Fimmtán ára með fullorðins tónlistarsmekk

YouTube er fyrir löngu orðin vettvangur þeirra sem vilja sýna hæfileika sína í von um frægð, jafnvel heimsfrægð. Þar á meðal eru upprennandi söngvarar eða hljóðfæraleikarar eins og þessi ungi piltur, sem flytur hér lagið Let It Be með Bítlunum og spilar undir á rafmagnspíanó.

Söngurinn hjá honum er fínn, þó hann sé enn í mútum og beri þess merki. Píanóleikinn neglir hann hinsvegar næstum því óaðfinnanlega. Það er hægt að skoða margar fleiri svona vonarstjörnur með því að smella á eitthvað af myndböndunum hægra megin og auðvitað upprunalegu útgáfuna með meistaranum sjálfum, sir Paul McCartney og Bítlunum. Góða skemmtun!

 

 

 

Gaman að skoða kynningarsíðuna, en hans helstu áhrifavaldar eru Bítlarnir, Rolling Stones, Led Zeppelin, Queen, Eric Clapton, Jimi Hendrix, Elton John, Billy Joel, Eddie Van Halen, AC/DC, Aerosmith o.fl. Sannarlega unglingur með þroskaðan tónlistarsmekk.

 


Afætur

Efnahagslíf þjóðarinnar er hrunið og það er grátlegt þegar yfirmenn fást ekki í fjármálastofnanir eins og Seðlabankann, til að rétta þjóðarskútuna af, nema gera himinháar launakröfur. Ímyndið ykkur ef björgunarsveitarmenn kæmu á hamfarasvæði eftir jarðskjálfta og neituðu að hreyfa legg eða lið nema fallist væri á gríðarhá björgunarlaun. Hefðu í raun bara komið til að hagnast á hörmungunum. Hvað myndi ykkur finnast um slíka menn?

Ég er farinn að hallast að því að allir stjórnendur í bönkum séu drullusokkar, eftir að hafa lesið þessa tölvupósta frá Má, þar sem hann hreinlega hótar Jóhönnu Sigurðardóttur illu umtali, verði ekki fallist á kröfur hans. Ef bankamenn eru svona miklir snillingar að þeir þurfa á aðra milljón til að hreyfa á sér rassgatið hvers vegna eru fjármálakerfi heimsins þá meira og minna rústir einar?

Þrátt fyrir að Bjarni Vafningur Benediktsson hafi ekki efni á að kasta steinum úr sínu spillingarglerhúsi, lítur út fyrir að Jóhanna hafi hagrætt sannleikanum, eða logið til um launamál Más Guðmundssonar. Það verður að komast á hreint og ef satt reynist á hún að segja af sér.

 


mbl.is Heimatilbúinn vandi Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vont er þeirra ranglæti...

...verra er þeirra réttlæti.

Mér komu þessi fleygu orð í hug er ég las þessa frétt. Það kemur svo sem ekki mikið á óvart að ráðherra í ríkisstjórn Hollands, ríkis sem hefur brotið nánast allar skráðar og óskráðar reglur í milliríkjasamskiptum með grófum fautaskap og fjárkúgun í Icesave-deilunni gagnvart íslenska ríkinu, skuli fara með svona fleipur.

Hver meðalgreindur maður sér auðvitað að ráðherrann fer með tómar fleipur. Eflaust er hann fullákafur greyið að sýna sig og fá fólk til að halda að hann sé eitthvað. Hann vill væntanlega festa sig í sessi sem fjármálaráðherra nýtekinn við embætti og má kannski virða það honum til vorkunnar.

Verst að það virðist vera einkennandi fyrir bæði hollenska og breska stjórnmálamenn að þeir telja sig vera stóra karla ef þeir sparka í þá sem geta síður varið sig, s.s. smáþjóðir með lítil sem engin áhrif. Sæjum við þennan ráðherra sýna Þýskalandi svona óvirðingu?

Samkvæmt heimasíðu fjármálaráðherrans er hann viðskiptamenntaður enda augljóslega ekki með hvolpavit á alþjóðlegri lögfræði. Það lítur út fyrir að hvorki þekking né menntun í alþjóðastjórnmálum eða -lögfræði sé skilyrði fyrir því að komast áfram í stjórnmálum í Hollandi líkt og hér heima.

Misvitrir stjórnmálamenn í Hollandi og aðrir sem þetta lesa eru hér með upplýstir um að dómstólaleiðin felur í sér málarekstur fyrir dómstólum, ekki pöntuð álit frá opinberum stofnunum kostuðum af þeim sem álitið varðar.


mbl.is Dómstólaleiðin í raun farin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Steingrímur J. Sigfússon nýjasti útrásarvíkingurinn?

Við hér á Íslandi höfum upplifað það að 20-30 gróðafíklar lögðu efnahag landsins í rúst í spilafíkn sinni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þjónar auðvaldsins voru reknir frá völdum með skömm og þeir fengnir til að þrífa upp skítinn sem í orði kveðnu þóttust vera talsmenn hinna vinnandi stétta. Kjörnir til að taka til eftir þá sem voru og eru enn þjónar hinna þiggjandi stétta, arðræningjanna og afætnanna.

Eitt fyrsta verk stjórnmálaflokka alþýðunnar var að senda sínum bestu vinum að eigin sögn, almenningi í landinu, reikninginn fyrir ólifnaði og óreiðu forréttindastéttanna. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur vafið landið í skuldum til að borga út spilafíklana sem keyptu jöklabréfin og endurreisa bankana sem fjárglæpamennirnir rændu innan frá og skildu eftir skuldum vafna. Nú vill hún bæta gráu ofan á svart með því að senda almenningi reikninginn fyrir þjófnaði Landsbankans í Hollandi og Bretlandi í gegnum Icesave reikningana.

Ef það er eitthvað sem við getum lært af hruninu er það einna helst að óvarlegt er að safna það miklum skuldum að til að hægt verði að borga þær verði allt að fara á allra besta veg í fjármála- og viðskiptaþróun umheimsins. Það er gott að vera bjartsýnn en það verður að gera ráð fyrir áföllum og að eitthvað komi upp á sem setur áætlanir úr skorðum.

Steingrímur J. Sigfússon virðist vera jafn sneyddur þessum eiginleika og spilafíklarnir sem settu landið á hausinn. Hann hefur lagt allt kapp á að veðsetja fjölskyldur landsins, gamalmenni, sjúklinga og börn, til að borga spilaskuldir Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Til að keyra í gegn Icesave nauðasamninginn voru búnar til platáætlanir í glansumbúðum stígandi súlurita um mikinn hagvöxt sem byggði á vexti í ferðaþjónustu en einnig orkusölu, ekki til mengandi álvera sem er framför, en gagnavera og ýmiss konar iðnaðar sem er ekki eins orkufrekur.

Í frétt á vefsíðu iðnaðarráðuneytisins kemur fram að Steingrímur hafi verið sem fjármálaráðherra farinn að telja aurana í kassann því útlit hefði verið fyrir frábæra ferðamannavertíð í ár. Síðara eldgosið í Eyjafjallajökli sýnir okkur að forsendur Steingríms og ríkisstjórnarinnar voru byggðar á sandi. Eða ætti maður kannski að segja ösku?

Það er hættulegt að fara í skuldasöfnun sem byggir á óskhyggju. Ríkisstjórnin var og er enn tilbúin og bíður þess færis að veðsetja þjóðina fyrir hinni upplognu Icesave-skuldbindingu ríkisins á grunni áætlana í ríkisjfjármálum sem eru í besta falli byggðar á óskhyggju og í versta falli falsaðar til að blekkja þjóðina til fylgis við skuldahlekkina.

Er þetta hin nýja útrás? Ríkisrekin skuldasöfnun í jafnvel enn meira mæli en hjá útrásarvíkingunum, sem eru sennilega á leið í fangelsi. Og allt byggt á áætlunum sem virðast vera gerðar af fólki sem er ekki í sambandi við raunveruleikann.


Átakanlegt

Átakanlegt að horfa upp á mína gömlu sveitunga kyssa vönd kvótagreifanna. Sjálfstæðisflokkurinn, stærsta deildin í LÍÚ, hefur sprengt áður blómlegan sjávarútveg á Ísafirði í tætlur með blindri þjónkun við húsbændur og eigendur sína í LÍÚ svo þar eru aðeins rjúkandi rústir.

Þetta vita Ísfirðingar en rúmlega 40% þeirra hafa ekki manndóm til að þess að kjósa þessa óværu af öxlum sér og eru fastir við vöndinn sem lemur þá og mun halda áfram að lemja þá, verði það til hagsbóta fyrir LÍÚ-klíkuna. Hrikalegt að horfa upp á þetta.


mbl.is Samkomulag á Ísafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir Bretar í heimsókn - biðja afsökunar á fautaskap stjórnvalda sinna

Tveir Englendingar eru komnir til landsins við þriðja mann, Gústaf Skúlason sem er búsettur í Svíþjóð. Þeir heita Donald A. Martin og Anthony Miller. Þeir bresku hrifust mjög af staðfestunni sem mikill meirihluti þjóðarinnar sýndi með því að hafna nauðungarsamningi Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur, þrátt fyrir úrtölulygar ráðherranna og fylgiliðs þeirra um að atkvæðagreiðslan væri marklaus.

Þremenningarnir munu halda opinn fund í Húsinu, Höfðatúni 12 kl. 20:00 í kvöld, þriðjudag 18. maí. Þess skal geta að Bretarnir munu ekki aðeins fjalla um Icesave-málið. Þeir ætla að kynna nýjar hugmyndir að fyrirkomulagi í bankamálum. Ég tek fram að ég hef ekki kynnt mér hugmyndir þeirra. Fundurinn fer að mestu fram á ensku.

Húsið er við hliðina á Fíladelfíu (nær Hlemmi.) Endilega mætið.


Að gleðjast yfir ógæfu annarra

Ég tek eftir því að kominn er Facebook-hnappur á fréttir á mbl.is þar sem fólk getur smellt ef því líkar einhver frétt, svipað og hægt er að gera þegar ummæli eru látin falla á Facebook-síðunni sjálfri. Þegar þetta er ritað hafa 27 lýst yfir ánægju með fréttina.

Ég skil ekki hvað er ánægjulegt við það að fólk komist ekki ferða sinna og einhverjir missi jafnvel af mikilvægum fundum í viðskiptalegum tilgangi. Gleymum ekki að þeir sem ferðast um breska flugvelli eru fólk eins og við, þar á meðal eru oft margir Íslendingar.

Það hefur aldrei þótt stórmannlegt að hlakka yfir því þegar aðrir verða fyrir óhöppum og iðulega kallað illgirni. Þrátt fyrir að bresk yfirvöld hafi sýnt Íslandi og íslenskum hagsmunum fádæma fautaskap í Icesave-málinu skulum við ekki láta reiði okkar bitna á venjulegum borgurum. Almenningur í Bretlandi andvarpar örugglega jafnmikið yfir sínum stjórnmálamönnum og við yfir okkar.

Annars er Facebook-væðingin á góðri leið með að eyðileggja alla frétta- og umræðumenningu á netinu, en það er efni í aðra færslu.


mbl.is Breskum flugvöllum mögulega lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Jónas Kristjánsson að boða fasisma

Ég les stutta og snarpa pistla Jónasar Kristjánssonar fyrrverandi ritstjóra DV öðru hvoru. Honum tekst  ætíð að segja í nokkrum setningum það sem sumir aðrir vefritarar þurfa fjórar skjáfyllir til að koma til skila.

Hann á það til að ganga fram af fólki og gekk fram af mér í pistli í dag, þar sem hann er að fjalla um refsingar fyrir ofbeldisbrot. Gamli ritstjórinn vill að hinum seku verði hent ofan í gömul og yfirgefin haughús. Jónas segir:

Nóg er til af haughúsum á jörðum, sem komnar eru úr ábúð. Kaupa má eitt slíkt fyrir slikk. Sturta má ólæknanlegum dólgum niður um opið á haughúsinu. Skutla síðan til þeirra vatni og brauði einu sinni á dag. Út í hött er að láta þá ganga lausa til að angra fólk eða fórna dýru fangelsisplássi. Þeir eiga bara að vera í svartholi siðaðri tíma.

Þar hafið þið það. Er þetta ekki góð lýsing á fasisma, eða er karlinn að tapa sér?


Alltaf til peningar eftir að sagt er að engir peningar séu til

Merkilegt þegar það eru allt í einu til nóg af peningum í ríkiskassanum skömmu eftir að ráðherrar eru búnir að lýsa því yfir að engir peningar séu til. Það virðist fara eftir því hverjir biðja um fjárstuðning hvernig staðan er hjá ríkissjóði.

Ekki er nema hálfur mánuður síðan Gylfi Magnússon lýsti því yfir að ekki væri hægt að gera meira til að koma til móts við skuldsetta íbúðareigendur sem eru að flýja úr landi undan vaxtaokrinu þúsundum saman með tilheyrandi skattatapi fyrir ríkissjóð.

Þó þetta séu ekki miklir peningar sem ferðaþjónustan fær þarna sýnir þessi frétt vel forgangsröðina hjá stjórnvöldum. Hún er eins og hjá hrunstjórninni. Fyrst kemur fjármagnið, síðan fólkið ef eitthvað er eftir þegar fjármagnsöflin hafa látið greipar sópa, sem er yfirleitt ekki tilfellið.

Að gefnu tilefni skal tekið fram að þeir sem biðja um leiðréttingu ofvaxinna skulda eru ekki að biðja um ölmusu. Aðeins að dregið verði úr þeim þjófnaði sem heimilin hafa orðið og eru enn að verða fyrir. Raunar er vaxtaokrið ekkert síður vandamál atvinnuveganna, þar á meðal ferðaþjónustunnar.

Þetta virðast ráðandi öfl ekki skilja. Þau kjósa frekar að beita skammtímalausnum og pissa í skóinn en að taka á meininu sem er að drepa sjúklinginn.


mbl.is 700 milljónir króna í markaðsátak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagnaðarefni að ekki sé sjálfgefið að verðtrygging komi í staðinn

Í fréttinni segir:

Miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en ekki megi reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.

Þetta ætti að jarða allar ruglhugmyndir um að gengistryggð lán sem hafa verið dæmd ólögleg verði gerð upp eins og um verðtryggð lán hefði verið að ræða frá lántökudegi.

Það er gleðiefni að dómurinn staðfesti það sem margir hafa sagt, þar á meðal sá sem þetta ritar:

Aðeins gengistryggingin var dæmd ólögleg. Annað í lánasamningunum stendur. Þar með talið vaxtaákvæðin.


mbl.is Ekki heimilt að gengistryggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 105241

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband