Færsluflokkur: Bloggar

Persónunjósnir?

Auglýsendur verja miklum fjármunum í að kortleggja hegðun netnotenda til að geta teppalagt vinsælar heimasíður með auglýsingum.

Ég mæli með Firefox með Adblock fyrir þá sem vilja fá frið til að skoða það sem þeir kjósa að skoða í friði fyrir hinum og þessum sölumönnum sem vilja seilast í veskin þeirra.

Síðan er sniðugt að slökkva á svokölluðum smákökum (á ensku: cookies.) Smákökur eru oft notaðar til að fylgjast með netnotkun fólks, sér í lagi þær sem kallast á ensku tracking cookies. Ég veit ekki hvað þær eru kallaðar á íslensku.


mbl.is Facebook í samstarf við markaðsrannsóknafyrirtækið Nielsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar hærri hér, bara dulbúnir

Skattar eru miklu hærri á Íslandi en í Svíþjóð og Danmörku. Þeir heita bara öðrum nöfnum. Tökum dæmi:

Meðalstór íbúð kostar 20 milljónir. Miðað við 15 milljón króna íbúðarlán eru verðbætur sem leggjast á höfuðstól lánsins fyrsta árið 750 þúsund krónur í 5% verðbólgu og enn meira næstu ár.

Það er u.þ.b. 10% skattur af 7 milljón króna samanlögðum tekjum hjóna, sem bætist ofan á hefðbundna skattprósentu.

Af 2 milljón kr. bílalán eru verðbætur í 5% verðbólgu 100 þúsund krónur. 1,5% til viðbótar þar. Síðan bætast við allskyns opinber þjónustugjöld, sem frjálshyggjusinnaðar ríkisstjórnir hafa lagt á almenning hér á landi, en þekkjast ekki á hinum Norðurlöndunum.

Hærri skólagjöld og þar með hærri námslán sem hvíla á ungu fólki, lóðarkaup og margt fleira mætti tína til. Ég leyfi mér að efast um að raunverulegur skattur sé undir 60% á flesta.


mbl.is Hæstu skattarnir í Svíþjóð og Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athugasemd við færslu Sigurðar Þórs Guðjónssonar

Trúmála eru yfirleitt mjög eldfimt umræðuefni hér á blogginu. Sigurður Þór Guðjónsson, sá annars ágæti bloggari, hefur lag á að kynda upp í þeim arni. Fyrir fáeinum dögum skrifaði hann færslu um að ekkert væri að marka Biblíuna. Rökin fyrir því voru að mér virðist einna helst þau að Gunnar í Krossinum er skilinn við konuna sína.

Hvernig Sigurður Þór kemst að því að ekkert er að marka eitthvað trúarrit, ef einhver sem starfar við að prédika boðskapinn fer ekki eftir honum sjálfur, er mér hulin ráðgáta. Fyrir mörgum árum síðan var dómari einn tekinn ölvaður undir stýri. Það er greinilega ekkert að marka umferðarlögin.

Ég beið greinilega of lengi með að blanda mér í umræðuna, því Sigurður Þór hefur lokað fyrir athugasemdir. Honum hefur sjálfsagt þótt nóg komið, en ég kem þá bara minni athugasemd á framfæri hérna.

Sigurður Þór vitnar í bókina sem er ekkert að marka, 19. kafla Matteusarguðspjalls, 3.-6. vers nánar tiltekið:

Þá komu til hans farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: "Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?"

Hann svaraði: "Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."

Af þessum tveimur málsgreinum dregur Sigurður Þór þá niðurstöðu að ekkert sé að marka hinar 1.200 (eða svo) blaðsíður Biblíunnar. Það er rétt að skoða hvernig þetta samtal Jesú við faríseana endaði:

Þeir segja við hann: "Hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?"

Hann svarar: "Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig. Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór."

Þá sögðu lærisveinar hans: "Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast."

Hann svaraði þeim: "Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið. Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær."

Frelsarinn ítrekar að hjónabandið er ekki léttvægur sáttmáli, en gerir sér grein fyrir breyskleika mannanna. Hinsvegar er ljóst af niðurlagi þessara orða að hjónaband sem heppnast er gjöf frá Guði. Það er hann sem gefur bæði konunni og karlinum hæfileika til að elskast og búa saman í sátt og samlyndi.

Eðlilega vekur athygli þegar harðir trúboðar eins og Gunnar stíga þetta óheillaskref. Við erum hinsvegar mannleg. Lög falla ekki úr gildi við það eitt að prófessorar við Háskólann brjóti þau.

Það verður síðan ekki tekið af Gunnari, þrátt fyrir harðan boðskap hans, að hann hefur prédikað fyrirgefninguna í Jesú Kristi. Hann á jafnmikinn kost á henni og aðrir.


Fjölmennur og kraftmikill borgarafundur Hagsmunasamtaka heimilanna

Opinn borgarafundur Hagsmunasamtaka heimilanna í gær, fimmtudag 17. september, heppnaðist vel. Það er greinilegt að mikill hiti er í fólki vegna ósvífinnar framkomu stjórnvalda og fjármálastofnana gegn helstu stoðum verðmætasköpunarinnar í landinu, heimilunum og sjálfstæðum atvinnurekendum.

Halldór Sigurðsson var með tökuvélina á lofti, sem er meira en hægt er að segja um launaða fjölmiðlamenn Stöðvar 2 og RÚV. Afraksturinn má sjá með því að smella hér. Hafðu kæra þökk fyrir, Halldór.

Jafnframt þakka ég öllum sem mættu á fundinn og hvet fólk til að standa saman gegn óréttlætinu. Hægt er að skrá sig í samtökin á þessari síðu.


Mynd af konu með gólftusku hefði passað

Mynd af konu með gólftusku hefði passað betur við þessa frétt. Þessi svokölluðu verkalýðsfélög og heilbrigðisstofnanir eru að skúra gólfið með starfsfólkinu.

Þessar hækkanir eru innan við 10% á rúmu ári af lægstu launum og ekkert af launum yfir 210 þúsundum. Verðbólga mælist um þessar mundir 10,9%. Þetta er því enn ein kjararýrnunin, ofan á gegndarlausar hækkanir vaxta og verðbóta á lánum, að ég tali ekki um erlendu lánin.

Ef þetta er ekki merki um liðónýta verkalýðshreyfingu veit ég ekki hvað.


mbl.is Samið um kjör ófaglærðra heilbrigðisstarfsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er EKKI val einstaklinganna hvort þeir reykja...

...nema þeirra sem anda í gegnum annan lofthjúp en þann sem við þekkjum sem lofthjúp jarðar. Þeir sem reykja menga loftið fyrir öðrum. Ég hélt að heimdellingar væru allavega nógu greindir til að skilja það.
mbl.is Heimdallur andvígur sölubanni á tóbaki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn sem fer í kringum eigin stefnu

Nýlega samþykkti Alþingi lög sem eiga að tryggja að enginn embættismaður eða yfirmaður opinberrar stofnunar hefði hærri laun en forsætisráðherra, nema forseti Íslands (já frábært.) Það er í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar á sínum tíma um að tekið yrði á ofurlaunum í opinbera geiranum.

Nú ber svo við að sérákvæði í nýjum lögum geri bankaráði Seðlabankans kleift að greiða hærri laun en forsætisráðherra Íslands hefur. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Í lögunum er sérákvæði um að bankaráð Seðlabankans ákveði þóknun fulltrúa í peningastefnunefnd.

Vandamálið er að seðlabankastjóri situr jafnframt í peningastefnunefnd. Hann fær því laun fyrir setu í nefndinni auk þeirra launa sem hann fær fyrir að stjórna Seðlabankanum. Þannig geta laun hans numið talvert hærri fjárhæð en forsætisráðherra hefur.

Það glittir ekki í löngutöng yfirvalda gagnvart almenningi í landinu. Hún er alveg uppi í andlitinu á okkur. Fer ekki að verða komið nóg? Annað hvort er þetta lið í ríkisstjórninni svona heimskt að hafa ekki gert ráð fyrir þessu, eða ætlunin var aldrei að efna þetta loforð stjórnarinnar. Ég hallast frekar að því síðarnefnda.

Á sama tíma og því er lýst yfir að ekkert sé hægt að gera til að bjarga heimilunum frá afglöpum núverandi og fyrri ríkisstjórna í efnahagsmálum er haldið áfram að hlaða undir afturendann á útvöldum gæðingum, oft sama fólkinu og ber mesta ábyrgð á að efnahagslífið er hrunið.

Ég tek undir yfirlýsingu Hagsmunasamtaka heimilanna. Jóhanna og Steingrímur hafa sagt að björgun heimilanna megi ekki kosta neitt. Hagsmunasamtökin snúa þessu við og benda á að björgun bankanna megi ekki kosta heimilin neitt. Þau séu nú þegar komin að fótum fram. Sjá yfirlýsinguna hér.

Loks vil ég hvetja alla sem eru búnir að fá nóg af þjösnaskap yfirvalda og fjármálastofnana gagnvart heimilum landsins til að mæta á borgarafund Hagsmunasamtaka heimilanna á morgun, fimmtudaginn 17. september kl. 20:00 í Iðnó.


Söfnun: Aukum varaforða Seðlabankans

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra bresku ríkisstjórnarinnar, telur nauðsynlegt að auka varaforða Seðlabankans, til að krónan okkar hrynji ekki enn frekar en orðið er.

Sumir taka undir, t.d. þessi, en aðrir eru ekki eins sannfærðir. Ég hef enga skoðun á málinu og ætla bara að treysta því sem okkar ágætu stjórnarherrar fullyrða.

Ég hef hinsvegar heyrt að málið sé ekki svo einfalt að hægt sé að koma upp varaforða svona einn, tveir og þrír. Ríkissjóður þarf að sjá um það, en hann er víst alveg galtómur og ræður ekki við verkefnið nema með því að taka stjarnfræðilega há lán í útlöndum.

Þess vegna hef ég ákveðið að hrinda af stað söfnun meðal landsmanna undir heitinu

 

Aukum varaforðann

 

Koma nú góðir landsmenn! Styrkið gott málefni! Margt smátt gerir eitt stórt.

Ég skal byrja með þessu rausnarlega framlagi:

 

 


 


Stríð Íslands

Egill Helgason spyr hvort Ísland sé í stríði. Ég fullyrði að íslensku þjóðinni hefur verið sýnt tilræði. Þar með hljótum við að vera í stríði, sem við reyndar báðum ekki um, allavega ekki sá sem hér ritar.

Staðan er sú að bankakerfið er í rúst, atvinnuvegir, heimili og sveitarfélög hafa þurft að horfa upp á lán og greiðslubyrði tvöfaldast. Þeir sem eru svo heppnir (eða þannig) að vera með verðtryggð lán skulda 30-40% hærri fjárhæð en fyrir nokkrum árum síðan. Gjaldmiðill okkar hefur hrunið gagnvart helstu viðskiptalöndum okkar.

Hvað er þetta annað en árás á efnahagslíf landsins? Ég er samt ekki alveg tilbúinn að trúa fullyrðingum Johns Perkins og Michaels Hudson um að við höfum orðið fyrir árás efnahagsböðuls. Getur þetta verið verk eins manns?

Það er mjög mikilvægt í stríði að ganga ekki í lið með óvinunum, þeim sem annaðhvort eru beinir orsakavaldar að því sem gerst hefur, eða vilja nærast á ógæfu okkar. Vörumst það.

island_stungid


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband