðu þeir beitt sér.


mbl.is Spánn Evrópumeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nautið og nautabaninn

Spánverjar og Þjóðverjar mætast í úrslitaleik Evrópukepnninnar í knattspyrnu annað kvöld. Spánverjar hafa sýnt leiftrandi knattspyrnu á þessu móti. Þeir unnu sinn riðil með fullu húsi, slógu Ítala út í vítaspyrnukeppni og völtuðu yfir Rússa í undanúrslitum. Þjóðverjar lentu í öðru sæti síns riðils, unnu glæstan sigur á Portúgölum í 8 liða úrslitum og Tyrkjum í undanúrslitum.

Spánverjar eru fyrirfram líklegri til að fara með sigur af hólmi, en þegar Þjóðverjar eru komnir þetta langt er aldrei hægt að afskrifa þá. Joachim Löw, sem tók við þýska landsliðinu 2006, hefur sett skemmtilegan svip á liðið. Fyrirrennari hans, Jurgen Klinsmann, sem lék um skamman tíma við hlið Ásgeirs Sigurvinssonar í Stuttgart, breytti þýska landsliðinu með því að taka upp meiri áherslu á sóknarknattspyrnu.

Joachim Löw hefur haldið áfram sóknaráherslum Klinsmanns og við höfum séð þýska liðið spila meiri sóknarleik en oft áður. Þeir skoruðu ekki mikið í riðlakeppninni, gerðu það sem þurfti, en hafa skorað sex mörk í tveimur leikjum í útslattarkeppninni.

Auk þess að spila leiftrandi sóknarleik eru Spánverjar vel skipulagðir í vörn og á miðjunni. Það verður erfiðara fyrir Þjóðverja að vinna bug á þeim en vængbrotnu liði Tyrkja. Þetta gæti orðið leikur nautabanans (Spánar) gegn nautinu (Þýskalandi) og leikurinn gæti líka þróast á hinn veginn.

Ítalir sigruðu Vestur-Þjóðverja í úrslitum á HM 1982 með þremur mörkum gegn einu. Siðustu 20 mínúturnar eða svo stríddu þeir þreyttum Þjóðverjunum og létu boltann ganga manna á milli með þá þýsku í eltingarleik. Gera Spánverjarnir það sama?


Guus Hiddink. Þjálfari með sigursælan feril.

Óhætt er að fullyrða að þjálfaraferill Guus Hiddinks, þjálfara knattspyrnulandsliðs Rússlands, eigi sér fáar hliðstæður. Guus hóf knattspyrnuþjálfun hjá hollenska liðinu De Graafschap sem aðstoðarþjálfari. Árið 1987 tók hann við PSV Eindhoven og gerði þá að Evrópumeisturum meistaraliða Evrópu, en sá árangur jafngildir sigri í þeirri keppni sem í dag er kölluð Meistaradeild Evrópu.

Eftir stutta viðkomu hjá Fenerbache og Valencia var Hiddink ráðinn þjálfari hollenska landsliðsins árið 1995. Holland hafði á þeim tímapunkti á að skipa mörgum snjöllum leikmönnum, s.s. Dennis Bergkamp, Edgar Davids og Marc Overmars. Innbyrðis deilur og agavandamál komu í veg fyrir að hollenska landsliðið næði þeim árangri sem hægt var að ætlast til af svona sterkum leikmannahóp, en Guus tókst að halda nokkrum aga á liðinu.

Undir hans stjórn komst Holland í 8 liða úrslit þar sem þeir töpuðu fyrir Frökkum eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni. Honum tókst að koma liðinu í undanúrslit á HM 1998, þar sem þeir töpuðu fyrir Brasilíu, einnig að lokinni vítaspyrnukeppni.

Að loknu heimsmeistaramótinu sneri Hiddink sér aftur að þjálfun félagsliða, að þessu sinni á Spáni, fyrst Real Madrid, síðan Real Betis. Heimsmeistarakeppnin freistaði hans aftur og Guus ákvað að taka að sér þjálfun Suður-Kóreu þann 1. janúar 2001.

Fram að HM 2002 hafði Suður-Kórea ekki unnið leik á síðustu fimm heimsmeistaramótum. Guus Hiddink tókst hinsvegar að koma gestgjöfunum alla leið í undanúrslit, þar sem þeir töpuðu naumlega fyrir Þjóðverjum.

Þessu næst lá leiðin aftur til PSV Eindhoven, en ekki hafði hann sagt skilið við landsliðsþjálfun og nú varð ástralska landsliðið fyrir valinu. Hiddink kom andfætlingum á HM 2006 í Þýskalandi, þar sem liðið tapaði naumlega fyrir Ítölum í 16 liða úrslitum, en svo langt hafði Ástralía aldrei komist á heimsmeistaramóti.

Árangur Guus Hiddink með rússneska landsliðið á yfirstandandi Evrópumóti er nú þegar orðinn glæsilegur. Rússar mæta Spánverjum í undanúrslitum á fimmtudaginn og geta þar með leikið til úrslita í keppninni. Glæstur sigur þeirra á samlöndum Hiddinks vakti gríðarlega athygli, en margir töldu að Hollendingar ættu greiða leið í úrslit Evrópukeppninnar. Ekkert varð úr því eftir að Rússar yfirspiluðu þá í 8 liða úrslitum.

Þrátt fyrir glæstan þjálfaraferil er Guus Hiddink mjög hógvær maður. Það kom vel fram í viðtali við kappann eftir sigurinn á Hollandi. Hann kallaði sigurinn kraftaverk og hrósaði rússnesku landsliðsköppunum, þrátt fyrir að hann sjálfur eigi án efa stærsta þáttinn í árangri liðsins.

Frægt er orðið þegar Hiddink rakst óvart á Kristinn Jakobsson, alþjóðadómara og var kurteisin uppmáluð við eina fulltrúa okkar Íslendinga á mótinu. Gaman verður að sjá hvort viðureign Rússa og Spánverja færi Guus Hiddink enn eina rósina í hnappagatið.

Þýtt og endursagt af Wikipedia.

 

Guus Hiddink


Krónan brennur upp

Er eitthvað hægt að gera til að stöðva þróunina? Spyr sá sem ekki veit.

Gengisfall

Eiga bara óvinir Gyðinga að standa reikningsskil fyrir stríðsglæpi?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, ritskoðunarsinni og bloggari, skrifar grein um króatískan stríðsglæpamann, sem býr í Austurríki, hefur að hans sögn mikinn áhuga á knattspyrnu og hefur fylgst með leikjum landa sinna á Evrópumótinu, sem nú stendur yfir, af miklum áhuga. Milivoj Asner er maðurinn er sem um er rætt.

Þar sem Vilhjálmur ritskoðar bloggið sitt og lokar á athugasemdir frá þeim sem benda á óþægilegar staðreyndir um hans eigin átrúnaðargoð í Ísrael, hef ég ákveðið að svara Vilhjálmi á mínu eigin bloggi.

Fyrir það fyrsta tek ég undir með Vilhjálmi að auðvitað á þessi maður að standa reikningsskil sinna glæpa. Það sama gildir hinsvegar um stríðsglæpamenn Ísraelsríkis, sem hafa framið ekki síðri glæpi en nefndur Milivoj Asner, sem nú sötrar kaffi og vín í góðra vina hópi í stað þess að sitja undir réttarhöldum stríðsglæpadómstóls.

Reyndar hafa stríðsglæpamenn Ísraelsríkis, sem Vilhjálmur heldur hlífisskildi yfir um leið og hann heimtar að aðrir stríðsglæpamenn, sem frömdu samskonar glæpi gegn Gyðingum, fái makleg málagjöld, náð mun lengra í lífinu en að sitja í góðu yfirlæti á kaffihúsum.

Stríðsglæpamenn úr röðum Gyðinga hafa nefnilega margir hverjir orðið leiðtogar, Ísraelsríkis. Þar á meðal er Yitzhak Shamir, sem var forsætisráðherra Ísraels á árunum 1983-1984 og 1986-1992. Shamir var foringi hryðjuverkasamtaka, sem myrtu fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Folke Bernadotte sænskan greifa og mikinn friðarsinna.

Þá áttu sömu hryðjuverkasamtök, Lehi (smellið á nafnið fyrir meiri upplýsingar), þátt í Deir Yassin fjöldamorðinu, þar sem a.m.k. 100 varnarlausir Arabar, aðallega gamalt fólk, konur og börn, voru myrtir. Menachem Begin, einnig síðar forsætisráðherra Ísraels, átti þátt í sama atburði.

Þessir menn þurftu aldrei að standa reikningsskil gjörða sinna, dyggilega varðir af Bandaríkjamönnum og óbeint af íslenskum stjórnvöldum, sem hafa alltaf verið mikið vinaríki Ísraels.

Vilhjálmur vitnar í Dr. Efraim Zuroff forstöðumann Simon Wiesenthal Stofnunarinnar í Jerúsalem, sem segir:

"Austurríki hefur lengi verið annáluð paradís fyrir stríðsglæpamenn. Ef maðurinn [Asner] er nógu hraustur til að labba í bæinn og drekka vín, er hann nógu hraustur til að standa  reikningsskil gerða sinna"

Kannski er hægt að snúa þessum orðum upp á Shamir, sem er á svipuðum aldri og Asner. Ég veit reyndar ekkert um heilsu Shamirs, en hann er á lífi og hans þáttur í Deir Yassin fjöldamorðinu var aldrei rannsakaður.


Hvað fór úrskeiðis hjá Hollendingum?

Eftir að Hollendingar rúlluðu upp sínum riðli í EM, sem samanstóð af gull- og silfurhöfum frá síðasta Heimsmeistaramóti, Ítölum og Frökkum, ásamt Rúmenum, en þeir hafa oftast verið með vel spilandi lið, voru margir vissir um að þeir myndu spila til úrslita.

Annað kom á daginn og sprækir Rússar, með hollenska þjálfarann Guus Hiddink í fararbroddi, skelltu frímerki á rassinn á hollensku stjörnunum með 3-1 sigri á þeim og sendu þá niðurlúta heim.

Hvað var það sem gerðist hjá hollenska liðinu? Margar skýringar hafa verið nefndar. Ein er sú að þær þjóðir sem sigruðu í riðlum sínum með yfirburðum og settu hálfgert varalið í síðasta leikinn, hafi dottið úr takti eftir of langa hvíld. Þær náðu ekki aftur því flæði og stemmingu í leik sínum, sem þarf til að halda sér á sigurbraut.

Önnur skýring er persónulegt áfall eins af máttarstólpunum í vörninni, en hann missti dóttur sína, sem var fyrirburi. Eflaust erfitt að rífa sig upp aðeins fáum dögum eftir að hafa fengið slíka ágjöf og mögulegt að áfallið hafi smitað óöryggi yfir í aðra leikmenn. Kannski hefði verið rétt hjá þjálfaranum að setja hann út úr liðinu.

Þriðja skýringin og sú sem mér finnst líklegust, er að Hollendingar hafi verið orðnir of sigurvissir. Spánverjar unnu Rússa 4-1 og við erum ekkert síðri en Spánverjar, gætu þeir hafa hugsað.

Þeir hafa þá gleymt því að útsláttarkeppnin, þar sem allt er undir, er einfaldlega önnur keppni en riðlakeppnin. Lið sem vinna fyrstu leiki sína með svona miklum yfirburðum ná athygli hinna þjóðanna, sem setja allt á fullt við að finna bresti á leik þeirra.

Það má því segja að yfirburðir þjóðar í riðlakeppninni vinni gegn henni í útsláttarkeppninni á vissan hátt. Andstæðingar þeirra eru þá miklu frekar á tánum gegn þeim, þar sem þeir vilja forðast rassskellingu og ekki láta slá sig úr keppninni. Því má treysta að andstæðingarnir mæta enn ákveðnari til leiks gegn yfirburðarliði, en gegn þjóð sem ruslaðist með heppni í gegnum riðilinn.

Það má kannski segja að góð byrjun er ekki ávísun á góðan endi í svona móti. Spánverjar eru síðasta þjóðin sem vann sinn riðil eftir tvær umferðir. Rétt eins og Hollendingar og Portúgalir hafa þeir mörg undanfarin stórmót verið ofarlega í þeim hópi þjóða sem eru taldar geta náð langt, en hafa ekki staðið undir væntingum.

Reka Spánverjar af sér slyðruorðið, eða fara þeir sömu leið og Portúgal, Holland og Króatía og gugna undan væntingunum? Við sjáum það eftir tæpar þrjár klukkustundir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband