Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Gylfi lýgur, þekkir ekki lögin eða gengur erinda auðvaldsins

Það er ekkert nýtt að Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sé að troða réttindi almennings í landinu undir fótum sér. Hjarta hans virðist ekki slá með neinum öðrum en gjörspilltum fjármagnsöflunum, sem hafa rænt land og þjóð flest öllum verðmætum, spilað þau úr buxunum í spilavítum auðvaldsins og sent skattgreiðendum reikninginn fyrir skuldunum sem eftir sitja.

Ég trúi því allavega ekki að maður í einu af æðstu embættum ríkisins þekki ekki lögin sem hann var skipaður til að framfylgja. Lög um vexti og verðtryggingu hafa eftifarandi að segja um almenna vexti:

 

II. kafli. Almennir vextir.


3. gr. Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.


4. gr. Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

 

Í lánasamningum gengistryggðu lánanna er nær undantekningarlaust kveðið á um að vextir skulu svokallaðir LIBOR-vextir að viðbættu álagi bankanna, sveiflast eitthvað en oftast á bilinu 2-4%. Hundraðshluti vaxtanna er þannig tiltekinn. Orðalagið í ákvæðinu hér að ofan kveður skýrt á um að ákvæðið um almenna vexti af láni eigi aðeins við þegar ekki kemur fram í lánasamningnum hvernig vextir skuli reiknaðir.

Skoðum síðan hvað lögin segja um hvað skuli gera þegar brot á þeim eiga sér stað:

 

VII. kafli. Viðurlög og málsmeðferð.


17. gr. Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.
18. gr. Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.

 

Takið eftir því að aðeins er fjallað um hvað skuli til bragðs taka þegar lántakandi hefur greitt of mikið. Það er ekki einu orði minnst á hvaða rétt lánastofnanir hafa til vaxtaákvörðunar þegar þau hafa brotið gegn lögunum í starfsemi sinni! Enda rökrétt, því réttindi þeirra sem brotið er gegn eru alltaf mikilvægari en réttur lögbrjótanna sjálfra. Þó þeir síðarnefndu hafi að sjálfsögðu ákveðin grundvallarréttindi.

Því miður Gylfi minn, þetta er óskhyggja hjá þér að þú getir troðið á réttindum lántakenda til að bjarga gæludýrunum þínum, fjármagnseigendum. Lögin eru skýr.


mbl.is Líklegt að vextir Seðlabanka gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur

Gott mál, það er þá ekki svo að réttlætið geti ekki náð fram að ganga á þessu landi.
mbl.is Gengistryggingin dæmd óheimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimilin eru gefendur, ekki þiggjendur

Svar ráðherrans sýnir okkur svart á hvítu að heimilin í landinu eru látin borga spilaskuldir útrásarliðsins. Afraksturinn af því nota útrásargreifarnir til að búa áfram í sínum glæsihöllum í London eða öðrum stórborgum og lifa óáreittir í makindum á kostnað skattgreiðenda. Allt í boði fulltrúa alræðis öreiganna, Steingríms J. Sigfússonar.

Þessar upplýsingar ættu líka að þagga í þeim sem bera út þær lygar að lántakendur séu að heimta að aðrir borgi fyrir þá skuldirnar. Heimilin eru nú þegar að borga fyrir endurreisn bankanna, næstum 400 milljarða aðeins vegna Seðlabankans og endurfjármögnunar bankanna föllnu.

Þetta eru peningar sem eru teknir af skatttekjum ríkisins. Hvaðan koma þeir peningar, annarsstaðar frá en úr vösum heimilanna og fyrirtækjanna? Á bak við hvert fyrirtæki stendur vitanlega a.m.k. eitt heimili.

Þegar talað er um að létta byrðum af skuldsettum heimilum er aðeins verið að tala um að minnka féflettinguna sem er í gangi í þeirra garð. Vonandi fara þeir sem tala af yfirlæti og fyrirlitningu um þá sem eru í skuldavanda að skilja þetta.


mbl.is Kostar hvern íbúa 551.000 kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú hlýtur maðurinn að eiga skaðabótakröfu á íslenska ríkið

Eða er ekki allt tap Hollendinga og Breta af viðskiptum við Ísland eða Íslendinga á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda? Allavega er verið að þvinga íslenska ríkið til að borga sparifjáreigendum í Bretlandi og Hollandi tap upp á fleiri hundruð milljarða vegna íslensks banka í einkaeigu sem starfaði þar og fór á hausinn.

Við getum því átt von á að Steingrímur J. leggi fram lagafrumvarp á Alþingi til að dreifa tapi þessa ógæfusama manns á íslenska skattgreiðendur. Annað væri slæm landkynning og kæmi vondu orðspori á Ísland.

Þá gætu útlendingar farið að halda að við ætlum að hlaupast undan "alþjóðlegum skuldbindingum" okkar og hætta að ferðast til landsins.


mbl.is Tapaði vegabréfi og peningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algeng rökvilla Icesave-borgunarsinna

Það væri of langt mál að rekja og leiðrétta allar rökvillur þeirra, en ein er algengari en aðrar. Í rökfræðinni er sagt að þó ákveðna ályktun megi draga af einhverri forsendu, er ekki þar með sagt að hægt sé að álykta hið gagnstæða, ef þessi sama forsenda er ekki fyrir hendi.

Þetta kallar á frekari útskýringar. Segjum að A sé einhver forsenda og B sé niðurstaða eða ályktun. Ef við gefum okkur að fullyrðingin

Ef A þá B

sönn, leiðir það ekki til þess að fullyrðingin

Ef ekki A þá ekki B

sé sönn.

Upphaflega fullyrðingin segir aðeins að ef skilyrði A er fullnægt gildir B. Hún segir ekkert til um B ef skilyrði A er ekki til staðar.

Skoðum hvernig þetta kemur út í umræðunni um Icesave. Mikið hefur verið vitnað í kafla úr tilskipun nr. 94/19 frá ESB um innistæðutryggingar, en þar segir efnislega:

Ef ríki hefur séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum sem tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu [forsenda A í dæminu hér á undan]...

...eru aðildarríkin ekki ábyrg gagnvart innstæðueigendum [ályktun B í dæminu.]

Samkvæmt þessu lögmáli rökfræðinnar er rangt að álykta að fyrst íslenska ríkið sá ekki til þess að koma á fót tryggingarkerfi sem tryggði innistæður við fall Landsbankans sé það ábyrgt gagnvart innistæðueigendum hans (þ.e., ef ekki A þá ekki B.)

En því miður virðast menn hafa mismikla hæfileika til að draga ályktanir. Það kemur vel í ljós í Icesave málinu.

Ef einhver hefur ekki náð þessu er fín grein um þessa tegund rökvillu á íslenska Wikipedia vefnum.


Er verið að lögleiða lögbrot?

Þessi umræða sem er í gangi um lánavanda einstaklinga og fyrirtækja er frekar galin. Það vantar aldrei snillingana sem hafa gert þá merku uppgötvun að einhverjir keyptu dýra jeppa og skuldsettu sig úr hófi fram. Allir þessir snillingar virðast telja hver fyrir sig að hann sé sá fyrsti sem gerir þessa merku uppgötvun, þrátt fyrir að þessi söngur hafi glumið í eyrum okkar og á vefmiðlum í eitt og hálft ár.

Við vitum öll að sumir fóru óvarlega. En þarf það að verða til þess að ekkert megi gera fyrir þá sem eru í skuldafjötrum, aðallega vegna forsendubrests af völdum óábyrgra bankamanna sem tóku stöðu gegn gjaldmiðli sinnar eigin þjóðar og settu efnahagslífið á hliðina?

Annars er þetta útspil Árna Páls alveg furðulegt. Það er eins og hann hafi gleymt því að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði nýlega að myntkörfulán á vegum Lýsingar hafi verið ólöglegt. Er félagsmálaráðherrann að koma lánastofnunum undan armi laganna? Það lítur út fyrir það.

 

Viðbót - nýjar upplýsingar

 

Árni Páll hefur nú lýst því yfir að fyrirhugaðar aðgerðir muni aldrei taka betri rétt af lánþegum sem tekið hefðu lán, dæmdu dómstólar þeim í hag.

Ég vil síðan eindregið hvetja alla til að lesa  ítarlegri færslu Samtaka lánþega um þetta útspil félagsmálaráðherrans. Þar er réttilega bent á að tapaðir fjármunir vegna útlána til bifreiðaeigenda muni lenda á herðum skattgreiðenda ef leið ráðherrans er farin. Verði hinsvegar dómstólar látnir skera úr um lögmæti gengistryggðu lánanna muni tjónið lenda á kröfuhöfum fjármögnunarfyrirtækjanna, eins og venjan er þegar annars konar rekstraraðilar fara í gjaldþrot.

 


mbl.is Lán dýrra bíla afskrifuð mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrægammarnir komnir af stað

Margir hafa verið að spá verðhruni á fasteignamarkaði nú þegar gjaldþrot fara að hellast yfir vegna þess að tugþúsundir fjölskyldna geta ekki staðið undir áhvílandi skuldum. Hrun krónunnar og verðbólguskriðan í kjölfarið hafa gert skuldirnar óviðráðanlegar, auk þess sem fjöldamargar fjölskyldur hafa tekið á sig launalækkanir, jafnvel atvinnuleysi.

Skjaldborgarríkisstjórnin (eða réttara sagt skjaldbökuríkisstjórnin þegar kallað er eftir lausnum fyrir skuldsett heimili og atvinnulíf) hefur síðan bætt gráu ofan á svart með kæfandi skattahækkunum.

Ein afleiðingin af verðhruni á íbúðarhúsnæði sögðu menn að yrði sú að fjársterkir aðilar myndu bíða eftir að verðið lækkaði og falast þá eftir húseignum skuldsettra heimila á hrakvirði.

Þessi auglýsing birtist á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu í gær, laugardaginn 13. mars. Ljóst er að þessi einstaklingur (eða fyrirtæki) er loðinn um lófana fyrst hann býður staðgreiðslu.

 

auglfrettabl

 

Gæti hugsast að þarna sé á ferð einn af þeim sem átti feita innistæðu á bankabók er hann fékk bætta við hrun bankanna úr vösum skattgreiðenda, þar á meðal þeirra sem eru að missa húsin sín?

Það tók ríkisstjórn Geirs Haarde aðeins fáeinar mínútur að bjarga innistæðueigendum, en yfirvöld hafa ekkert gert í eitt og hálft ár vegna lánavanda heimilanna, annað en að lengja í hengingarólum og fresta uppboðum.

Þetta er þjónustan sem þú færð ef þú ert að missa húsið vegna stökkbreyttra lána af völdum glórulausrar efnahagsstjórnunar banka, fjármögnunarfyrirtækja og stjórnvalda. Í boði þeirra sömu banka, fjármögnunarleigufyrirtækja og stjórnvalda og stóðu fyrir þessari glórulausu efnahagsstjórnun:

Húsið er hirt af þér og gefið samlanda þínum (sem gæti verið kunningi þinn) er var svo heppinn að eiga pening inn á bankabók.

 


Aumur kattarþvottur

Framkvæmdarstjórinn kemst ekki framhjá þeirri staðreynd að samtök hans lýstu því yfir og hann skrifaði undir, að lög um vexti og verðtryggingu leyfðu ekki tengingu lána í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Sjá nánar um það í fyrri færslu minni hér.

Á sama tíma eru umbjóðendur framkvæmdastjórans að siga pabba hans á lántakendur vegna ólöglegra lána að mati sonarins. Hvað er erlent lán? Svarið er hér. Fæst ef nokkur af lánum Guðjóns og félaga eru erlend lán.


mbl.is Telur sig ekki hafa verið tvísaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan og okurvextir - Síamstvíburar?

Jón Steinsson, ungur lektor í hagfræði, hefur sent frá sér enn eina snilldarúttektina á peningamálum okkar hrunda efnahagslífs. Greinin hefst á því að höfundur segir bankahrunið á Íslandi stærstu efnahagskreppu allra tíma.

Núverandi upplýsingar benda til dæmis til þess að eignarýrnun í bankakerfinu frá því fyrir hrun sé um 4.200 ma.kr. eða um 280% af VLF. Á þennan mælikvarða er hrunið á Íslandi fimm sinnum stærra en næststærsta hrun allra tíma (Indónesía, 1998).

Síðan segir hann að þrátt fyrir að krónan hafi gert stjórnmálamönnum kleift að bjarga atvinnulífinu með því að láta gengið falla og rýja þannig almenning inn að skinninu (mín orð) sé þessi sveigjanleiki dýru verði keyptur.

Verðið sem við greiðum fyrir sveigjanleikann eru himinháir vextir ár eftir ár. Frá árinu 1995 og til ársloka 2007 var vaxtamunur við útlönd að meðaltali um 5%.......Lántökukostnaður í krónum var því að meðaltali um 5% á ári hærri en í viðskiptaveginni myntkörfu á þessu 12 ára tímabili. Það segir sig sjálft að það er verulegur baggi fyrir íslenskt atvinnulíf að búa við 5% hærri fjármagnskostnað en fyrirtæki í öðrum löndum.

Jón sýnir þessu næst fram á að háir vextir eru óhjákvæmilegur fylgifiskur krónunnar vegna tilhneigingar hennar að falla í kreppum.

Eignir sem gefa vel af sér þegar kreppir að eru sérstaklega aðlaðandi fyrir fjárfesta þar sem það er einmitt þegar kreppir að sem fjármagn er mest virði......Eignir sem á hinn bóginn gefa illa af sér þegar kreppir að eru af sömu ástæðu sérstaklega óaðlaðandi fyrir fjárfesta. Slíkar eignir magna niðursveifluna fyrir eigendur sína í stað þess að dempa hana. Fjárfestar vilja því fá sérstaklega háa ávöxtun fyrir að eiga slíkar eignir.

Niðurstaða hagfræðingsins er að ef við viljum losna við verðtrygginguna og okurvexti verður að skipta um gjaldmiðil.

Margir kvarta sáran yfir okurvöxtum og vísitölutengingu lána á Íslandi. En sömu aðilar eru oft svarnir andstæðingar þess að krónunni sé kastað og annar gjaldmiðill tekinn upp í staðinn. Þessir aðilar vilja borða kökuna og eiga hana. Í rauninni er eini raunhæfi möguleikinn til þess að losna við okurvexti og vísitölutengingu lána að við köstum krónunni.

Grein Jóns Steinssonar má finna í heild sinni á þessari slóð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Theódór Norðkvist

Höfundur

Theódór Norðkvist
Theódór Norðkvist

Vettvangur fyrir það sem mér liggur á hjarta.

Nýjustu myndböndin

Sambataktar í Malmö

Sambataktar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband