Trúmála eru yfirleitt mjög eldfimt umræðuefni hér á blogginu. Sigurður Þór Guðjónsson, sá annars ágæti bloggari, hefur lag á að kynda upp í þeim arni. Fyrir fáeinum dögum skrifaði hann færslu um að ekkert væri að marka Biblíuna. Rökin fyrir því voru að mér virðist einna helst þau að Gunnar í Krossinum er skilinn við konuna sína.
Hvernig Sigurður Þór kemst að því að ekkert er að marka eitthvað trúarrit, ef einhver sem starfar við að prédika boðskapinn fer ekki eftir honum sjálfur, er mér hulin ráðgáta. Fyrir mörgum árum síðan var dómari einn tekinn ölvaður undir stýri. Það er greinilega ekkert að marka umferðarlögin.
Ég beið greinilega of lengi með að blanda mér í umræðuna, því Sigurður Þór hefur lokað fyrir athugasemdir. Honum hefur sjálfsagt þótt nóg komið, en ég kem þá bara minni athugasemd á framfæri hérna.
Sigurður Þór vitnar í bókina sem er ekkert að marka, 19. kafla Matteusarguðspjalls, 3.-6. vers nánar tiltekið:
Þá komu til hans farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: "Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?"
Hann svaraði: "Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."
Af þessum tveimur málsgreinum dregur Sigurður Þór þá niðurstöðu að ekkert sé að marka hinar 1.200 (eða svo) blaðsíður Biblíunnar. Það er rétt að skoða hvernig þetta samtal Jesú við faríseana endaði:
Þeir segja við hann: "Hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?"
Hann svarar: "Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig. Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór."
Þá sögðu lærisveinar hans: "Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast."
Hann svaraði þeim: "Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið. Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær."
Frelsarinn ítrekar að hjónabandið er ekki léttvægur sáttmáli, en gerir sér grein fyrir breyskleika mannanna. Hinsvegar er ljóst af niðurlagi þessara orða að hjónaband sem heppnast er gjöf frá Guði. Það er hann sem gefur bæði konunni og karlinum hæfileika til að elskast og búa saman í sátt og samlyndi.
Eðlilega vekur athygli þegar harðir trúboðar eins og Gunnar stíga þetta óheillaskref. Við erum hinsvegar mannleg. Lög falla ekki úr gildi við það eitt að prófessorar við Háskólann brjóti þau.
Það verður síðan ekki tekið af Gunnari, þrátt fyrir harðan boðskap hans, að hann hefur prédikað fyrirgefninguna í Jesú Kristi. Hann á jafnmikinn kost á henni og aðrir.