Færsluflokkur: Bloggar

Fjármálageirinn - sprungin blaðra

Ég var alltaf á móti því að fjármálageirinn þandist út eins og hann gerði þó ýmsir sem þóttust vita hvað þeir væru að segja fullyrtu að hann myndi og ætti að vera einn af máttarstólpum hagkerfisins.

Ástæðan er einfaldlega sú að það er lítil sem engin verðmætasköpun í fjármálageiranum, ólíkt sjávarútvegi, ýmsum smáiðnaði og stóriðju.

Hvaða vit er í því að stofnuð séu endalaust ný pappírsfyrirtæki til þess eins að sýsla með verðbréf í öðrum félögum, oftar en ekki öðrum pappírsfyrirtækjum?

Hvað skyldi mörg þúsund manns hafa starfað við það eitt að skrá, kaupa og selja skulda- og hlutabréfin sem nú eru orðnir verðlausir pappírar?

Við þurfum að hafa einhverja fjármálastarfsemi, fáeina banka á stærri þéttbýlisstöðum, til að veita atvinnulífinu nauðsynlega þjónustu, en þegar fjármálageirinn er orðinn að bákni sem snýst í kringum sjálft sig er hann orðinn baggi á þjóðfélaginu.

Það var bara tímaspursmál hvenær blaðran spryngi.


Enn grófari spilling og sérhagsmunagæsla í uppsiglingu?

Það lítur ekki út fyrir að liðið sem sökkti landinu hafi lært nokkuð af afglöpum sínum. Orðrómur er uppi um að það sé verið að vinna í því í nýju bönkunum, ríkisbönkunum, að fella niður skuldir vegna hlutabréfakaupa hjá starfsmönnum gömlu bankanna.

Þetta kemur fram á bloggi Egils Helgasonar:

Mikill fjöldi starfsmanna hefur keypt hlutabréf gegn láni (og þá helst erlendu) á undanförnum árum og jafnvel stuttu fyrir hrunið. Innan bankanna er unnið að því hörðum höndum að leysa úr þessari flækju og losa fólk undan þessari skuldbindingu - ástæðan er m.a. sú að starfsmenn sem tapa öllu og verða gjaldþrota mega ekki vinna hjá bankanum.

Á sama tíma og þetta er gert hækka íbúðarlán annarra landsmanna stjórnlaust, ríkið gerir ekkert nema bjóða gálgafrest og útlit er fyrir að tugþúsundir verði á götunni bráðlega.

Þegar skemmtiferðaskipið fræga Titanic var að sökkva læstu skipverjar fátæklingana inni á þriðja farrými með járnhliði meðan yfirstéttin raðaði sér og sínum í björgunarbátana. Á sama hátt ætla stjórnvöld að bjarga gæludýrum sínum meðan alþýða landsins er hneppt í skuldafjötra ásamt börnum sínum og barnabörnum um ókomna tíð.

Hvers konar drulluhalar eru eiginlega við stjórnvölinn á þessu skeri? Ég hvet alla til að mótmæla og láta heyra í sér. Ekki láta þetta lið komast upp með svona grófa mismunun átölulaust.


Undir sama dómi

Þegar Jesús var krossfestur voru tveir ræningjar krossfestir sinn hvoru megin við hann. Frásögnin er í 23. kafla Lúkasarguðspjalls, 39-43 versi:

Annar þeirra illvirkja sem krossfestir voru hæddi hann og sagði: „Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!“ En hinn ávítaði hann og sagði: „Hræðist þú ekki einu sinni Guð og ert þó undir sama dómi? Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gerðir okkar en þessi hefur ekkert illt aðhafst.“ Þá sagði hann: „Jesús, minnst þú mín þegar þú kemur í ríki þitt!“ Og Jesús sagði við hann: „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“

Þessir ræningjar sem krossfestir voru með Jesú áttu það sameiginlegt að hafa farið illa að ráði sínu í lífinu fyrst endalokin voru á þennan veg. Sá fyrri hefur greinilega vitað að Jesús hafði prédikað að hann væri hinn smurði Messías, sá sem spámennirnir höfðu boðað að myndi frelsa lýð sinn frá syndum þeirra, eins og segir í Matteusarguðspjalli 1:21.

Hann virðist hinsvegar ekki hafa trúað því að Jesús væri sá sem hann sagðist vera. Allavega sá hann ekki að hann þyrfti að iðrast misgjörða sinna. Hann gerði sér grein fyrir því að líf hans væri á enda, en gerði sér ekki grein fyrir því hvers vegna hann hlaut þessi örlög.

Viðbrögð hans eru í ætt við afstöðu margra efahyggju- og vantrúarmanna. "Ertu ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!" sagði ræninginn. Efahyggjumenn spyrja oft hvers vegna miskunnsamur Guð bindi ekki enda á hörmungar mannkynsins, hungursneyðir, styrjaldir, sjúkdóma o.s.frv. ef hann er til.

"Hræðist þú ekki einu sinni Guð og ert þó undir sama dómi?" Með þessari spurningu er ræninginn að lýsa yfir þeirri trú sinni að Jesús sé Guð. Ræningjarnir fengu sama dóm og Jesús, krossfestingu. Hann bendir síðan félaga sínum á að þeir fengu einfaldlega það sem þeir áttu skilið, ólíkt Jesú sem var krossfestur saklaus.

Þessi saga sýnir að það er jafnvel hægt að öðlast fyrirgefningu syndanna á lokamínútum lífsins. Guð er miskunnsamur. Það er samt óráðlegt að fresta afturhvarfi sínu og treysta óvissri dauðastund eins og Hallgrímur Pétursson orti í Passíusálmunum.

 


Hvar eru upplýsingarnar?

Getur einhver sagt mér hvar upplýsingar um viðskipti og verð á gjaldeyrismarkaði eru á vef Seðlabankans? Ég sá þær hvergi.
mbl.is Seðlabankinn reynir að efla gjaldeyrismarkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við heimtum vinnu

Við heimtum aukavinnu segir í þekktum dægurlagatexta þeirra Jónasar og Jón Múla Árnasona um miðja síðustu öld. Nú er öldin önnur, réttara sagt tuttugasta og fyrsta og söngurinn sem kveður við er þessi: Við heimtum vinnu. Fjöldauppsagnir eru ýmist skollnar á eða vofa yfir.

Atvinnuleysi er böl. Ég hef sjálfur verið atvinnulaus og veit það af eigin reynslu. Er það hinsvegar ráðlegt að hugsa aðeins um að skapa atvinnu handa öllum? Skiptir verðmætasköpunin að baki vinnunni kannski engu máli?

Fjármálageirinn þandist gríðarlega út á árunum 2000-2008. Það var hinsvegar lítil verðmætasköpun í þeim geira, eins og komið hefur í ljós. Greinin byggðist að miklu leyti á skúffufyrirtækjum sem voru mörg hver aðeins til í skrám Hagstofunnar og í bókhaldi eigendanna. Engin starfsemi fór fram í þeim og þar með engin verðmætaaukning. Þessi sýndarveruleikafyrirtæki keyptu hvert í öðru og þöndust út af fölsku eigin fé til að blekkja lánastofnanir.

Uppbyggingin á árunum 1971-1991, framsóknaráratugnum svonefnda, var öðruvísi. Þá voru keyptir eða smíðaðir togarar og frystihús reist um allt land í kjölfar útfærslu landhelginnar í 200 mílur. Þessar fjárfestingar skiluðu miklum verðmætum inn í þjóðarbúið í formi gjaldeyris fyrir seldar sjávarafurðir, þrátt fyrir að óneitanlega fóru margir of geyst í fjárfestingum.

Það er mikill munur á þessum tveimur hagsældartímabilum. Raunveruleg verðmæti voru sköpuð í fyrra skiptið, sjónhverfingar á seinna tímabilinu.

Störf sem sköpuð eru verða að gefa af sér einhver verðmæti. Annars eru þau baggi á þjóðarbúinu og að því leytinu lítið skárri en atvinnuleysi.


Nýja klukkið

Bloggvinur minn, Guðsteinn Haukur, klukkaði mig fyrir nokkrum dögum og þó seint sé ætla ég nú loks að taka áskoruninni. Linda bloggvinkona mín fann upp þetta nýja klukk, sem felst í að nefna 10 atriði sem maður er þakklátur fyrir. Kann ég henni bestu þakkir fyrir gott framtak.

Tíu atriði sem ég er þakklátur fyrir:

  1. Að ég sé á lífi (hefur nokkrum sinnum munað mjóu.)
  2. Að vera við góða heilsu.
  3. Að eiga trú á Drottin Jesú Krist.
  4. Að hafa atvinnu.
  5. Að eiga þak yfir höfuðið.
  6. Að eiga góða bloggvini.
  7. Að eiga góða ættingja.
  8. Að búa úti á landi.
  9. Að ég búi samt frekar nálægt höfuðborginni.
  10. Að ég búi á landi þar sem auðvelt er að komast í ósnortna náttúrufegurð.
  11. Að ég eigi (eða skuldi) þokkalegan jeppa sem ég kemst á upp á fjöll og ýmsa áhugaverða staði.

Ég sem hélt að ég fyndi aldrei tíu atriði, en tókst að finna ellefu. Ég klukka bara hvern sem þetta les, það er hvort eð er búið að klukka flesta sem ég ætlaði að klukka sjálfur!

 


Rífur Guð niður brýr?

Það var mjög einkennileg mynd í sjónvarpinu í kvöld. Myndin, sem á að gerast í Perú á 18. öld, segir frá presti sem er sendur til að rannsaka hvort almættið hafi átt hlut að máli þegar göngubrú hrundi og fimm manns fórust.

Þrátt fyrir að skarta Robert de Niro, Kathy Bates og nokkrum fleiri stórum nöfnum í lykilhlutverkum skorar myndin ekki hátt að mínu mati. Þær spurningar sem myndin vekur upp eru aftur á móti alltaf áleitnar.

Eru örlög hvers manns ákveðin af æðri máttarvöldum, eða skapa menn sér sína eigin gæfu? Í mynd þessari tekur prestur af reglu Franskiskumunka það að sér að yfirheyra nokkrar lykilpersónur í lífum þeirra sem fórust er perúska brúin hrundi í þeim tilgangi að fá svör við svona guðfræðilegum spurningum.

Margir vilja kenna Guði um öll þau óhöpp og ógæfu sem mannkyn þarf að þola. Þær persónur sem létu lífið í brúarslysinu í áttu það sameiginlegt að vera hið vænsta fólk sem lífið hafði leikið grátt.

Lexían sem hægt er að læra af myndinni er einna helst að fara aldrei yfir brýr nema maður sé viss um að hún þoli áganginn. Þessi göngubrú, sem lá yfir djúpt gil, var ofin úr bambusvið að því er mér sýndist. Hún var álíka traustvekjandi og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar íslensku.

Ég álít hinsvegar ekki að Guð klippi í sundur brýr að gamni sínu.


Spaugstofan axli ábyrgð

Mikið er talað um að hinir og þessir þurfi að axla ábyrgð, ríkisstjórnin, Seðlabankinn, forsetinn, Fjármálaeftirlitið, kjósendur fyrir að hafa kosið vitlaust og þannig má lengi telja.

Eftir þátt Spaugstofunnar í kvöld vil ég bæta þeim fjórmenningum í hópinn. Þeir voru hrikalega slappir og það sést á svipnum á þeim að þeir myndu miklu frekar vilja vera heima hjá konunni og börnunum (ef þau eru ekki farin að heiman.)

Ríkisgrínskútan hefur fyrir löngu siglt upp á sker, það má jafnvel segja að það séu mörg ár síðan.

Ég held að blessaðir grínistarnir í Spaugstofunni, algjörlega þurrausnir, þurfi að taka pokann sinn. Mín vegna mætti leggja sjálft Ríkissjónvarpið niður.


Blaðurmannafundur

Það kom mjög lítið út úr þessum svokallaða blaðamannafundi, réttara að kalla þetta blaðurmannafund.

Ég vil fá svör við þessum spurningum:

  1. Hvaða vaxtakjör eru á láninu?
  2. Í hvað fara peningarnir, nákvæmlega?
  3. Hvað kostar lánið hvern skattgreiðanda?
  4. Hvað er krónan farin að kosta okkur miðað við ESB-aðild? Ég veit að hún er ekki ókeypis, þar sem við fáum allt fyrir ekkert, en gerum almennilegan samanburð. Talnaglöggir menn sem ljúga ekki með tölum gefi sig fram.

Það er verið að leggja gríðarlegar álögur á fólk vegna ónýts gjaldmiðils, m.ö.o. ónýtrar efnahagsstefnu.


mbl.is Áfram rætt við Rússa um lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 105157

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband